Skattskylda orkufyrirtækja
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þegar þetta mál var tekið fyrir 23. jan., kom fram ósk um að umræðum yrði frestað þar til hæstv. iðnrh. væri viðstaddur. Ég tók til máls í þessum þingskapaumræðum og mælti með þessu og sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það sem ég á við er það að samtök allra raforkufyrirtækja í landinu og samtök allra hitaveitna í landinu hafa gert það sem er, mér liggur við að segja einsdæmi. Þessi samtök hafa skrifað hæstv. iðnrh. Jóni Sigurðssyni bréf þar sem farið er fram á að þetta frv. verði dregið til baka. Það er alveg óvenjulegt að svona skuli koma fyrir. Það kann að vera að hægt sé að finna einhver dæmi þess að slík almannasamtök sem hér um ræðir hafi farið fram á að stjfrv. verði dregið til baka, en ég fullyrði að það er mjög óvenjulegt.``
    Ég lít svo á að hæstv. forseti hafi tekið tillit til þessara sjónarmiða og það var ákveðið að fresta umræðum.
    Ég rek ekki gang þessara mála síðan nema ég vil taka það fram að hæstv. iðnrh. hefur ekki tekið þátt í umræðum um þetta mál. Ég minni á það, sem ætti reyndar ekki að þurfa að gera, en vegna iðnrh. þá vil ég taka það fram, að þegar fundur hófst kl. 3 í dag hér í deildinni, um þetta mál, þá tók ég til máls um málið og talaði í um þrjá stundarfjórðunga. Ég gat um það að það væri miður að hæstv. iðnrh. væri ekki viðstaddur. En ég átti ekki von á því að umræðum lyki í dag því ég vissi ekki annað en fundartíminn væri aðeins til kl. 4. Ég átti því von á að hæstv. ráðherra tæki síðar til máls um þetta efni.
    Ég minni á að í umræðum í dag las ég upp bréfið sem Samband ísl. hitaveitna og Samband ísl. rafveitna skrifaði hæstv. iðnrh. 25. jan. sl. þar sem farið er fram á að iðnrh. beiti sér fyrir því að ríkisstjórnin falli frá frv. Með tilliti til þess sem ég hafði áður sagt í þingskapaumræðu 23. jan. gerði ég þá
fyrirspurn í dag hvað hæstv. iðnrh. segði um þetta atriði, hvort hann hefði orðið við tilmælum þessara almennu samtaka orkuveitna í landinu og hvort málið hefði verið lagt fyrir ríkisstjórnina og hver væru úrslit, hver væri staða þessa máls. Og ég tel að með tilliti til þessa og með tilliti til forsögu þessa máls, allt frá 23. jan. sl., sé ekki við annað unandi en að hæstv. iðnrh. tjái sig um efnisþætti þessa máls.