Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er tími til kominn að við hv. alþm. gerum okkur grein fyrir því að það er til lítils fyrir okkur hér að vera að ræða um hvar eigi að setja niður stór atvinnufyrirtæki í landinu, orkufrek iðnfyrirtæki, á meðan fylgt er þeirri erlendu stóriðjustefnu sem hæstv. iðnrh. og Alþfl. stendur fyrir og studd hefur verið lengst og dyggilegast af Sjálfstfl. Samkvæmt þessari stefnu er það hlutverk erlendra fjárfestingaraðila að velja sér stað, velja sér bólfestu á Íslandi. Hæstv. iðnrh. fylgir stefnu fyrirrennara síns, hv. þm. Friðriks Sophussonar, um það að hin erlendu fyrirtæki eigi að ráða ferðinni í sambandi við fjárfestingar, hvar þau setji sig niður. Það er nauðsynlegt, finnst mér, að þeir sem eru að kalla eftir álveri í sín byggðarlög geri sér þetta ljóst. Þarna liggur kjarninn og meðan svona stefnu er fylgt munu orkufrek iðnfyrirtæki einvörðungu rísa hér við Faxaflóa þar sem ýmsar ástæður eru lokkandi fyrir erlenda aðila að nema land.