Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Ég hlýt að minna hv. alþm. á að ekki er leyfilegt að koma með fsp. hér inn í fyrirspurnatíma sem ekki hafa verið lagðar fram á prentuðu þingskjali.
    En vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um að umræða eins og þessi eða fsp. og svar við henni væru á mörkum reglna um fyrirspurnir og svör við þeim, þá vill forseti upplýsa að forseta er auðvitað leyfilegt að meta það sjálfur hvort fyrirspyrjandi fær svar við fsp. sinni. Óski hv. þm. eftir að gera athugasemdir í stöku máli verður forseti einfaldlega að ráða því sjálfur hvort hann leyfir það. Það er ekki hægt að stjórna nokkru málþingi eftir reglum svo nákvæmum að forseti sitji með sekúnduvísinn á meðan hv. þm. tala. Tilgangur með fsp. er að fyrirspyrjandi fái svar við fsp. sinni. Eins og hv. alþm. vita er nú verið að undirbúa endurskoðun þingskapalaga og forseta er engin launung á því að hann telur að breyting sú sem varð á fyrirspurnatíma fyrir nokkrum árum hafi verið til skaða og úr því verður nú bætt, vona ég.