Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. lét að því liggja hér áðan að þessi ríkisstjórn sem nú situr fylgdi einhverri sérstakri landauðnarstefnu. ( SV: Landeyðingarstefnu.) Landeyðingarstefnu. Ég hygg að ef hann athugar tölur um fólksflutninga til Reykjavíkur, þá komi það í ljós og það býsna skýrt að fólksflutningar til Reykjavíkur voru hvað mestir og þá allra mestir þegar Sjálfstfl. hafði forustu um landsstjórnina og þenslan var sem mest hér á höfuðborgarsvæðinu. En þessu eins og ýmsu öðru kýs hv. 2. þm. Norðurl. e. auðvitað að gleyma þegar hann kemur í þennan ræðustól.
    Mér virðist sem ýmsum þm. skjótist yfir þá staðreynd að það kostar mismikið að reisa slíkt ver eftir því hvar er á landinu. Á því hlýtur að vera mjög mikill munur eftir því hvar valið er að setja niður slíka verksmiðju. Auðvitað þurfum við að vega og meta allt sem því fylgir og spyrja okkur þeirra spurninga og svara: Hvað viljum við borga fyrir staðsetningu utan þess svæðis eða staðar sem allra ódýrastur er eða viljum við ekki borga fyrir það? Ég held líka að það væri til góðs ef afgjald sem slík iðjufyrirtæki borga rynni í ríkara mæli til allra sveitarfélaga í landinu, sem skiptu því á milli sín, en til sveitarfélagsins þar sem verksmiðjan er staðsett vegna þess að það sveitarfélag hefur svo mikið beint og óbeint hagræði og tekjur af málinu að það er vel sett.
    Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs hér var sú furðulega staðhæfing sem hv. 4. þm. Vesturl. lét sér um munn fara að það atvinnuleysi sem því miður er á Akranesi meðal kvenna væri vegna þess að á Grundartanga er járnblendiverksmiðja. Þetta er einhver furðulegasta fullyrðing sem ég hef heyrt haldið fram úr þessum ræðustól, en auðvitað á flokkur hans sér sína sögu í þessu máli sem ég ætla ekki að rifja upp hér en verður e.t.v. ástæða til að gera einhvern tíma seinna og verður kannski aldrei of oft gert. En ætli atvinnuleysi meðal karla á Akranesi og atvinnuleysi almennt á svæðinu væri ekki töluvert meira ef ekki væri þessi verksmiðja? Þess vegna skil ég það ekki og það er gersamlega út í hött þegar atvinnuleysi kvenna á Akranesi er tengt tilvist járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Slíkt er auðvitað alveg fullkomlega fáránlegt.
    Kvennalistinn undrast það af hverju fólk í þessu landi vill stóriðju og vill álver. Ætli hið einfalda svar við þeirri spurningu sé ekki það að menn vilja vinnu og menn vilja velmegun?