Hlerun farsíma
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn á þskj. 255 um hlerun farsíma.
    Notkun farsíma hefur aukist risaskrefum á undanförnum árum hér á Íslandi. Þetta eru þægileg tæki og nútímaleg og gegna ágætu hlutverki til að koma boðum á milli manna. Það er hins vegar ljóst að óviðkomandi geta hlerað samtöl og ég veit um þingmann sem hefur fengið senda segulbandsspólu með upptökum af trúnaðarmálum sem komið hafa fram í bílasíma. Sjómenn hafa og kvartað við mig, skipstjórar, sem auðvitað eiga ýmis trúnaðarmál hvað varðar fiskimið og annað og vilja gjarnan losna við þetta. Á fiskiskipaflotanum eru þessir símar mikið notaðir. Því hef ég talið ástæðu til að vekja athygli á þessu máli og varpað fram tveimur spurningum til hæstv. samgrh. sem eru svohljóðandi:
,,1. Er unnt að koma í veg fyrir hlerun farsíma?
    2. Ef svo er, hvað hefur verið gert til að koma í veg fyrir hlerun símanna?``
    Mér er ljóst að Póstur og sími er árvökul stofnun og ég vænti þess að eitthvað hafi verið gert, en ég spyr: Hvað hefur verið gert?