Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að það sé svona heldur liðkað til með mér hér í stólinn. Hæstv. iðnrh. gaf hér afdráttarlaust svar um það að þær umræður sem nú eru um orkufrekan iðnað, um álver, standi eingöngu um að álverið rísi sunnan Hafnarfjarðar. Ekki var hægt að skilja hann öðruvísi. Á hinn bóginn kom fram að hann gerði því skóna að ýmsir aðrir staðir gætu svo sem komið til greina. Og í þetta skipti nefndi hann sérstaklega Hvalfjörð af því að fsp. kom þaðan. Ef fyrirspurnin hefði komið frá þm. Norðurl. e. hefði auðvitað Eyjafjörður verið nefndur sérstaklega.
    Ég hlýt að harma að svo skuli vera. Það er ljóst að mikill straumur fólks liggur hingað til Reykjavíkur, til Stór-Reykjavíkursvæðisins utan af landi meðan þessari landeyðingarstefnu er fylgt sem nú er af hæstv. ríkisstjórn. Við erum þess vegna ekki að tala um hagsmuni einhvers landshluta, einhvers eins kjördæmis, þegar við erum að tala um það fyrir norðan að nauðsynlegt sé að fá álverið þangað, heldur erum við að tala um að nú sé nauðsynlegt að efla eyfirskar byggðir til þess að þær geti staðið í ístaðinu, til þess að þær geti verið mótvægi við Reykjavíkursvæðið.
    Frá formanni Alþfl. hafa komið hæðiyrði vegna Háskólans á Akureyri. Alþfl. hefur býsnast yfir því að göng séu gerð í gegnum Ólafsfjarðarmúla og með ýmsum öðrum hætti hefur það komið í ljós að þangað er ekki stuðnings að vænta þegar við erum að reyna að byggja upp sterkan byggðakjarna norður við Eyjafjörð.