Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 16. þm. Reykv. flytur hér till. til þál. um viðskiptamálefni þjóðarinnar við Austur-Evrópu og leggur til að Alþingi feli utanrrh. að skipa viðskiptanefnd til markaðskönnunar og markaðsleitar í Austur-Evrópu og það skuli gert í samráði við samtök útflytjenda. Nú er ekkert nema gott um þetta að segja og í raun og veru er þetta lýsing á því ástandi sem er. Við höfum viðskiptasamninga við flestöll lönd Austur-Evrópu, þar með talin Sovétríkin, Pólland, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskaland, og við höfum viðskiptanefndir starfandi sem sinna þessum viðskiptum, heimsækja þessi lönd reglulega og eru meira að segja á ferðinni núna. Það er óskað eftir nánu samráði við útflytjendur. Það er náið. Það eru nokkrir dagar síðan utanrrh. og viðskrh. kvöddu á sinn fund alla fulltrúa fyrirtækja og sölusamtaka sem sinna þessum viðskiptum og ræddu ítarlega við þá stöðu mála í þessum viðskiptum og leituðum eftir að fá þeirra hugmyndir um breytingar á þeim þannig að út af fyrir sig virðist mér að tillagan feli ekki í sér annað en að hvetja almennt til þess að sæmilega sé á þessum málum haldið.
    Nú er það svo að viðskipti við þessi lönd, sem kenndu sig við sósíalismus, hafa verið með öðrum hætti en viðskipti við flest önnur lönd einmitt vegna mikilla ríkisafskipta í þessum löndum. Ég minni á að við tókum upp viðskiptasamband við Sovétríkin árið 1953. Það byggist á viðskiptasamningi milli ríkisstjórna og sá samningur er byggður á forsendum um ríkisviðskipti. Með öðrum orðum, í þessum samningi er kveðið á um með hvaða vörur skuli versla. Þar eru vörulistar, bæði varðandi inn- og útflutning. Þar eru hafðar viðmiðunartölur um magn þannig að það er ekki annað eftir fyrir viðskiptaaðilana sjálfa en að ná samkomulagi um verð og afhendingartíma. Því næst er því yfir lýst sem markmiði að stefnt skuli að jafnvægi í þessum viðskiptum. Um tíma voru þetta nánast vöruviðskipti. Allt fram á sl. áratug
voru þetta svokölluð jafnkeypisviðskipti, þ.e. ef við keyptum olíu, sem var forsenda viðskiptanna, skuldbundu Sovétmenn sig til þess að kaupa af okkur fiskafurðir í þeim sama mæli sem við öfluðum gjaldeyris með olíukaupunum.
    Nú er það svo að þessir viðskiptahættir eru væntanlega að breytast. Við höfum á undanförnum mánuðum og missirum horft á hrun þessa kerfis í flestum löndum Austur-Evrópu og við heyrum yfirlýsingar forustumanna umbótaaflanna um það í hvaða átt þeir stefni með sínar breytingar. Þeir lýsa því yfir að þeir vilji hverfa frá miðstýrðum áætlunarbúskap. Þeir lýsa því yfir að þeir vilji komast út úr því kerfi milliríkjaviðskipta sem Sovétmenn þröngvuðu upp á þá í stríðslok og kennt er við Comecon eða viðskiptabandalag kommúnistaríkjanna. Þeir stefna að blönduðu hagkerfi, þeir stefna að markaðskerfi í atvinnulífi og viðskiptum og þessu fylgja þeir síðan eftir með yfirlýsingum um að þeir

stefni að fjölflokka lýðræði og réttarríki. Við erum að horfa á þessa þróun á byrjunarskeiði og við vitum út af fyrir sig ekki hvernig hún endar eða hversu hratt þetta gerist og reyndar ekki hvernig til tekst. Enda er ólíku saman að jafna um einstök lönd hvar þau eru stödd í þessari þróun.
    Að því er varðar Sovétríkin bíður okkar það verkefni á þessu ári að taka aftur upp samninga við Sovétmenn. Það ræðst að sjálfsögðu af því hvernig þeir vilja halda á þeim málum og hvort einhverjar raunverulegar breytingar verða að koma til framkvæmda áður en að slíkri samningsgerð kemur. Seinasta fimm ára viðskiptasamningi lýkur eða gildistíma hans lýkur um næstu áramót og einmitt af þeim sökum þótti okkur ekki ráð nema í tíma væri tekið með því að efna til formlegs og skipulegs samráðs við útflytjendur og innflytjendur með góðum fyrirvara.
