Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Það er mikil gæfa fyrir þessa hv. þingdeild að forseti Sþ. skuli eiga sæti í henni því að forseti Sþ. er öllum þingmönnum lagnari að greiða fyrir þingstörfum eins og allir vita og lagði fram sitt framlag hér rétt áðan þegar búið var að gera samkomulag um það að greiða fyrir, eða að ljúka umræðu um þetta mál. Þá fór hæstv. forseti Sþ. að tala um sóma Alþingis. Að umræðan um þetta mál hafi ekki verið Alþingi til sóma og þá átti hún við það að þingmenn hefðu leyft sér að andmæla þessu frv. og þá er virðing Alþingis í hættu. Ekkert var talað um það hvernig að þessum málum hefur verið staðið frá byrjun. Hvað var eðlilegra, þegar ríkisstjórnin ákvað að endurskoða lögin um Stjórnarráð Íslands, en að leita samvinnu við alla þingflokka um að taka þátt í þeirri endurskoðun? Stjórnarráðinu eða lögum um Stjórnarráð Íslands á ekki að breyta í hvert skipti sem ný ríkisstjórn er mynduð. Þetta eru lög sem eiga að standa og sem þingið á í raun og veru allt að standa að ef staðið er að því með eðlilegum hætti. Það sem hér er um að ræða er auðvitað afleiðing fljótfærnislegra samninga sem gerðir voru á sl. hausti þegar Borgfl. gerðist aðili að ríkisstjórn, þá er samið í mikilli fljótfærni. Það er forustuflokkur ríkisstjórnarinnar sem gefur eftir eitt ráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti. En formaður Borgfl. er í lausu lofti og hann fer inn í ríkisstjórnina án þess að hafa jörð til að ganga á. Ég kalla það ekki ganga á þó hann hafi tekið við þessu hagstofumálaráðuneyti. ( Gripið fram í: Fínt að vera þar.) Já, það er ekkert að gera, það er fínt. Ég veit að það var auglýsing í Morgunblaðinu núna fyrir nokkru síðan með fyrirsögninni ,,Latur``, það er einn sem óskar eftir atvinnu, þurfa ekkert að gera eða þá sem allra minnst en mjög hátt kaup. En ég veit að hagstofuráðherrann hefur ekki verið einn af þeim því hann er ekki atvinnulaus. (Gripið fram í.) Og þessi sem þarna
auglýsir óskaði ekki eftir neinum bílafríðindum eða kaup á jeppa með skíðagrind. Nei. Það var nú þetta sem gerðist. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Er ekki hægt ... ( Forseti: Forseti vill beina því til þingdeildarmanna að hafa ekki samtöl hér í deildinni.) Nei, var þetta ekki bara hagstofuráðherrann sem var að þessu? Hann er að greiða fyrir umræðunni því þess fyrr verður hann umhverfisráðherra.
    Ég ætla ekkert að flýta mér úr þessu. Ég ætlaði ekki einu sinni að tala hérna nema vegna þess að forseti Sþ. kom því á og hagstofuráðherrann, sá landlausi enn þá, hann ætlar líka að greiða fyrir framgangi málsins. Það er eftir að svara mörgum fsp. sem ég held að ég verði að treysta betur á forsrh. að svara en þann landlausa. Vitaskuld áttu hinir stjórnarflokkarnir að gefa eftir eitt ráðherraembætti. Það var ekki um neina svona þvælu að ræða, það var hægt að vinna þetta með eðlilegum hætti og eins og mönnum sæmir að vinna.
    Það er vansæmd og ekki Alþingi til sóma hvernig hefur verið staðið að þessum málum um endurskoðun

Stjórnarráðs og framlagningu mála og afgreiðslu mála úr nefnd. Menn koma hér og tala mikið um að allt sé að fara úr böndunum og láta sem svo að kjarasamningar sem gerðir voru með þeim hætti að þeir eru þeir skaplegustu sem gerðir hafa verið um langan tíma, að þeir séu að koma öllu úr böndunum, vitandi það að fjárlög voru afgreidd, fölsk fjárlög voru afgreidd hér fyrir jól, sem voru í raun og veru með fleiri milljarða halla. Svo koma þingmenn úr stjórnarliðinu fram í sjónvarpi og blöðum og segja að ráðherrar sem ekki skeri niður allar framkvæmdir við trog, þeir eigi að segja af sér. En hvað á að gera við þingmenn sem samþykkja hverja útgjaldatillöguna á fætur annarri? Hvað á að gera við þingmenn sem samþykktu 30 millj. til kaupa á dagblöðum rétt fyrir jólin? Ekki þurfti fjvn. að fara einu orði um þá tillögu. Hvað ætla þessir sömu þingmenn að segja þegar komið er á hér umhverfisráðuneyti og búið að ráða 10--15 manns í það þó að verkefnin eigi að vera eftir sem áður í öðrum ráðuneytum og stofnunum? Hvað á að gera við þá þingmenn ef ráðherrarnir eiga að segja af sér sem ekki geta skorið niður, hvað eiga þá þingmennirnir að gera sem samþykkja alla þessa tugi milljóna í aukin útgjöld? Eiga þeir ekki að segja af sér og hætta? Er það þá ekki sætt sameiginlegt skipbrot? Og hvar er byrjað að tala um niðurskurð? Það er auðvitað í því sem lýtur að verkefnum úti um landið eins og landsbyggðin hefur nú farið halloka að undanförnu. Þar á að byrja að skera, þar á að ná sparnaðaráformum, sem þeir kalla. Hver trúir á sparnað hjá þessum mönnum sem eru að færa út stjórnkerfið, gera það dýrara og dýrara með hverjum mánuði sem líður? Hver treystir þessu liði? Utanrrh., honum væri nær að sitja hér í stólnum inni á Alþingi og ræða sín sparnaðarviðhorf og áform eins og hann gerði á fundi nýlega í Vestmannaeyjum þegar hann talaði um að fækka ráðuneytum miklu meira en þessi nefnd, sem ríkisstjórnin skipaði, leggur til. Það var alls ekki nóg þegar hann var kominn á skyrtuna með uppbrettar ermarnar í Vestmannaeyjum. En hvað varðar Alþingi Íslendinga um áform utanrrh. Íslands, formanns Alþfl.? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann sést aldrei hérna, maðurinn, þá sjaldan hann er á landinu.
