Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Nú að nýafstaðinni kjarasamningagerð hljóta menn að standa við og reyna að meta árangur þess sem gerst hefur. Það er ljóst að um þessa samninga er víðtækara samkomulag en áður hefur gerst þar sem að því standa aðilar vinnumarkaðarins, opinberir starfsmenn, Stéttarsamband bænda, bankarnir og ríkisvaldið. Samfylking á þennan máta hefur aldrei fyrr tekist á landi okkar og hvernig til tekst með framkvæmd og niðurstöður veltur augljóslega á því að enginn hlekkur samfylkingarinnar bili og enginn hlekkur í samkomulaginu og framkvæmdinni.
    Yfirlýst markmið samninganna eru að draga úr verðbólgu, stöðva kaupmáttarfall, tryggja kaupmátt launa og koma á stöðugleika í atvinnulífi og treysta atvinnu. Öll þessi markmið hafa verið uppi við samningagerð svo lengi sem elstu menn muna en árangurinn verið misjafn, einkum þó í glímunni við verðbólguna. Treysta menn því nú að þessum markmiðum verði náð fremur en áður? Aðferðirnar til að ná markmiðunum virðast mér þó nokkuð í lausu lofti og sumar varla líklegar til að ná fram að ganga. Nefna má baráttuna við vextina sem hafa að vísu nokkuð þokast niður á við að undanförnu en þó engan veginn í þeim mæli sem ríkisstjórnin boðaði að skyldi verða þegar hún settist að völdum. Er ástæða til að ætla að það takist nú fremur en áður að ná vöxtunum niður að því marki sem ætlað er? Raunvextir eru enn mjög háir og verða sýnilega enn um sinn.
    Þessir samningar eru á þann veg að í mínum huga vekja þeir fleiri spurningar en svarað er og í máli hæstv. forsrh. hér fyrr í dag var engum
spurningum svarað, menn taki eftir því. Það er athugandi, að hvað varðar stefnu í gengismálum er sýnilega verið að lofa hlutum sem mjög erfitt er að standa við ef ytri aðstæður breytast. Bændur hafa fallist á að búvöruverð til þeirra breytist ekki fram að 1. des. ef forsendur kjarasamninganna halda. Ríkisstjórnin ábyrgist að verð til verslana hækki ekki. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að koma í veg fyrir verðhækkanir ef verslunaraðilar telja þess þurfa? Það eru ótal fyrirheit og loforð í þessum samningum sem eru öll svífandi í lausu lofti eins og ávallt hefur verið við kjarasamningagerð og engan veginn verður séð að hægt sé að standa við. Enda hefur raunin of oft orðið sú að fyrirheit og loforð við samninga hafa ekki haldið og því eru uppi efasemdir um að allt gangi eftir sem þeir samningar boða.
    Það var gert samkomulag við ríkið um að opinber fyrirtæki hækki gjaldskrá sína minna en áætlað var. Þarna er gripið inn í gildandi fjárlög þar sem stofnunum var gert í fjárlögum að þenja bogann til þess ýtrasta við skil á sértekjum. Það er augljóst að fái þær ekki að hækka gjaldskrár svo sem ætlað var riðlast allar rekstraráætlanir þeirra og ríkið hlýtur að verða af sértekjum í einhverjum mæli. Hvernig verður því mætt þegar fjárlögin og forsendur þeirra fara meira og minna um allan völl?

    Í samningunum er gert ráð fyrir að sveitarfélög endurskoði gjaldskrár sínar. Það hefur komið glöggt í ljós í allri umræðu á undanförnum mánuðum að sveitarfélög í landinu eru yfirleitt mjög illa stæð, með örfáum undantekningum. Ég fæ ekki séð að þau séu yfirleitt fær um að mæta því að tekjur þeirra dragist enn saman. Dragi þau úr framkvæmdum eykst atvinnuleysi. Lækki þau útsvarsálagningu kunna þau að tapa rétti til framlaga úr Jöfnunarsjóði og hvað eiga þau þá að skera niður?
