Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Fyrri ræðumönnum í þessari umræðu hefur orðið tíðrætt um að hér hafi verið gerðir tímamótasamningar. Það er auðvitað nú eins og endranær að sagan ein getur skorið úr því hvort þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru í síðustu viku muni marka tímamót í íslenskum efnahagsmálum með því að binda endi á það langvarandi verðbólguskeið sem hér hefur staðið. Hvað sem þessum væntanlega úrskurði sögunnar líður er þó alveg víst að þessir samningar eru sögulegir fyrir það að þeir fela í sér markvissa viðleitni til að ná verðbólgu niður í lægri tölur en dæmi eru um í tvo áratugi. Með þessum samningum hafa samtök atvinnurekenda viðurkennt að verðbólgan sé versti óvinur fyrirtækjanna og að það dugi ekki að vísa óraunhæfum kjarasamningum til stjórnvalda til úrlausnar. Samtök launafólks hafa viðurkennt í verki að varanlegar kjarabætur fylgja ekki launahækkunum sem jafnharðan eru teknar til baka með verðbólgu. Þessir aðilar hafa nú bundist samtökum um að vinna að framgangi stærsta sameiginlega hagsmunamáls síns, að kveða niður verðbólguna. Leggja þeir þannig grunn að efnahagsframförum og félagslegum umbótum. Forustumenn samtaka launafólks og atvinnurekenda eiga vissulega mikið hrós skilið fyrir að eiga frumkvæði að þessari merkilegu, þjóðfélagslegu tilraun. Ég vil hér sérstaklega nefna forustu Verkamannasambandsins og forustu Alþýðusambandsins. Það vita þeir sem hafa komið nærri kjarasamningum að slíkur árangur næst ekki nema með mikilli fyrirhöfn, ekki nema með starfi fjölda manna. Það kom fram hér áðan í máli hv. 4. þm. Reykn. hversu margir hafa hér lagt hönd á plóg. Það er því mikið í húfi að þessi tilraun takist og það er að nokkru leyti á okkar ábyrgð alþm. að sjá til þess að hún geri það.
    Þótt aðilar vinnumarkaðarins eigi auðvitað mestan heiður af nýgerðum kjarasamningum er hlutur stjórnvalda ósmár. Ég nefni í fyrsta lagi beinan þátt ríkisstjórnarinnar í lokagerð samninganna. Ríkisstjórnin hefur,
eins og forsætisráðherra gerði hér rækilega grein fyrir, samþykkt ýmsar ráðstafanir til að halda aftur af hækkun verðlags. Þar á meðal hefur hún aukið niðurgreiðslur vöruverðs til að lækka búvöruverð þrátt fyrir að svigrúm í ríkisfjármálum sé lítið sem ekkert um þessar mundir. Það er því mjög mikilvægt að ríkisfjármálin verði tekin föstum tökum í kjölfar samninganna og það er æskilegt að einn liðurinn í þeirri viðleitni verði endurskoðun búvöruverðs og fyrirkomulags ákvarðana verðs á búvörum. Í þessu felst reyndar endurskoðun á stefnunni í landbúnaðarmálum í átt til aukinnar hagkvæmni. Samningsaðilarnir hafa sýnt þessu máli mikinn skilning og það er mikilvægt að um þau málefni takist þjóðarsátt. Þetta nefni ég í fyrsta lagi.
    En ég nefni í öðru lagi, og það skiptir reyndar miklu meira máli, og það er að það er stefna þessarar

ríkisstjórnar í efnahagsmálum frá því haustið 1988 sem hefur skapað forsendur fyrir því að unnt væri að gera þá kjarasamninga sem nú hafa orðið að veruleika. Ég bið menn einungis að velta því fyrir sér hvort nokkur von hefði verið til þess að slíkir samningar hefðu náðst ef ekki hefði fyrst tekist hægum en öruggum skrefum að lagfæra rekstrargrundvöll höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Gengisfellingarleiðin, sem sjálfstæðismenn mæltu með haustið 1988, hefði aldrei getað leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú hefur fengist. Það er reyndar hin hægfara leiðrétting raungengisins sem hefur lagt grundvöllinn að þessu samningum.
    Ég minni á þetta m.a. af því að hv 1. þm. Suðurl. og formaður Sjálfstfl. hefur hér í þessari umræðu sagt að þessir samningar gangi þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann gekk meira að segja svo langt að kalla þessa kjarasamninga varnarsigur gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er fjarstæðukennt tal. Ég skil vel að formaður Sjálfstfl. eigi í vandræðum með að túlka þessa merku kjarasamninga sér og sínum flokki í hag. Hvers vegna er það? Það er af því að þessir samningar eru rökrétt framhald af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur markvisst fylgt frá því að hún tók til starfa haustið 1988 og markaði reyndar á ný á liðnu hausti þegar Borgfl. bættist í hana.
    Að kalla ábyrgustu og raunhæfustu kjarasamninga sem gerðir hafa verið hér um áratuga skeið varnarsigur gegn stefnu ríkisstjórnarinnar lýsir í reynd rökþrotum. Hins vegar má gjarnan hrósa hv. 1. þm. Suðurl. fyrir það að hann hefur ekki unnið gegn því að slíkir samningar tækjust. Þvert á móti hefur hann mælt með slíkum samningum. Fyrir það á hann heiður skilið. Að því leyti hefur hann metið stöðuna fullkomlega rétt. Samningarnir hafa náðst nú vegna þess að almenningur hefur séð að við höfum einfaldlega ekki efni á því að gera ekki slíka tilraun, tilraun til þess að koma verðbólgu á Íslandi niður á stig nágrannalandanna til þess að reyna að koma hér á þeim stöðugleika í hinu efnahagslega umhverfi atvinnulífsins að mönnum gefist ráðrúm til þess að koma við skipulagsumbótum í atvinnurekstri og reyndar leggja grunn að félagslegum umbótum.
    Við getum gert þá tilraun í huganum að prófa hvernig þeim, sem segja að það sé stjórninni ekki að þakka að þessir samningar náðust, hefði orðið við hefðu samningarnir ekki náðst. Ætli stjórnvöldum hefði þá ekki verið kennt um og
ábyrgð þeirra verið talin mikil á því ástandi sem þá hefði skapast? En auðvitað er björninn ekki unninn þótt kjarasamningarnir hafi verið undirritaðir. Það er ýmislegt sem þarf til að koma til þess að nýgerðir samningar marki þau tímamót sem e.t.v. er nú tækifæri til að ná. Stjórnvöld, samtök launafólks og atvinnurekenda, opinber fyrirtæki og fjármálastofnanir, þurfa að vinna ötullega saman að því að forsendur kjarasamninganna haldi. Það væri til lítils unnið ef aðhaldsleysi í ríkisfjármálum, peningamálum eða gengismálum græfi undan markmiðum kjarasamninganna á næstu missirum. Þess vegna vil ég

