Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég deili áhyggjum með hv. 6. þm. Norðurl. e. og hlýt að taka undir þær brýningar sem hann hafði hér uppi um að nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin taki af skarið og ákveði sig hvað eigi að gera. Loðdýrabændur hafa lengi orðið að búa við mikla óvissu sem hefur mjög gengið nærri fjárhag þeirra og heimilum, vil ég segja. Ég get ekki komist hjá því, hæstv. forseti, að draga þá ályktun að innan ríkisstjórnarinnar sé mikill ágreiningur um þetta mál, hvernig taka eigi á málefnum loðdýrabænda, og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það þótt síðar verði frá hæstv. landbrh. hvort það sé með hans vilja sem þessi dráttur er eða hvort það sé á hinn veginn, eins og mig grunar, að ríkisstjórnin sé ekki reiðubúin til að taka á málinu og hafi loðdýrabændur að ginningarfíflum.