Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið og ekki vera hér að vitna til fortíðarinnar eins og mönnum er mjög tamt úr þessum ræðustól, bæði hæstv. ráðherrum og alveg sérstaklega hæstv. fjmrh. og öðrum þingmönnum.
    Málið er í raun ósköp einfalt í mínum huga. Hér hafa verið gerðir kjarasamningar sem geta, ef rétt er á málum haldið, orðið tímamótasamningar. Það á framtíðin að vísu eftir að leiða í ljós. Hér hafa tekist samningar þar sem launafólk hefur í raun tekið á sig kjaraskerðingu, kaupmáttarskerðingu upp á um 1%. Bara það eitt út af fyrir sig eru að sjálfsögðu tímamót. Það sem þarf að tryggja er að sjálfsögðu það að ríkisvaldið standi við sinn þátt í þessum samningum. Það er kannski megináhyggjuefnið þessa dagana því reynslan hefur leitt það í ljós að í gegnum tíðina hefur ríkisvaldið sí og æ komið aftan að launafólki eftir að gerðir hafa verið samningar. Þess vegna er það meginatriðið að tryggja að ríkisvaldið standi við gefin fyrirheit.
    Það hefur hins vegar komið fram hér í dag að ríkisvaldið veit ekki enn hvernig það ætlar sér að standa við fyrirheitin. Engin svör hafa komið frá ráðherrum í þá veru. Þeir hafa hins vegar óhikað kallað eftir hugmyndum frá stjórnarandstöðu og er það náttúrlega von því að þar er helst að finna einhver úrræði. Ekki er þau að finna í herbúðum stjórnarliða.
    Úrræði til niðurskurðar eða sparnaðar geta verið fjölmörg. Hér hafa verið nefnd dæmi eins og frestun á framkvæmdum við Þjóðleikhús, sem er liður sem ég get heils hugar tekið undir að þar megi spara verulegar fjárhæðir. Það hefur verið talað um Bessastaði að þar mætti spara einnig ákveðna upphæð. Undir það get ég líka tekið og sjálfsagt er hægt að spara á fleiri sviðum. Ég vil benda á eina hugmynd sem Frjálslyndi hægriflokkurinn mun setja í frumvarpsform innan tíðar. Hún er sú að afnema Tóbakseinkasölu ríkisins og færa yfir í
einkageirann. Þar er hægt að spara verulegar fjárhæðir. Menn geta skoðað það dæmi þar sem verið er að flytja inn tóbak fyrir að ég hygg 600--700 millj. kr. á ári með tilheyrandi lagerkostnaði, húsnæðiskostnaði undir lager, með tilheyrandi söluliði, með tilheyrandi skrifstofufólki, með tilheyrandi dreifingarkostnaði. Allt er þetta upp á marga, marga tugi millj. kr. ef ekki hundruð til þess eins að þjónusta tvo umboðsaðila í landinu. Hér eru hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn náttúrlega að vernda einkaframtakið umfram aðra. Þarna er hægt að spara stórar upphæðir og ég bendi hæstv. fjmrh. á að skoða þennan lið.
    Í annan stað vil ég gjarnan fá upplýst hjá hæstv. fjmrh., og hefði gjarnan viljað fá það frá hæstv. forsrh. sem ekki er hér viðstaddur, en það varðar lánskjaravísitölu og aðrar vísitölur. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar segir undir liðnum Fjármagnskostnaður, með leyfi forseta:
    ,,Stefnt verður að því að afnema vísitöluviðmiðanir í lánssamningum eins fljótt og unnt er. Miðað verður

við að árshraði verðbólgu verði innan við 10% á sex mánaða tímabili.``
    Nú er það upplýst að þessir kjarasamningar munu leiða til þess, standist forsendur þeirra, að verðbólga verður hér sennilega á bilinu 6--7%. Því vildi ég gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann hyggst virða málefnasamninginn og hvort við megum þá búast við því að vísitöluviðmiðanir verði teknar úr sambandi. Það er afar brýnt að fá hér upplýst hvort ríkisstjórnin hyggst standa við stóru orðin varðandi vísitölur eður ei.
    Hæstv. forseti. Eins og ég segi: Málið er afar einfalt í mínum huga. Það hafa verið gerðir kjarasamningar og til þess að þeir fái staðist þarf ríkisvaldið að standa við sitt. Um þetta mál hef ég ekki fleira að segja.