Tilkynning frá forsætisráðherra um kjarasamninga
Þriðjudaginn 06. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur komið glöggt fram í þessum umræðum sem og raunar síðustu dagana að þeir kjarasamningar sem við höfum verið að ræða hér í dag eru auðvitað afrakstur af víðtæku samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Þar hafa nýir menn komið til sögu og málin hafa verið tekin ferskum tökum. Niðurstaðan er sá samningur sem nú liggur fyrir og er þegar farið að greiða atkvæði um í einstökum verkalýðsfélögum og verður gert áfram næstu daga. Bændur hafa komið inn í þessa samninga í fyrsta sinn í nokkur ár og gefið eftir af sínum hlut. Þeir taka á sig óbreytt verð fram að 1. des. á þessu ári. Það má auðvitað gæta sín á því að það verði ekki framkvæmt á þann veg að verð til sauðfjárbænda verði fryst í tvö ár vegna þess að haustgrundvallarverð er ákveðið í september. Þetta er vitaskuld framkvæmdaratriði sem ekki er enn ljóst hvernig verður meðhöndlað.
    Eigi að síður er niðurstaðan af þessum samningum nýr efnahagsgrundvöllur eins og hér hefur verið skýrt, m.a. af hv. 1. þm. Suðurl., efnahagsgrundvöllur sem hæstv. ríkisstjórn gat ekki hafnað en átti lítinn hlut að.
    Nú skal ég ekki kvarta undan því að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki eiga meiri hlut að þessum samningum. Það er auðvitað eðli málsins samkvæmt hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja. Það er þeim til lofs ef þeim tekst að koma saman samningum sem eru með þeim hætti að tiltölulega lítið þarf að leita á náðir ríkisvaldsins. Nú held ég að fáum blandist hugur um það að þarna eiga tilteknir forustumenn þakkir skildar ef við teljum að þessir samningar verði til góðs. Ég er í þeirra hópi og lít svo á að þarna hafi verið farin leið sem sé þess efnis að aðrar skárri hafi ekki verið fyrir hendi. En ekki eru allir sammála um það í þessari umræðu hverjum beri að þakka þessa samninga. Þannig flutti hæstv. fjmrh. ræðu og taldi þessa samninga ríkisstjórninni að þakka. Hann datt á gamalt lag að flytja ræðukafla
sem hann flutti oft hér fyrri partinn í vetur á hv. Alþingi um að ríkisstjórnin hefði mótað nýjan efnahagsgrundvöll. Hann sagði að það væri verkáætlun hæstv. ríkisstjórnar sem hefði komið því til leiðar að nú væri hægt að gera kjarasamning á þessum nótum. Mér þótti þetta nokkuð athyglisvert með verkáætlun ríkisstjórnarinnar. Það væri þá a.m.k. hægt að spyrja sem svo hvort það væri þá ekki verkáætlun ríkisstjórnarinnar að þakka eða kenna að hallarekstur atvinnuveganna hefur haldið áfram allan þann tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið, með þeim árangri að fyrirtækin hafa verið að leggja upp laupana, þau hafa orðið gjaldþrota. Er það kannski í samræmi við verkáætlun ríkisstjórnarinnar að á síðasta ári urðu 2300 gjaldþrot í Reykjavík? Og er það kannski verkáætlun ríkisstjórnarinnar sem hefur komið því til leiðar að raunvextir á síðasta ári voru tvöfalt hærri en á árinu 1987? Hv. síðasti ræðumaður nefndi atvinnuleysið. Væntanlega er það þá í samræmi við þessa verkáætlun hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh.
