Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 07. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil gjarnan þakka þau svör sem hv. 3. þm. Austurl. gaf hér við fyrirspurnum mínum frá því í gær en hann er formaður allshn. Þau svör voru þó takmörkuð. Ég hafði vakið á því athygli að í fjárlögum er sérstakur fjárlagaliður sem kallast umhverfisráðuneyti og ég spurðist fyrir um það og óskaði eftir því að hv. allshn. tæki það til athugunar á milli 2. og 3. umr. hvort heimilt væri að greiða fé út af þeim fjárlagalið meðan slíkt ráðuneyti væri ekki stofnað með lögum. Áður hafði verið veitt samkvæmt fjáraukalögum á síðasta ári fé til undirbúnings þessa ráðuneytis.
    Hv. formaður allshn. upplýsti að af þessum fjárlagalið hefðu verið greiddar út 1 millj. 357 þús. kr. en kvað sér ekki hafa tekist að afla lögfræðilegrar álitsgerðar á því hvort heimild væri fyrir hendi til þess að greiða þetta fé út. Ég lít svo til að með þessari yfirlýsingu hv. formanns allshn. liggi það fyrir að það leikur a.m.k. vafi á því hvort þessi heimild er fyrir hendi. Hv. formaður allshn. Jón Kristjánsson lét þess getið að það gæti verið í verkahring fjvn. að fá úr þessu skorið og er sjálfsagt að leita úrskurðar um það efni á þeim vettvangi. Ég tel hins vegar að meðferð þessara mála sé í tengslum við afgreiðslu þessa máls og ég vænti þess að þó svo að þetta mál verði nú afgreitt héðan úr þessari deild verði þetta kannað nánar af hv. allshn. Ed. meðan málið er þar til meðferðar ef það verður samþykkt hér út úr deildinni.
    Það hefur komið fram að hér hefur verið gert samkomulag og ég skal taka tillit til þess. Ýmislegt hefur þó verið sagt sem hefði gefið tilefni til nokkurra ræðuhalda, m.a. af hálfu hæstv. forsrh. sem fer með forræði þessa máls. Það var helst á honum að skilja að það væri fremur kostur en löstur við þetta mál að flestir þeir sem veitt hafa um það umsagnir væru því andsnúnir og flestir þeir forstöðumenn stofnana og ráðuneyta sem með
þau málefni fara sem undir hið nýja umhverfisráðuneyti eiga að fara væru andvígir þessu frv. Þetta eru einmitt menn sem hafa mesta reynslu og mesta þekkingu á þeim málaflokkum sem hér er verið að fjalla um. Um þetta gæti ég sagt ýmislegt og flutt alllangt mál. Það mun ég þó ekki gera vegna samkomulags en þetta er sýnishorn af því hvernig hæstv. ríkisstjórn vill standa að málum og hvernig röksemdafærslan er í þessu máli.