    Ríkisstjórnin óvirðir Alþingi með því að svara ekki spurningum sem fram hafa
komið. Hér hefur verið spurt: Hvað á að ráða marga starfsmenn í þetta væntanlega umhverfisráðuneyti? Hvað kostar að ráða þá starfsmenn? Hvaða áform eru uppi um að fækka annars staðar, spara á öðrum sviðum í stjórnkerfinu? Ekkert svar. Ekki eitt einasta orð um þetta. Hvað kemur Alþingi þetta við? Hugsið ykkur hversu lágkúrulegir þingmenn geta verið að samþykkja svona frv., svona útgjöld án þess að krefja framkvæmdarvaldið svara. Það er engu líkara en að hér séu gjörsamlega viljalaus verkfæri innan þess hóps sem hefur verið kosinn inn á löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Svo eru menn að spyrja: Af hverju nýtur Alþingi ekki þeirrar virðingar sem það ætti að njóta sem æðsta stofnun þjóðarinnar? Svarið er að enginn

treystir orðið Alþingi. Það samþykkir eitt í dag og annað á morgun. Það samþykkir vegáætlun um tiltekin útgjöld og tilteknar framkvæmdir. Það er byrjað að skera þær niður rétt eftir að búið er að samþykkja. Það samþykkir lagabálka, hvern á fætur öðrum um framlög til ágætra mála, síðan kemur niðurskurðurinn á því árlega og það tekur út yfir lengri tíma en þessi ríkisstjórn hefur setið. Vitaskuld á Alþingi, þegar það stendur frammi fyrir því að breyta þessum lögum og lækka þessi útgjaldaáform, að standa við þau. Alveg sama hverjir eru við stjórn og það getur enginn svarið af sér þetta.
    Með öðrum orðum, ég skora á forsrh. að upplýsa Alþingi um það hvað hann og ríkisstjórnin ætla að ráða marga starfsmenn í þetta ráðuneyti, fyrst hann er nú kominn hér í salinn. Ég skora líka á hann að gefa þinginu upplýsingar um það hvar sparnaður verður annars staðar í stjórnkerfinu, hvernig hann ætlar og ríkisstjórnin að stofna umhverfisráðuneyti án verkefna, án þess að breyta lögum og tilgangi ýmissa stofnana sem fara með vissa þætti umhverfismála. Það þýðir ekki að segja, hvorki mér né öðum, að hægt sé að breyta með reglugerð, því að reglugerðir geta ekki tekið af skýlaus lagafyrirmæli. Það vita allir menn og þýðir því ekki að segja manni það. Og það þýðir ekkert fyrir hagstofuráðherrann að vera með einhvern óróleika því hann gerði þá skyssu þegar hann fór í þessa ríkisstjórn að fara inn í hana án þess að hafa jörð til að ganga á, eins og ég sagði hér í upphafi máls míns. Og þetta er það sem hefur valdið honum mikilli angran allt síðan hann kom inn í þessa ríkisstjórn. Af hverju er Framsfl. einn að gefa eftir ráðuneyti en hinir flokkarnir tveir ekki nokkurn skapaðan hlut? Af hverju er verið að tala um fækkun ráðuneyta? Hvar er viðhorf utanrrh. um að fækka ráðuneytum enn meira en nefndin sem forsrh. skipaði um endurskoðun Stjórnarráðs Íslands? Svo kemur sami utanrrh. og greiðir hér atkvæði með stofnun nýs ráðuneytis. Það er engin furða þó að þessi flokksleiðtogi vilji láta dáta sína bjóða fram núna til sveitarstjórnarkosninga með öðrum til að fela nafn Alþfl. Ég sagði það hér á dögunum að þetta væri alveg nákvæmlega sama aðferðin og landhelgisbrjótarnir notuðu hér. Þeir settu strigadruslu fyrir nafn og númer þegar þeir voru inni í íslenskri landhelgi. Og það er sama strigadruslan komin núna yfir nafn Alþfl. Svona er nú komið fyrir þessum kokhrausta manni, formanni Alþfl., sem sést aldrei hér inni í þinginu. Hann er kominn með strigadruslu yfir nafnið. Ekki á sér, hann setur enga druslu fyrir sitt nafn, en á Alþfl. er komin strigadrusla.
    Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri en ég endurtek alveg sérstakar þakkir til forseta Sþ. fyrir þá einstöku lagni sem forsetinn hefur á því að greiða fyrir þingstörfum. Og ég sé að forseti Sþ. er búinn að biðja aftur um orðið og það er sennilega til þess að tefja enn um hríð að hæstv. hagstofuráðherra fái jörð til að ganga á.