Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. verður að átta sig á því hvað forsjárhyggja er. Þetta er ekki forsjárhyggja. Forsjárhyggja er t.d. skammstöfuð í tveim orðum, SH, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Það er sú forsjárhyggja sem við ætlum að reyna að brjóta upp. Ég get ekki staðið upp á fundi þar og hvatt sölumiðstöðvarmenn til að fara erlendis að leita markaða af því að ég er ekki félagi í þeim merku samtökum. Ég get hins vegar gert það hér og beitt mínum áhrifum hér til þess að virðulegur utanrrh. hafi frumkvæði að því að bjóða nýja tímann velkominn. Eins og ég gat um í minni framsöguræðu, þá sagði mætur maður á fundi um daginn, þar sem við utanrrh. vorum báðir, að það væri aðeins einn hópur manna sem harmaði það að járntjaldið væri fallið og það væru íslenskir fisksalar, íslenskir fiskútflytjendur. Því að þeir lifðu enn þá og hrærðust í gamla tímanum með 5000 varahlutina í úrið, þar sem verðið á íslenskum vörum var pólitísk ákvörðun en ekki spurning um markað. Þetta er forsjárhyggjan. Ég er að tala um að opna hana.