Ofbeldi í myndmiðlum
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég styð þessa tillögu. Það er afar nauðsynlegt að gera á því góða könnun hver raunverulega er staðreyndin að því er varðar afleiðingar ýmislegs myndbandaefnis sem hefur að geyma einhvers konar ofbeldi á barnshugann og þroska barna. E.t.v. verður aldrei hægt að vinna úr slíku með fullkominni nákvæmni en það er hægt að komast afar nærri sannleikanum, að ég held, og a.m.k. svo að við ættum að hafa enn betri grundvöll í höndum en við höfum nú þegar.
    Þó að þessa könnun vanti, jafnítarlega og hér er farið fram á að gerð verði, liggja fyrir um það ýmis merki, líka kannanir, að það er alveg ljóst að hér er um mikla meinvætti að ræða og þess vegna var það skynsamleg ráðstöfun á sínum tíma að setja lögin um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    Það féll í minn hlut að gefa út reglugerð við þau lög og ég minnist þess að einn aðalvandinn var að ganga svo frá, m.a. merkingum myndbanda, að unnt væri að reiða sig á að þær væru réttar. Þar var um mikið kostnaðaratriði að ræða. Eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan tókst mjög góð samvinna við eigendur reksturs myndbandaleiga um þetta efni og þá einkanlega um merkingarnar. Jafnframt var þá gert ráð fyrir að tiltekið gjald af skoðunum stæði undir rekstrinum. Þetta gjald var hækkað síðar. Mér þótti það hins vegar hljóma einkennilega í máli ráðherra sem helst mátti skilja svo að ekkert fé hefði verið veitt til þessarar starfsemi. Það var nú svo að Kvikmyndaeftirlitið var um þessar mundir eflt mjög, einmitt í þessu skyni, og það var útvegað sérstakt húsnæði til þess arna þannig að unnt væri að verja miklu meiri tíma og mannafla til að vinna að þessu verkefni. Þetta vil ég að fram komi svo að menn haldi ekki að ekki hafi verið gert neitt í þessu efni. Það er alveg ljóst að þetta kostaði peninga á sinni tíð og gerir að sjálfsögðu enn. En þarna var um að ræða verulegt brautryðjendastarf af hálfu Kvikmyndaeftirlitsins því að
aðferðir til þess að skoða myndböndin og fylgjast með myndbandaefninu er afar flókið verkefni. Eftir því sem menn komust helst að niðurstöðu um að væri framkvæmanlegt var gert verulegt átak í því efni. Það er því auðvitað ljóst að eðlilegt er að það gjald sem þarna var ákveðið hækki miðað við aðra þróun. Ég minnist þess að það kom fram að kvikmyndahúsum þótti erfitt að greiða þetta gjald því að það minnkaði töluvert aðsókn að kvikmyndahúsum á tímabili. Síðan hygg ég nú að sú aðsókn hafi eitthvað aukist aftur. Vafalaust hafa fleiri ástæður komið til, en nokkuð er það að vissulega þarf fjármuni til þessa verkefnis og því fer fjarri að ekki hafi verið veittir fjármunir til þess, einkanlega fyrir nokkrum árum þegar staðið var að því að efla þessa starfsemi að miklum mun vegna hins nýja, viðamikla verkefnis sem fólst í að fylgjast með myndböndunum og samvinnu við eigendur myndbandaleiga.
    Þetta vildi ég láta koma fram til þess að forðast

hugsanlegan misskilning að þessu leyti til. Ég hef auðvitað ekki handbærar tölur um þetta að öllu leyti frá þessum tíma nú þessa stundina, en svo mikið er víst að ég minnist þess að það voru gerðar áætlanir um kostnað og allt slíkt eins og staðið var að undirbúningi fjárlaga að því er varðaði aðra þætti í starfsemi menntmrn. Ég vonast sannarlega til þess að hæstv. ráðherra geti leiðrétt þá gerð að veikja Kvikmyndaeftirlitið eins og hann hefur gert með því að draga úr launum til þeirra manna sem að þessu erfiða verkefni vinna, en ég skildi hæstv. ráðherra svo að það hefði hann talið sér nauðsynlegt að gera. Ég hygg að ekki sé um slíkt forgangsverkefni að ræða að slíkt sé algjörlega fráleitt og þessi starfsemi verði að geta gengið rétt eins og margs konar önnur starfsemi í þágu æsku þessa lands og ef nokkuð er, þá er það einungis það að betur má ef duga skal.