Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil nú fá að þakka þeim sem hér hafa tekið til máls og hafa sýnt fram á að það er ekki vanþörf á því að taka atvinnumálin í heild til umræðu hér í þinginu og vonandi verður það gert fljótlega.
    Ég furða mig á ummælum hv. 4. þm. Vesturl. líkt og hv. 3. þm. Vesturl. gerði, að tengja atvinnuleysið á Akranesi og atvinnustöðuna þar við járnblendiverksmiðjuna. Ég furða mig reyndar á slíkri rökleysu og bendi á eins og fram hefur komið hvernig staða atvinnumála væri á Akranesi í dag ef þessarar verksmiðju nyti ekki við.
    Varðandi landeyðingarstefnu Alþfl. þá tel ég að hún komi best fram í því að þó að fólksflutningar til höfuðborgarsvæðisins hafi eitthvað minnkað, þá kemur hún sennilega fram í því að nú á fólk ekki lengur fyrir farinu til Reykjavíkur.
    Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans sem voru greinargóð. Hann vitnaði til skýrslu og könnunar sem gerð var 1982, minnir mig að hann hafi sagt, þar sem ákveðnar forsendur voru gefnar sem væntanlega hafa mikið breyst eins og kom reyndar fram í máli hans, m.a. hvað varðar vinnumarkað. Á hann reyndar eftir að breytast enn meira með tilkomu Hvalfjarðarganga þegar þau verða komin í gagnið. En það sem eftir stendur þó í svari ráðherrans er það að Grundartangi, sem var fallinn út úr dæminu á tímabili, virðist vera aftur kominn inn í myndina og fyllilega koma til greina sem staður fyrir nýtt álver þegar það verður reist.
    Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram að Íslendingar eiga auðvitað að taka virkan þátt í því að velja þann stað, útlendingar eiga ekki að velja hann. Auðvitað þurfa þeir að vera inni í myndinni en þeirri staðsetningu eigum við að stýra.