    Meginmálið er það að á þeim tíma þegar stefnir í frjálsræðisátt og meira frumkvæði fyrirtækja og viðskiptaaðila í þessum parti heimsins, þá er kannski ekki ástæða til að hvetja til aukinna ríkisafskipta hér í okkar ranni. Á þessu geta menn að sjálfsögðu haft hver sína skoðun. Aðalatriðið virðist mér þó vera að við verðum að laga okkur, með þessi viðskipti, nokkuð að þeirri þróun sem verður. Eins og er, er það svo að þrátt fyrir yfirlýsingar um að menn vilji leggja af gamla kerfið, þá er eitthvað nýtt sem á að koma í staðinn ekki orðið starfhæft þannig að það er óvissuástand. Þetta á fyrst og fremst við um Sovétríkin.
    Síðan er á það að líta að efnahagsástand í þessum löndum er afar bágborið. Lífskjör hafa farið versnandi, kaupgeta er lítil og oft á tíðum er það eitt höfuðvandamálið að verð á okkar útflutningsafurðum eru of há miðað við kaupgetu í þessum löndum. Það er ekki þess að vænta, miðað við staðreyndir sem við blasa um hlut utanríkisviðskipta í þjóðarbúskap þessara þjóða, að við getum á næstunni búist við að þar hefjist eitthvert gróskumikið skeið aukinna viðskipta. Nú vil ég taka það fram að þetta á ekki við um öll löndin. Það sem gildir er fyrst og fremst það að fylgjast vel með þróuninni, nýta þau tækifæri sem við komum auga á. Þau eru ýmis en það á fyrst og fremst að vera í höndum viðskiptaaðilanna sjálfra eftir því sem ný tækifæri til þess skapast með auknu frjálsræði á þessum slóðum.
    Ég vil að lokum árétta það að þessar breytingar sem nú eru hafnar munu taka langan tíma. Við skulum átta okkur á því hversu mikið erfiðleikatímabil er fram undan á þessu breytingaskeiði. Það er ekki einfaldur hlutur að hverfa frá miðstýrðum áætlunarbúskap og ríkisrekstri yfir til markaðskerfis á grundvelli verðmyndunar á samkeppnismörkuðum og að gera þetta undir miklum pólitískum þrýstingi, eiga að skila árangri á skömmum tíma og skila þeim árangri að þessi ríki geti síðan spjarað sig í samkeppni við hinar háþróuðu þjóðir Vesturlanda. Sumir mundu kalla þetta nærri því óviðráðanlegt eða ómennskt verkefni. Að því er Sovétríkin varðar mun þetta taka

langan tíma. Það er gersamlega út í hött þegar vestrænir fréttamenn eru að kveða upp dóm um það að Gorbatsjov verði að skila árangri innan sex mánaða, eins árs eða eitthvað þess háttar. Þeir sem til þekkja í Sovétríkjunum vita að til þess að ná slíkum árangri þurfa menn áratugi. Sum landa Austur-Evrópu munu ná árangri væntanlega, eða hafa a.m.k. öll skilyrði til þess að ná árangri, með skjótari hætti. Það á sérstaklega við um Austur-Þýskaland og Tékkóslóvakíu.
    Mér þykir þessi tillaga út af fyrir sig góðra gjalda verð, sérstaklega þau orð frsm. sem hann lét fylgja í lokin að við ættum sjálfir að losa um ýmsar hömlur á okkar útflutningsviðskiptum og stefna þar að auknu frelsi. Ég er sammála flm. um þá skoðun. Ég held að hún sé skynsamleg. Að því er varðar viðskipti við þessar þjóðir, þá verður það náttúrlega að gerast í áföngum og í samræmi við það hversu fljótt frjálsræðisþróunin gengur fyrir sig þar því að það verður að búa eins og á bæjum er títt. Meðan þeir bjóða ekki upp á aðra kosti en milliríkjasamninga og viðskipti á þeim grundvelli, þá verðum við einfaldlega að una því.