Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Áður en umræðu um þetta 1. dagskrármál lýkur hér í hv. deild langar mig að fara um það nokkrum orðum og skal ekki lengja þessar umræður að óþörfu.
    Ég vil í upphafi máls míns benda hv. þm. á að sú umræða sem hér hefur farið fram um frv. það til laga sem fyrir liggur nú á þskj. 569, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, er hinu háa Alþingi ekki til mikils sóma. Allir hv. þm. og mér er nær að halda öll þjóðin gerir sér ljóst að mikilvægt er að mjög verði styrkt stjórnun á umhverfismálum hér á landi eins og alls staðar annars staðar í heiminum. Ég vil því lýsa stuðningi mínum við það að stofnað verði umhverfismálaráðuneyti og mun ekki sitja hjá við atkvæðagreiðslu eins og kvennalistakonur gerðu þó að ég styðji stofnun þess heldur mun ég greiða því atkvæði.
    Um þetta mál hélt ég að enginn þyrfti að deila hér á hinu háa Alþingi og því síður átti ég von á að með það yrði farið af slíku alvöruleysi og hér hefur verið gert þar sem umræðan hefur farið yfir í beinar persónulegar árásir
á þann hv. þm. og hæstv. ráðherra sem við því ráðuneytinu á að taka auk þess sem umræður hafa farið út í innanflokksmál Alþb. og guð má vita hvað. Undir þessu hafa hv. þm. orðið að sitja nú um langt skeið og mál er að ljúki.
    Auðvitað á að stofna umhverfismálaráðuneyti. Um það erum við öll í hjarta okkar sammála. Það má svo hins vegar margt um það segja hvernig það umhverfismálaráðuneyti eigi að vera, hvernig innviðir þess eigi að vera. Ég vil minna hv. þingmenn á að þegar umhverfismálaráðuneyti var stofnað í Danmörku var það einmitt gert á þann hátt ... ( Forseti: Forseti vill áminna þingheim um að sýna ræðumanni tilhlýðilega virðingu og gefa honum færi á að ljúka máli sínu.) Hæstv. forseti. Ég mun ekki þreyta þingheim mjög með máli mínu. Það er fremur einfalt og ég get verið fljót að gera grein fyrir skoðunum mínum á því. --- Ég vil minna hv. þm. á hvernig þessi mál gerðust í Danmörku og af því má margt læra. Danir stofnuðu umhverfismálaráðuneyti og hrúguðu inn í það á stuttum tíma nánast öllu sem til umhverfismála gat talist og niðurstaðan varð fullkomið öngþveiti sem Danir lentu í mestu vandræðum með. Skoðun mín er þess vegna sú að af þessu ættum við að draga lærdóma og fara okkur hægt við uppbyggingu þessa ráðuneytis jafnnauðsynlegt og það er að það verði stofnað. Ég hef áður sagt að við sem unnið höfum á erlendum vettvangi höfum saknað þess mjög illilega að enginn einn aðili var í raun og veru talsmaður umhverfismála fyrir Íslendinga. Ég held að það sé löngu kominn tími til að úr því verði bætt. Ég tel þess vegna að öll umræða um að þessi tvö frv., frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd o.s.frv. þurfi ekkert endilega að afgreiðast samtímis. Ég held að það sé ósköp auðvelt að vera sammála um að stofna umhverfismálaráðuneyti. Ég held hins

vegar að hið háa Alþingi eigi að gefa sér góðan tíma til að fjalla um hvernig verkefni verði færð til þess ráðuneytis eða látin vera þar sem þau eru því að sá möguleiki er auðvitað líka fyrir hendi.
    Við höfum yfir að ráða miklu og fjölmennu liði af fólki sem er vel menntað og hefur unnið mjög gott starf á þessum sviðum. Nægir þar að nefna Siglingamálastofnunina, sem hefur verið a.m.k. okkur í Norðurlandaráði afar hjálpleg við undirbúning mála sem við höfum síðar fengið samþykkt vegna þess að þau voru vel undirbúin, og Geislavarnir ríkisins og svo ótal, ótal margt annað. Og ég skal lýsa því yfir að ég er ekkert alveg sannfærð um að ég sé í öllum atriðum sammála því sem í hinu síðara frv. stendur og lengri sögu á eftir hér á hinu háa Alþingi. Ég get vel verið til viðtals um að breyta þar ýmsu og það verður auðvitað verkefni þeirra nefnda sem með þau mál fara, en það er einfaldlega annað mál. Aðalatriðið er að byrjað verði á stofnun ráðuneytisins og síðan fari menn sér hægt og hafi um það samráð við alla þá sem að þessum málum hafa unnið í hinum ýmsu ráðuneytum, hvernig með þau mál verði farið. En það hlýtur að valda undrun hversu mikið offors hefur verið við umræðu í þessu máli sem ætti að vera slíkt alltyfirskyggjandi hagsmunamál, jafnt Íslendinga sem annarra, og það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessi umræða hefur farið fram. Þess vegna bið ég hv. þm. að ræða þetta mál málefnalega og af minna offorsi en verið hefur.
    Ég held t.d. að nefnd sú er forsrh. skipaði hinn 11. júlí 1989 hafi verið allt of seint skipuð, hún hafði einfaldlega of lítinn tíma, og það má einnig deila um hvernig sú nefnd var skipuð. Nú er mér kannski ekki nógu kunnugt um þetta. Vitaskuld hefur sú nefnd leitað ráða víða, eins og hér kemur fram, en ég held að það hljóti að gefa auga leið að þessi tími hefur verið of skammur. En hér er eftir að vinna þetta mál og ber að leggja í það mikla og vandaða vinnu, þannig að ég sé ekki að það sé nokkur nauðsyn á að þessi mál fylgist endilega að eins og mikil áhersla hefur verið á lögð.
    Ég vil sem sagt, hæstv. forseti, lýsa eindregnum stuðningi mínum við stofnun ummhverfismálaráðuneytis og mun jafnframt, sem og aðrir þingmenn, reyna að leggja mitt af mörkum til þess að síðan verði vandað til vinnu um innviði þess ráðuneytis. Hef ég þá lokið máli mínu, hæstv. forseti.