Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það er áhugavert að hlusta á þessar umræður. Ég þykist viss um það að flm. gangi gott eitt til en mér finnst það bara hljóma svolítið ankannalega. Við urðum vitni að því að þeir í Austur-Evrópu eru að leggja niður forsjárhyggjuna, en þessi tillaga hljóðar í þá veru að Alþingi álykti að fela utanrrh. að skipa þegar í stað viðskiptanefnd til að leita nýrra markaða. Þetta er einmitt sú forsjárhyggja sem Austur-Evrópuþjóðirnar eru að hverfa frá. Hví eigum við að vera að keyra inn í þessa forsjárhyggju? Erum við ekki öll sammála um það að þeir séu að gera rétt með því að keyra út úr henni, ef svo mætti orða hlutina?
    En eins og ég sagði, ég efast ekki um að tilgangurinn er góður. Ég hefði heldur viljað sjá tillöguna í þá veru að viðskrh. eða utanríkisþjónustan mundi aðstoða einkafyrirtæki við að koma á nýjum tengslum við einkafyrirtæki þarna fyrir austan eða ríkisfyrirtæki á frjálsum grundvelli. Það þarf enga forsjárhyggju hér. Það er einmitt sú leið sem er að mistakast fyrir austan og er, bæði sögulega og vísindalega, margbúið að sýna fram á það að öll forsjárhyggja er dæmd til að mistakast.