    Það var mjög athyglisvert að hæstv. fjmrh. skyldi

finna yfir þetta ástand sem er hér í efnahags- og atvinnumálum þetta nýja orð og kenna það svo rækilega við hæstv. ríkisstjórn að það væri beinlínis samkvæmt verkáætlun hennar að ástandið væri með þeim hætti sem við höfum verið að horfa framan í á undanförnum vikum og mánuðum, raunar missirum. Þáttur í því er sú hrikalega byggðaröskun sem við stöndum nú frammi fyrir og er alvarlegri en verið hefur nokkru sinni fyrr, sagði hæstv. forseti Nd. hér fyrir stuttu síðan í umræðum á Alþingi. Byggðaröskun sem er með þeim hætti að nú í fyrsta sinn stöndum við frammi fyrir því að hætta er á að heil byggðarlög leggist í auðn. Væntanlega er allt þetta, allur þessi grundvöllur sem hæstv. fjmrh. talar nú oft um, í samræmi við þessa verkáætlun hæstv. ríkisstjórnar sem hann nefndi hér áðan. Það er svo ekki vafi á því að það er í samræmi við verkáætlun hæstv. ríkisstjórnar að þær skuldbreytingar sem gerðar hafa verið af millifærslukerfinu síðan þessi ríkisstjórn tók til starfa koma af fullum þunga til gjalda á árinu 1992 og að hluta til á árinu 1991 eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur lokið göngu sinni. Þær skuldbreytingar eru með ríkisábyrgð og það verður ekki léttara verk þá að fást við fjármál ríkisins samkvæmt verkáætlun þessarar ríkisstjórnar en það er nú því að ég ætla að þessar skuldbreytingar séu eigi minni en 7--8 milljarðar. Þannig að það er ýmislegt athugavert við þá verkáætlun sem þessi hæstv. ríkisstjórn virðist hafa starfað eftir og hæstv. fjmrh. lýsti hér áðan í sinni ræðu.
    Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið eru auðvitað með þeim hætti sem raun ber vitni vegna þeirrar hrikalegu stöðu sem nú er í atvinnumálum og efnahagsmálum þjóðarinnar, kjaramálum launafólks með þverrandi kaupmætti, minnkandi atvinnuöryggi og hrikalegri stöðu undirstöðugreina atvinnulífsins. Þess vegna er svigrúmið ekkert. Þess vegna er það að verkalýðsfélögin taka þátt í að gera samninga sem ekki færa þeim aukinn kaupmátt heldur hið gagnstæða. Þrátt fyrir að þeim hafi tekist að finna leið sem verður til þess að kaupmátturinn á þessu ári yrði um 5% minni heldur en gert var ráð fyrir samkvæmt verkáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er þess vegna athyglisvert að
velta þessum málum nokkuð fyrir sér en með tilliti til þess að nú er liðið nokkuð á kvöld ætla ég ekki að taka til þess öllu lengri tíma.
    En ég tel það hlægilega firru hjá hæstv. fjmrh. að það sé vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hafi skapað einhvern nýjan grunn, eða að verkáætlun hæstv. ríkisstjórnar hafi leitt til þess að það hafi myndast einhver nýr grunnur að þessir samningar hafi verið gerðir.
    Ég minni einnig á að annar hæstv. ráðherra tók hér til máls, hæstv. hagstofuráðherra. Hann flutti einnig ræðu. Og hann komst að þeirri niðurstöðu að kjarasamningarnir nú væru bara Borgfl. að þakka. Og ég verð að segja að eftir ræður þessara tveggja hæstv. ráðherra var það álitamál hvor ræðan var hlægilegri.
    Ég hef hlustað á það hér í dag og raunar fyrr að

hæstv. ríkisstjórn eða forustumenn hennar telja að þessir kjarasamningar kosti ríkissjóð 1200--1300 millj. kr. Það voru þær tölur sem hæstv. forsrh. nefndi. En síðan kom hér einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar og einn af aðilum að þeim kjarasamningi sem hér er verið að ræða um, hv. þm. Karl Steinar Guðnason, og sagði þetta ofmælt. Áhrif kjarasamninganna á ríkissjóð væru um 500--600 millj. kr. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni.
