Ofbeldi í myndmiðlum
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. 16. þm. Reykv. fyrir undirtektirnar við þessa tillögu. Ég er ánægð með það að þeir taka báðir undir meginefni tillögunnar. Ég hefði þó viljað fá skýrari svör hjá hæstv. ráðherra um vilja hans og ætlun til þess að framkvæma slíka könnun. Ég trúi því ekki að hún geti orðið svo dýr að hún sé ofviða fjárhag íslenska ríkisins og þess vegna óframkvæmanleg þrátt fyrir bágan hag um þessar mundir. Ég tel könnun af þessu tagi svo mikilvæga að hana beri að líta á sem forgangsverkefni. Það er í raun fljótgert, bæði fyrir hæstv. ráðherra og líka fyrir flutningskonur þessarar tillögu, að láta áætla hver kostnaður mundi fylgja slíkri könnun og mér finnst reyndar sjálfsagt að myndmiðlarnir beri hluta þess kostnaðar í samræmi við þær skyldur og þá ábyrgð sem þeir bera gagnvart almenningi, ef ekki lagalega, þá siðferðilega. Það má kannski ætla að þessi kostnaður gæti orðið eitthvað um 1--2 millj., e.t.v., ég veit það ekki. Það er sjálfsagt að láta kanna það einmitt í nefndarvinnu um málið.
    Hæstv. ráðherra minntist á málefni Kvikmyndaeftirlitsins og það er rétt, hagur þess hefur verið með miklum bágindum, má segja. Það vill svo vel til að það er hugsjónafólk sem hefur unnið þar og hefur hreinlega gengið svo langt að það hefur greitt símareikninga Kvikmyndaeftirlitsins og ýmsan annan tilfallandi rekstrarkostnað, bara til þess að halda málum gangandi. Ein af ástæðunum fyrir því að málin hafa ekki gengið fjárhagslega upp þar, þrátt fyrir aðhaldssemi og útsjónarsemi í rekstri Kvikmyndaeftirlitsins, er sú að reglugerðin sem var samin um starfsemi Kvikmyndaeftirlitsins bar ekki tilætlaðan árnagur. Það varð ekki á þann hátt sem hv. 16. þm. Reykv. var að geta og var ætlað í byrjun, að myndmiðlarnir stæðu í raun undir þessum kostnaði og þess vegna bæri þetta sig sjálft. Ég hygg að þessari reglugerð hafi verið breytt. ( M enntmrh.: Hún var gefin út aftur núna í desember.) Já, einmitt, og til þess að brúa það bil
sem hafði orðið vegna þess að reglugerðin komst í raun aldrei til framkvæmda var mjög gott að fjárveitingu var beint til Kvikmyndaeftirlitsins þannig að það gæti greitt skuldir sínar og rétt úr kútnum.
    Hæstv. ráðherra minntist einnig almennum orðum á aðbúnað barna og þá sérstaklega í skólum og leikskólum. Samfelldur skóladagur er mál sem við höfum einmitt rætt ítarlega í það minnsta tvisvar heilan dag í Ed. þegar til umræðu var frv. okkar kvennalistakvenna um einsetinn skóla og samfelldan skóladag. Og það er mál sem ætti að vera metnaðarmál bæði stjórnvalda, foreldra og annarra uppalenda í þessu þjóðfélagi. Það er of löng umræða til að hefja hana nú því að tími minn er naumur, en ég er auðvitað sammála hæstv. ráðherra og það stendur upp á hann að taka til hendinni og ná samkomulagi við hæstv. fjmrh. í þeim efnum því að ég held að vilji allra liggi ljós í því máli. Mér fannst í raun hæstv. ráðherra renna sterkustum stoðum undir

réttlætingu þess að sú könnun fari fram sen hér er lögð til þegar hann lýsti viðtali sínu við skólastjóra á förnum vegi um hag þeirrar kynslóðar sem hefur alist upp við myndmiðla svo lengi sem hún man eftir sér. Að svo stór hluti barnanna skuli eiga við vanda að stríða, einbeitingarvanda og kannski vandamál í sambandi við það að læra og hlusta og taka eftir og vinna með öðrum, finnst mér vera jafnvel sterkara en sumt af því sem ég kom með hér í greinargerð í framsögu um málið. Þess vegna skora ég á hæstv. menntmrh. að finna leiðir til að fjármagna könnun af þessu tagi og við munum leggja honum allt það lið sem við getum til þess að hún geti komið til framkvæmda.