Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Áður en ég kem að efnisatriðum fsp. vil ég, vegna orða hv. fyrirspyrjanda þar sem hann lét að því liggja að ég hefði verið tregur til að svara þessum spurningum, geta þess að ég var fyrir hálfum mánuði reiðubúinn að svara þeim hér í hv. sameinuðu þingi en ekki var hægt að taka málið á dagskrá vegna fjarveru fyrirspyrjanda.
    Hvað snertir fyrsta atriðið sem spurt er um vil ég vekja athygli á því, sem hv. alþm. er væntanlega kunnugt, að heimild til þessarar lántöku frystideildar Verðjöfnunarsjóðs er í bráðabirgðalögum um efnahagsaðgerðir frá 28. sept. 1988. Þau bráðabirgðalög voru síðan staðfest með lögum nr. 9/1989. Þá var einnig í lögum nr. 5/1989 veitt heimild til 400 millj. kr. viðbótarlántöku, en fyrri heimildin hljóðaði upp á 800 millj. kr.
    Samkvæmt ákvörðun laganna skal lán þetta endurgreiðast af tekjum Verðjöfnunarsjóðs á næstu þremur árum eftir að það er tekið, en þau þrjú ár eru ekki liðin. Það sem þá kann að vera ógreitt fellur á ríkissjóð. Það sem er ógreitt að þremur árum liðnum fellur á ríkissjóð. Í samræmi við þetta ákvæði laganna er skuldin ekki gjaldfallin og því ekki færð til gjalda í ríkisreikningi.
    Svar við annarri spurningunni er á þá leið að skv. upplýsingum frá Seðlabanka Íslands var uppreiknaður höfuðstóll skuldanna 14. des. sl. 1250 millj. kr., þar af 1208 millj. vegna freðfisks og 42 millj. kr. vegna hörpudisks.
    Hvað þriðju spurninguna snertir, þá hef ég þegar svarað henni með því svari sem ég veitti við fyrstu spurningunni. Þriggja ára tíminn er ekki liðinn og þess vegna liggur ekki bókhaldslega ljóst fyrir hvað af þessari skuld kann að falla á ríkissjóð.