    Nú hlýt ég að verða að rifja upp að fjárlög voru afgreidd með 3,7 milljarða halla. En það var ekki nema hluti hallans sem þá var festur á blað. Hluti af hallanum var dulinn og með fölskum tölum var honum leynt. Ég komst að þeirri niðurstöðu þegar fjárlög voru afgreidd að þessi hluti hallans, sem geymdur væri uppi í fjmrn. í skúffum hæstv. fjmrh. eins og ég orðaði það þá, væri í kringum 3 milljarðar. Ég taldi upp fjölmarga liði sem gerðu heldur meira en það að fylla þessa 3 milljarða. En ýmsir þeirra voru með þeim hætti að ég held að allir kunnugir hafi vitað að litlar eða engar líkur voru til annars en að þeir kæmu til gjalda hjá ríkissjóði er liði á árið. Svo er með meginhlutann af því sem er í kjölfar þessara kjarasamninga ákveðið að verja til niðurgreiðslna. Ég held einnig að allir hafi vitað að frítekjumark tekjutryggingarþega yrði ekki óbreytt eins og það var við áætlun þeirra fjárlaga. Ég lít því svo á að það sé rétt sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason segir, að það sem raunverulega hefur áhrif á afkomu ríkissjóðs, þ.e. útkomuna úr greiðslum og gjöldum ríkissjóðs á þessu ári, séu fremur 500--600 millj. en 1200--1300 millj. Nú vil ég gjarnan fagna þessum liðsmanni úr röðum hv. stjórnarsinna hér á Alþingi sem tekur undir með mér og lýsir því yfir eins og ég gerði við afgreiðslu fjárlaga að tölum og útgjöldum hefði verið leynt, að allir væru búnir að sjá --- hann sagði: Allir eru búnir að sjá að farið var með falskar tölur við afgreiðslu fjárlaga. Vandinn var meiri, hallinn var meiri en kom fram á pappírnum. Ég tel að þetta sé hv. þm. til hróss. Hann hefur auðvitað komist að þessari niðurstöðu þegar hann fór að athuga sín mál í tengslum við kjarasamningana og það er honum til hróss að viðurkenna þetta og ég fagna þessum liðsmanni mínum.
    Nú er hæstv. ríkisstjórn búin að lýsa því yfir að hún hyggist draga úr útgjöldum ríkissjóðs til að mæta því sem afleiðingar kjarasamninganna segja til um, hvort sem það er nú 500--600 millj. eða 1200--1300 millj. Það væri full þörf á því að það væri stærri talan vegna þess að vandinn er miklu meiri en þetta. Það er vitaskuld hlutverk hæstv. fjmrh. að gera tillögur um þann niðurskurð eða þann sparnað í útgjöldum ríkissjóðs sem fréttir berast um að hann hafi sýnt tillögur um innan ríkisstjórnarinnar. Ég held að þær séu auðvitað býsna athyglisverðar þær fréttir ýmsar sem frá stjórnarheimilinu berast um þetta efni og skal ég ekkert fara fleiri orðum um það en hér hefur verið gert. En jafnframt því að á sama tíma sem hæstv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir þessum vanda, sem

vissulega er vandi, þá eru hæstv. ráðherrar út og suður að boða aukin útgjöld og hæstv. ráðherrar veigra sér ekki við að kaupa bíla af dýrustu gerð, ráða sér starfsmenn, aðstoðarmenn bara eftir hendinni eins og þeim þykir við þurfa. Þetta er auðvitað ljós vottur um það að það er ekki heildarstjórn á þessum málum hjá hæstv. ríkisstjórn og hjá hæstv. fjmrh. Það er auðvitað hans hlutverk að ná fastari tökum á meðferð þessara mála og koma í veg fyrir það bruðl sem á sér stað í útgjöldum ríkisins.
    Hér hefur því verið lýst yfir af formanni Sjálfstfl. að fulltrúar Sjálfstfl. séu reiðubúnir til að taka þátt í starfi að þessum efnum og ég tek undir hans orð. Það er eigi að síður hæstv. ríkisstjórn sem hefur gefið fyrirheit um þennan niðurskurð. Ríkisstjórnin hefur tekið þetta að sér og ríkisstjórnin verður að leggja fram tillögur.
