Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það urðu miklar umræður um þetta mál --- mig minnir að það hafi verið í gær --- hér á þinginu, en því miður var ég ekki viðstödd, kom inn í lok þeirra umræðna og veit því ekki gjörla hvernig orðin féllu. En það voru miklar spurningar uppi í huga hv. 3. þm. Vesturl. um það hvort hv. 2. þm. Norðurl. e. talaði í máli sínu fyrir hönd stjórnarandstöðunnar allrar eða síns flokks einungis. Sama spurning vaknaði greinilega einnig í huga hæstv. iðnrh.
    Þá er fyrst að nefna, og það án þess að ég hafi heyrt gjörla hvernig orðin féllu, að fulltrúar annarra stjórnmálasamtaka tala yfirleitt ekki fyrir hönd Kvennalistans, nema um það sé sérstaklega samið og það sérstaklega tekið fram. Hins vegar er ljóst að um skattskyldu orkufyrirtækja ríkja mjög skiptar skoðanir, einnig innan ríkisstjórnarinnar, og því er mjög eðlilegt að þingmenn vilji fá að vita hvort um málið ríkir samstaða stjórnarflokkanna eða ekki og það er sjálfsagt að þeir svari fyrir sig. Ekki var heldur hægt að sjá að krafa hv. 2. þm. Norðurl. e. um slíkt væri ósanngjörn þar sem ráðherrar voru hér í húsinu og mætti svo sem bæta því við að það væri nú ekki á hverjum degi sem þeir sæjust. Þingkonur Kvennalistans geta tekið undir það að nauðsynlegt er að fá ótvíræð svör ráðherra um stuðning við málið og svöruðu þeir reyndar fyrir sig í umræðunni sem fór fram hér í gær.
    Ég vil víkja aðeins lítillega að málinu sjálfu, en eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf. hafa landshlutasamtök mótmælt þessu frv. við hæstv. iðnrh. og þá m.a. vegna þess að þessi skattlagning á orkufyrirtækin kunni að leiða til hækkaðs orkuverðs til neytenda. Víst er að orkufyrirtækin eru afar misjafnlega á vegi stödd og þola misvel auknar álögur, sum vel og eru þau aflögufær en önnur illa. Það er einnig ljóst að orkuverð til almennings er mikill fjárhagsbaggi fyrir heimilin víða á landsbyggðinni og má það alls ekki hækka. Er það ekki síst með tilliti til þeirra kjarasamninga sem nú eru nýgerðir og fela í sér verulega kjaraskerðingu, einkum fyrir láglaunafólkið, þrátt fyrir láglaunabætur. Það getur ekki greitt hærra orkuverð. Það er nauðsynlegt að fá glöggar upplýsingar um getu orkufyrirtækjanna til að greiða þann skatt sem hér er lagður til og munu þær væntanlega fást í fjh.- og viðskn. þar sem um þetta frv. verður fjallað. Ég mun því geyma mér frekari umræður um málið þangað til liggur ljósara fyrir hversu raunhæfur þessi skattur er og hvað má ætla að út úr honum fáist fyrir nú mjög bágstaddan ríkissjóð.