Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég óska eftir að hæstv. iðnrh. verði viðstaddur þessa umræðu til þess að ég geti flutt mál mitt. Ég óska eftir að hann verði látinn vita. ( Forseti: Ég mun gera það.) Hvenær er búist við að fundi ljúki í dag? Ég ítreka að ég hafði ekki hugmynd um að hér ætti að halda áfram fundahöldum eftir kl. 4. Eins og ég hef sagt hæstv. forseta var ég búinn að mæla mér mót við mann utan af landi sem ég þarf að reka erindi með nú á milli 4 og 5. Mér skilst að það hafi verið samþykkt á forsetafundi að fundir héldu hér áfram eftir kl. 4, á óvenjulegum fundartíma. Hefði auðvitað verið elskulegt ef hæstv. forseti hefði gengið úr skugga um að þingdeildarmönnum hefði verið kunnugt um þessa breytingu á reglulegum fundartíma. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti fallist á að fundi verði frestað stundarfjórðungi fyrir fimm þannig að mér gefist kostur á að reka þau erindi sem ég hef minnst á, en algengt er að þm. utan af landi þurfi að sinna mönnum úr sínum kjördæmum. --- Ég var að spyrja hvenær búist yrði við því að fundi ljúki. ( Forseti: Það var samið um það á fundi með forsetum og formönnum þingflokka í gær að fundir í deildum stæðu frá kl. 3 allt til kl. 5 en þá mundu þingflokksfundir hefjast. Ég mun að sjálfsögðu ekki halda áfram lengur en til kl. 5, en það mun fara þá eftir því hvernig gengur með þetta mál hvort hægt verður að verða við ósk hv. þm. um að hætta fyrr.)
    Herra forseti. Ég hef haft samband við formann þingflokks Sjálfstfl. og hann segir mér að engir slíkir samningar hafi verið gerðir, en á hinn bóginn hafi forsetar tilkynnt að fundur deildarinnar stæði til kl. 5 þannig að það er ekki um samkomulag að ræða við stjórnarandstöðuna um þetta mál. Nú skal ég ekki um það segja hvort formaður þingflokks Sjálfstfl. hafi sagt mér ósatt, en ég get auðvitað spurt hann að því. ( Forseti: Vegna orða hv. þm. vil ég skýra frá því að það er skriflegt samkomulag milli forseta Nd. og formanna þingflokka að
máli því sem núna er til umræðu í Nd. ljúki á tveimur tímum en vegna ástæðna sem allir þm. voru sammála um var fundi deildar frestað til kl. 3, þannig að vegna þessa samkomulags formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar og forseta Nd. varð að færa fundi fram til kl. 5.) Eins og ummæli forseta bera með sér hefur ekki verið samið um fundartíma í Ed. og mér var ekki kunnugt um það að fundur yrði hér á milli fjögur og fimm, en það er auðvitað alveg augljóst mál ef stjórn fundarins verður hagað með þeim hætti að ég mun ekki geta staðið við þær skuldbindingar sem ég hafði gefið á þessum tíma á milli kl. 4 og 5. Auðvitað verða einstakir deildarmenn, einstakir þm., að sætta sig við stjórn forseta deildarinnar á hverjum tíma. Ég mun að sjálfsögðu ræða það betur við formann þingflokks Sjálfstfl. hvort það sé rétt að hann hafi samið um það að fundur í efri deild stæði til kl. 5. Þingmaður sem hér er inni og sat þennan fund staðfesti að það væri rétt sem formaður þingflokks Sjálfstfl. sagði, að ekkert slíkt

samkomulag hefði verið gert milli þingflokka og forseta þingsins. En það verður svo að vera.
    Ég er þakklátur hæstv. iðnrh. fyrir að gefa sér tíma til að koma hér í deildina. Ég er að sjálfsögðu undrandi á því að hann skyldi senda þau skilaboð til okkar þingdeildarmanna að hann muni ekki kveðja sér hljóðs við þessa umræðu, sjái ekki ástæðu til þess. ( Forseti: Ég sagði ekki ,,við þessa umræðu``, ef mér leyfist að leiðrétta. Ég sagði að hann ætlaði ekki að kveðja sér hljóðs nú.) Ég skil það svo, herra forseti, að ef ég hefði ekki kvatt mér hljóðs hefði umræðunni lokið. ( Forseti: Já.) Þannig að hans ákvörðun stóð á þeim tíma sem hæstv. forseti skýrði frá orðum iðnrh. Hitt er mér náttúrlega ekki ljóst hvort hæstv. iðnrh. muni taka til máls eftir að minni ræðu er lokið. Það verður að ráðast.