Álver á Grundartanga
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tel það sem hér kemur úr forsetastóli vera mjög alvarlegt mál sem beri að ræða á hv. Alþingi. Að það geti staðist að hæstv. forseti hafi til þess leyfi, eftir eigin geðþótta, að miðla hér orði umfram það sem reglur þingskapa segja fyrir um, það get ég ekki séð að sé góð latína. Ég skil ekki hvernig Alþingi Íslendinga ætlar að haga störfum sínum ef menn virða þingsköpin að vettugi. Ég var ekki að deila um tímalengd í athugasemdum þeirra hv. þm. sem hér fengu orðið. Það getur verið erfitt fyrir hæstv. forseta að klippa þar á nákvæmlega eftir sekúnduvísi, það er alveg ljóst. En hér er verið að veita hv. þm. a.m.k. tvívegis orðið, þm. sem ekki eru aðilar að fsp. og það brýtur í bág við reglur þingskapa með alveg skýrum og ótvíræðum hætti.
    Þegar síðan er farið með þetta vald forseta sem hæstv. forseti vill taka sér með þeim hætti að mér t.d. var meinaður sá réttur sem fyrirspyrjanda að gera örstutta athugasemd eins og hefð hefur verið í þingsköpum, þá vænti ég að menn sjái að hér er farið út á ekki aðeins mjög hála heldur hættulega braut í sambandi við starfsreglur þingsins. Þessu hlýt ég að mótmæla og það er allt annað mál hvort þingið tekur þingsköp til umræðu og endurskoðunar. Ef niðurstaða þingsins er að breyta þingsköpum þá er það gert. Og þá hlýtur hæstv. forseti að fara eftir því. En á meðan þingsköp eru í gildi eftir samþykkt Alþingis ber forsetum að fylgja þingsköpum og beita sér í þeim efnum og sýna þar fordæmi.