Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Það er jafnan þarfaþing að ræða um álver hér á hv. Alþingi, en álverum fylgja oft orkuver. Ég vil leyfa mér að misnota mér aðstöðuna í pontunni til þess að vekja athygli á grein í Morgunblaðinu í dag eftir Guðmund B. Ólafsson um hugsanlegar afleiðingar af væntanlegum orkuverum á hálendinu.
    Það má sjálfsagt lengi deila um það hvar álver á að vera í sveit sett. Byggðasjónarmið og fleiri sjónarmið ráða þar hugum manna. Sjálfur er ég eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að vera við Straum. Þar er það best í sveit sett vegna þess að þar höfum við álver fyrir, þar er höfnin og landslag og jarðargæði þess eðlis að það yrði minnst röskun í landslaginu.
    En það sem ég er hræddur við fyrst og fremst á þessari stundu eru þær upplýsingar sem koma fram í greininni hjá Guðmundi B. Ólafssyni. Nú veit ég ekki betur en þar sé farið með rétt mál, en þar er gert ráð fyrir svo skelfilegum tilfærslum á helstu jökulám landsins að það hlýtur að vekja menn til umhugsunar. Og jafnframt, þó að við deilum um það hvar álverið á að rísa, þá má aldrei vera nein spurning um það að orkuverin, hversu þörf sem þau eru eða kunna að vera, mega aldrei valda slíku jarðraski á hálendinu og í óbyggðum Íslands, þau mega aldrei verða til þess að náttúra landsins taki stakkaskiptum.
    Þetta er kjarni málsins því af álveri leiðir orkuver. Væntanlega verður þetta eitt af þeim verkefnum sem umhverfisráðuneytið fær í sinn hlut og þarna þurfum við svo sannarlega að taka saman höndum um það að passa upp á það að náttúran láti ekki í minni pokann fyrir orkunni.