Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Til mín hefur ekki verið beint mörgum spurningum. Það hefur meira verið velt fyrir sér hvaða skoðanir ég muni geta hafa haft á málum og jafnvel hafa sett fram á öðrum vettvangi. Þó finnst mér rétt og skylt að svara hv. 5. þm. Vesturl. Ég held að hann hafi spurst fyrir um það hvernig ég hygðist deila störfum meðal þeirra starfsmanna sem fyrirhugað er að ráða til ráðuneytisins, ef það verður að lögum, og það koma til þess verkefni, að sjálfsögðu. Það er gert ráð fyrir því í þeirri rekstraráætlun sem fylgir með í frumvarpsgreinargerðinni að ráðinn verði ráðuneytisstjóri, síðan einn skrifstofustjóri. Er talið eðlilegt að hann sjái fyrst og fremst um alþjóðleg samskipti og hugsanlega fræðslumál. Síðan verði ráðinn einn deildarstjóri sem mundi þá annaðhvort vera á sviði mengunarvarna og/eða á sviði byggingar- og skipulagsmála. Síðan er gert ráð fyrir tveimur sérfræðingum sem kæmu síðar á árinu. Annar þeirra mundi þá að sjálfsögðu fást við mengunarvarnasviðið eða byggingar- og skipulagssviðið eftir því hvort deildarstjórinn tæki hinn eða annan málaflokkinn og seinni sérfræðingurinn yrði þá fyrst og fremst á sviði náttúruverndarmála. Það er ekki gert ráð fyrir að ráða sérstakan bílstjóra. Ég hef þegar lýst því yfir að ég tel ekki þörf á slíku, nema að sjálfsögðu mun ég ráða bílstjóra til tímabundinna verkefna ef nauðsyn krefur.