Skuldbreytingar vegna loðdýraræktar
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði satt að segja ekki að blanda mér í þessa umræðu hér en eftir að hafa hlýtt á orð síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssonar og formanns landbn. Ed., langar mig aðeins að spyrja og fá ákveðin svör: Er það þá rétt skilið hjá mér að landbrh., að mati formanns landbn., hafi ekki farið að vilja þingsins í þessum efnum? Ég ætla ekki að segja fleira. Ég er búinn að fara hér oft upp til að ræða vanda þessarar atvinnugreinar og það er hryggilegt til þess að vita í mínum huga hvernig að þessum málum hefur verið staðið.
    Ég ætla ekki að fara að rifja upp hverjar ástæðurnar eru, hvað það er sem hér liggur að baki. Ég hef gert það hér margsinnis áður. Það eru margar ytri aðstæður sem vega þar langþyngst. Það er mjög ósanngjarnt hvað vegið hefur verið að bændunum sjálfum í þeirri umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu um þessa atvinnugrein. Það eru ytri aðstæður sem vega þar langþyngst, hversu erfiðleikarnir eru miklir við að koma upp þessari atvinnugrein. En það vill oft verða svo í þessu ágæta landi okkar að þegar eitthvað nýtt á að verða til, þá er nánast aldrei séð til þess að hjálpa mönnum nema rétt upp á hnén og síðan ekki meir.