Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem fram fer hér vegna þessarar fyrirspurnar sýnir e.t.v. best þörfina á því að ræða atvinnumálin almennt. Ég vil taka undir þau orð hv. 6. þm. Norðurl. e. sem hann hafði um nauðsyn þess að ræða atvinnuuppbyggingu í landinu hér á Alþingi. En við verðum að gæta þess að vera ekki með glýju í augunum vegna hugsanlegra álvera og eins og fram hefur komið erum við kvennalistakonur á móti stóriðju, þ.e. álverum. Við teljum að stöðug umræða um stóriðju hafi m.a. komið í veg fyrir þróun eðlilegrar atvinnuuppbyggingar í landinu.
    Íslenskur iðnaður er nú um stundir nánast að líða undir lok. Það virðist sem iðnaðarráðherrar undanfarinna ára hafi ekki haft áhuga fyrir öðru en þessum stóriðjuverum. Hæstv. iðnrh. sagði hér áðan eitthvað á þá leið að skv. könnunum hefði sýnt sig að almenningur vildi álver. Ég vil hins vegar benda á að það er aldrei bent á neitt annað en álver í umræðunni um atvinnumálin núna, eins og það sé eini kosturinn sem muni bjarga allri þjóðinni. Hvar sem farið er um landið á fundum, þá er einmitt verið að kynna þessa hugmynd um álver af hálfu iðnrn.
    Það hefði verið fróðlegt að vita hér og nú hvað líður starfi þeirra atvinnumálanefnda sem starfa á vegum hæstv. forsrh. og hagstofuráðherra því að ég held að við ættum að snúa okkur að öðrum kostum heldur en að einblína á þennan eina. Það er óneitanlega dálítið undarlegt að hlusta á það að hv. þm. nánast krefjast álvers og síðan stendur baráttan um það hvar á að staðsetja það. Það kom fram í máli hv. 3. þm. Vesturl. áðan að fólkið vildi vinnu og velmegun. Ég spyr: Er alveg sama hvað sú velmegun kostar og hverjir njóta hennar?