segja það hér að ég tel þau orð hv. 1. þm. Suðurl. sem að því viku að hann byði samstarf um lausn á ríkisfjármálavandanum einkar athyglisverða yfirlýsingu.
    Hér í umræðunum hefur nokkuð verið vikið að vaxtamálum og það er að vonum því að bankarnir og vextirnir hafa einatt verið blóraböggull í umræðum um íslensk efnahagsmál. Nú bregður hins vegar nýrra við því viðskiptabankar og sparisjóðir hafa vissulega lagt sitt af mörkum til þess að þessir kjarasamningar næðust með því að lýsa yfir að þeir mundu standa að skjótari vaxtalækkun í kjölfar nýrra samninga en ella hefði getað orðið. Þeir hafa gert meira en að lýsa þessu yfir. Þeir hafa framkvæmt slíka lækkun um síðustu mánaðamót. Að baki þessum breytingum býr að sjálfsögðu betra jafnvægi og aukinn sveigjanleiki á fjármagnsmarkaði, en það eru einmitt þessir eiginleikar sem munu tryggja góðan árangur á þessu sviði eins og á öðrum sviðum efnahagsmála. Bankar og sparisjóðir fóru einnig fram á það, eftir viðræður við samningsaðilana og viðskrn., að efna skyldi til sameiginlegrar athugunar og aðgerða bankakerfisins og ríkisstjórnarinnar í því skyni að tryggja að vaxtalækkun til samræmis við ört lækkandi verðbólgu fengi staðist til lengdar. Ríkisstjórnin varð auðvitað þegar við þessu og strax 31. jan., áður en samningarnir tókust, skipaði ég sérstakan starfshóp til að kanna leiðir til þess að ná þessu marki, en það er einmitt ein af höfuðforsendum kjarasamninganna að dregið verði úr fjármagnskostnaði fólks og fyrirtækja. Ríkisstjórnin mun beita sér af krafti fyrir því að það takist.
    Hér var að því vikið af hálfu hv. 5. þm. Vesturl. og fyrr af hálfu hv. 6. þm. Norðurl. e. hvað verða mundi með breytingar á vísitöluviðmiðunum á fjármagnsmarkaðinum. Í því sambandi vil ég vitna til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því í haust og samkomulags frá 10. sept. sem þá var gert vegna þess að menn hafa kannski ekki alltaf gætt þess að vitna í alla yfirlýsinguna um þetta efni en hún er svona, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stefnt verður að því að afnema innlendar vísitöluviðmiðanir í lánssamningum eins fljótt og unnt er. Miðað verður við að árshraði verðbólgu verði innan við 10% á sex mánaða tímabili. Vísitölutenging fjárskuldbindinga til langs tíma verður athuguð sérstaklega og þess gætt að markaðsstaða spariskírteina ríkissjóðs veikist ekki. Áfram verður heimilt að gengistryggja lánssamninga.``
    Þetta er yfirlýsingin og að sjálfsögðu verður að henni hugað um leið og við hyggjum að því að laga íslenska fjármagnsmarkaðinn að breyttum aðstæðum í Evrópu, m.a. með því að rýmka heimildir innlendra aðila til þess að eiga viðskipti við erlenda banka án ríkisábyrgðar og njóta þaðan fjármagnsþjónustu. Þannig fá innlendar lánastofnanir aðhald. En það er einmitt einn af kostum þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið gerðir að færi gefst til slíkra skynsamlegra skipulagsbreytinga í okkar efnahagsmálum.
    Virðulegi forseti. Það sem er örugglega sögulegt við þá samninga sem nú hafa náðst er það að nú

hefur tekist með frjálsum ákvörðunum, bæði á vinnumarkaði og fjármagnsmarkaði, að nálgast langþráð efnahagslegt jafnvægi. Það er mikið fagnaðarefni að það skuli hafa tekist að koma á slíkri samstillingu meginstærðanna í þjóðarbúskapnum án lögþvingunar. Þetta er lýðræðislegur sigur, sigur fyrir valddreifingarstefnuna. Ríkisstjórninni hefur tekist að búa þau almennu skilyrði sem þarf til þess að aðilarnir á vinnumarkaðnum treysti sér til að taka raunhæfar ákvarðanir á eigin ábyrgð. Það er eins og nú hafi tekist að koma málum svo fyrir að menn treysti hver öðrum. Það er aðal góðra stjórnarhátta en ekki sköruleg valdbeiting. Það er von að allir vilji þá Lilju kveðið hafa. Ég segi reyndar eins og sagt var í frægum ritdómi: Loksins, loksins!