    Bændur hafa, eins og ég vék að áðan, fallið frá launahækkunum og taka á sig kostnaðarhækkanir til 1. des. Þá má minna á að við fjárlagaafgreiðslu benti stjórnarandstaðan ítrekað á að ætlaði ríkisstjórnin að standa við loforð sem þá voru uppi um að búvöruverð hækkaði ekki til neytenda eftir áramót, þá vantaði 300--400 millj. inn í fjárlögin. Þessu var aldrei ansað af stjórnarliðum og því vil ég mótmæla að þetta fé verði talið til kostnaðar við kjarasamningana. Þetta var og er vanáætlun á fjárlögum. Ég fæ ekki séð annað en bændur hljóti að leggja mjög hart að sér við þessa samninga. Þeir standa nú á þessum árum í erfiðum búháttabreytingum og bændur hafa mjög mismunandi tekjur. Nægir í því sambandi að minna á að 40% af búum bera ekki nema eitt ársverk eða minna. Hvernig verða kjör þessara manna við þessa samninga?
    Kjarasamningar byggja á því að verðlagsáætlun og áætlun um kaupmátt standist. Fari hún úr skorðum kemur til kasta launanefndar og hvert er vald hennar? Verða úrskurðir hennar e.t.v. aðeins teknir sem vinsamlegar ábendingar til stjórnvalda? Verður yfirleitt eitthvað gert með ábendingar og úrskurði? Ef ekki er samkomulag innan launanefndar þá eru allir samningar lausir. Það er augljóst að yfirlýstur grundvöllur þessara kjarasamninga, minnkandi verðbólga, lækkandi vextir og stöðugt gengi, hann er valtur. Allt veltur á því að enginn hlekkur bili í þessu víðtæka samkomulagi sem náðist. Bresti einn af þessum hlekkjum er allt farið út um þúfur og þá situr láglaunafólkið uppi með það að hafa samið um léleg kjör til langs tíma.
    Í þessum samningum reynir vitanlega fyrst og fremst á ríkisstjórnina. Hennar hlutur er stærstur. Þar reynir á samstöðu og samheldni sem aldrei fyrr. Störf ríkisstjórnarinnar hafa hingað til einkennst af sundurlyndi og flumbrugangi og
er þessa nauðsynlegu samstöðu að finna þar nú? Það er ein spurningin enn sem ósvarað er.
    Ég vil aðeins víkja að því hvernig þessir samningar koma við láglaunafólkið, það fólk sem þessir samningar snúa að. Það er samið á mjög hógværum nótum af þeirra hálfu sem semja fyrir þetta fólk. Það er samið um kaupmáttarrýrnun. Það hefur aftur á móti hvergi komið fram enn þá hverjir eiga að bera kostnaðinn af þessum samningum. Verður ráðist að velferðarkerfinu? Kemur kostnaðurinn fram í þyngri álögum á það fólk sem verið er að semja við um smánarlaun. Smánarlaun eru hér skjallega viðurkennd með ákvæðinu um láglaunabætur. Þessar bætur, svo lúsarlegar sem þær eru, eru nefnilega viðurkenning á

því að hér séu greidd laun sem eru langt undir því að duga til lífsviðurværis. Hver er hér inni sem treystir sér til að lifa af 60 þús. kr. launum eða minna og greiða 30--40 þús. kr. í húsaleigu sem er algengasta markaðsverðið? Í atvinnuleysinu bætir fólk ekki tekjurnar með því að vinna fleiri en eitt starf því að störf er ekki hægt að fá. Láglaunafólkið, hvaða fólk er það? Það eru konur fyrst og fremst og nú er þeim gert að lifa á hungurmörkunum á þessu ári og fram á það næsta. Þær eiga að vera burðarásinn í því marglofaða jafnvægisástandi sem samningaaðilarnir telja sig vera að skapa við títtnefnda samninga.
    Sífellt er klifað á því jafnvægi sem þurfi að skapast til þess að við séum samkeppnisfær með tilliti til samninga við EB og EFTA. Láglaunafólk þessa lands, sem er aðallega konur, hefur undanfarin ár sífellt verið að taka á sig kjaraskerðingar til að svokallað jafnvægi skapist innan lands. Nú er þessum sömu láglaunahópum ætlað að taka á sig kaupmáttarskerðingu til að skapa eitthvert alþjóðlegt jafnvægi. Það eru láglaunakonurnar í landinu sem eiga að bera það uppi, jafnvægi, stöðugleika, ,,hóflegt atvinnuleysi`` og fátækt.