Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Í tilefni af því að hv. 6. þm. Norðurl. e. vitnaði í orð mín í Ed. í sambandi við afgreiðslu á skuldbreytingum vegna loðdýraræktar vil ég undirstrika að það var meining okkar og trú þegar þetta mál var afgreitt að strax í upphafi árs yrði greitt út til fóðurstöðvanna það mikill stuðningur, það há upphæð að hún væri sambærileg við greiðslur á fyrra ári.
    Hæstv. landbrh. hefur útskýrt hver var afstaða hans og að hverju hann stefni í þessu máli. Hann stefnir að því að staðið verði við þetta fyrirheit. En það fer ekki hjá því að ég lýsi yfir óánægju minni með að það skuli ekki hafa verið gert strax í upphafi árs.
    Landbrh. hefur ákveðin rök. Það sé verið að bíða eftir og sjá hver staðan verður eftir að könnun hefur átt sér stað um hve mikið umfang verður í ræktuninni áður en gengið er til fullnustu frá greiðslum sem til þessa málefnis átti að veita. Ég vildi aðeins láta þetta koma í ljós og ég hef fallist á skoðun landbrh. Stefna hans í þessu máli er ábyrgari, að bíða ákveðinn tíma til að sjá hver staðan er, en ég treysti því að að þeirri könnun lokinni verði staðið við þá yfirlýsingu sem við í landbn. gáfum hv. Ed. við afgreiðslu þessara mála í haust.