    Nú kallsaði hæstv. fjmrh. við mig hér í hliðarherbergi áðan að ég mætti gjarnan koma með niðurskurðartillögur. ( Fjmrh.: Ég vitnaði bara í Friðrik Sophusson.) Já, og vitnaði í Friðrik Sophusson, hv. 1. þm. Reykv. Sá hv. þm. hefur ekki rætt það við mig en ég mundi auðvitað ekki hliðra mér hjá því að taka á mig að gera slíkar tillögur ef ég væri í hlutverki fjmrh. Það væri sjálfsagt mál. En ég get auðvitað bent hæstv. fjmrh. á leiðir í þessu efni og það hér úr þessum ræðustól án þess að þurfa nokkuð að fara vítt yfir sviðið. Við vorum hér að tala t.d. um umhverfisráðuneyti í dag. Það er nærtækt. Það eru rúmar 20
millj., 22--23 millj. Það munar um það. En ég ætla að minna á það, hæstv. fjmrh., úr því að hæstv. fjmrh. fer fram á þetta við mig, að þegar fjárlagafrv. var lagt fram sl. haust kom í ljós að áætlað var að útgjöld fjmrn. hækkuðu úr 3540 millj. kr. í 5344 millj. kr. eða um 1804 millj. kr. frá fjárlögum 1989 til fjárlagafrv. fyrir árið 1990, eða um 51%, meðan gert var ráð fyrir því að verðlag hækkaði um 16%. Þá voru tillögur hæstv. fjmrh. þannig í hans eigin frv. að útgjöld hans eigin ráðuneytis hækkuðu um 51% á milli ára, í krónum talið 1804 millj. kr. Nú fór það svo að Alþingi lækkaði nokkuð útgjöld fjmrn. við afgreiðslu fjárlaga þannig að útgjöldin urðu í fjárlögum 5062 millj. kr. ( Fjmrh.: Svona hundakúnstir eru fyrir neðan virðingu þingmannsins.) Hundakúnstir. Hæstv. ráðherra var að biðja um ábendingar um niðurskurð. 5062 millj. kr. ( Fjmrh.: Þingmaðurinn veit hvað voru stærstu liðirnir í þessu.) Hæstv. fjmrh. getur fengið orðið hér á eftir ef hann þolir ekki að hlusta á það sem hann er að biðja um. Hækkun á milli ára varð því 1522 millj. kr. Ef hæstv. fjmrh. hefði látið sér nægja að hækka á milli ára um 16% eins og verðlagshækkun var, þá væri hægt að spara 956 millj. kr. í hans eigin ráðuneyti, 956 millj. kr. og er þá komið langleiðina í þann niðurskurð sem þarf til þess að mæta 1200--1300 millj. kr. sem hæstv. forsrh. nefndi hér í dag.
    Mér þótti rétt að benda hæstv. ráðherra á þetta úr því að hann bað mig um það og hér úr þessum ræðustól. Það er nú svo að þeir sem ekki taka til

heima hjá sér eiga einnig í erfiðleikum með að taka til á hinum bæjunum. Og ef einstakir fagráðherrar í þessari hæstv. ríkisstjórn eru óþekkir og vilja ekki skera niður og, eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði, ættu því að víkja og fá sér aðra vinnu, þá er það kannski að einhverju leyti vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur sjálfur látið gamminn geisa í útgjöldum í sínu eigin ráðuneyti og á sinni eigin aðalskrifstofu svo sem hér hefur verið sýnt fram á. Og hefur vanrækt að taka til heima hjá sér. Því er það að ég, eftir beiðni hans sjálfs, gef honum þessar ábendingar hér úr ræðustól að þarna er svigrúm til að spara í útgjöldum ríkissjóðs til að mæta að verulegu leyti því sem hér hefur verið talað um að þyrfti að taka til hendinni varðandi þessa kjarasamninga.