Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. Við erum, að því er ég best heyri, hjartanlega sammála í þessu máli og er það vel.
    Sjálfur er ég alinn upp í heildverslun sem verslaði áratugum saman við Rússland. Ég veit alveg hvernig þessir hlutir gengu fyrir sig og ganga sjálfsagt fyrir sig enn. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar heildverslunin fékk sendingu sem átti að vera ýmsir varahlutir í rússnesk armbandsúr. Það var stór kassi. Í kassanum reyndust vera nálægt 5000 fjaðrir í eina sérstaka gerð. Þegar ég fór með eina svona fjöður til úrsmiðsins sem sá um viðgerðirnar sagði hann: Við erum vanir að taka þessa fjöður úr og fleygja henni. Þetta er gamli tíminn. Við erum að kveðja hann. Ég var ekki að tala um þann tíma. Ég er að tala um að við eigum að búa okkur undir framtíðina. Framtíðin er að koma. Vestur-Evrópa er að færast austur yfir járntjaldið. Það er staðreynd. Í Morgunblaðinu í dag, og ekki lýgur blessað Morgunblaðið á útsíðum, stendur hvorki meira né minna en að sameinað Stór-Þýskaland komi til með að verða áfram í NATO. Pangermanisminn er kominn inn í NATO. Þetta er meiri háttar. Og auðvitað verðum við að búa okkur undir þetta strax. Sendinefndir okkar í dag eru skv. gamla munstrinu. Þær eru að þvælast um með 5000 fjaðrir í armbandsúr sem er fleygt hérna heima. Svo einfalt er það.
    EFTA/EB-umræðan má heldur ekki glepja okkur sýn. Það eru fleiri markaðir heldur en EFTA og EB. Það eru markaðir um allan heim og Austur-Evrópa er stór hluti af nýjum mörkuðum, stór hluti og sá hluti sem er aðeins fokheldur og er að opnast. Úr því að það er tímabært að leggja 700 millj. ísl. kr. í sjóð fyrir þessar þjóðir til þess að versla, til þess að aðlaga sig nútímanum, þá er alveg eins tímabært að reyna að selja þeim eitthvað fyrir þessar 700 millj.