Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Þetta mál hefur oft áður verið til rækilegrar umræðu hér á hinu háa Alþingi. Ég læt mér nægja um málið í heild sinni að vísa til þeirra umræðna og þeirra upplýsinga sem þegar liggja fyrir. Að gefnu tilefni er samt sem áður óhjákvæmilegt að leiðrétta fáein atriði sem kynnu að misskiljast í máli flm. og þau eru einkum eftirfarandi:
    1. Það er mikill misskilningur ef menn ætla að töf sem orðið hefur á því að svara erindi sem fyrir liggur um að heimila forkönnun stafi af því að einum stjórnarflokkanna, nefnilega Alþb., hafi verið framselt eitthvert neitunarvald í þessu máli. Það er ekki svo. Jafnframt er sjálfsagt að taka það skýrt fram enn einu sinni að þótt þessi heimild væri veitt nú þegar, þá væri það ekki brot á neinu ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarflokka. Þetta verður að vera alveg skýrt. Í stjórnarsáttmála núverandi stjórnarflokka er ákvæði þar sem kveðið er á um það að ekki skuli á samstarfstímabilinu efna til nýrra meiri háttar hernaðarframkvæmda. Nú er því til að svara, eins og fram kom í máli hv. frsm., að það að heimila forkönnun er algerlega aðskilið frá ákvörðun um það að heimila framkvæmdir. Það er hægt að heimila forkönnun út af fyrir sig án nokkurra skuldbindinga um það að heimila framkvæmdir.
    2. Það liggur ljóst fyrir að þótt heimildin um forkönnun væri veitt þegar í dag, þá mundu framkvæmdir ekki hefjast fyrr en að mörgum árum liðnum og áreiðanlega ekki fyrr en löngu eftir að þessu kjörtímabili væri lokið. Það hefur komið fram áður og er rétt að nefna það að skv. núgildandi framkvæmdaáætlun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins var gert ráð fyrir því að framkvæmdir hæfust árið 1994 þannig að þetta er alveg skýrt. Heimild til forkönnunar er ekki sama og ákvörðun um framkvæmdir. Hvaða skoðun sem menn hafa á þessu mannvirki, þá varðar það með öðrum orðum ekki þetta ákvæði stjórnarsáttmálans. Einhverjar yfirlýsingar þm. úr röðum stjórnarliða um það að þeir telji svo vera eru einfaldlega marklausar. Það er alveg á hreinu.
    Þá er líka ástæða til að spyrja: Hvernig stendur á því að það hefur dregist svona mikið að taka þessa ákvörðun? Hv. 17. þm. Reykv. vitnaði til fyrri ummæla minna um það að málið væri í athugun, vandlegri athugun og ákvörðun mundi verða tekin þegar þeirri athugun væri lokið. Jafnframt hef ég áreiðanlega lagt á það áherslu að þetta er á ákvörðunarvaldi utanrrh. og um það er enginn ágreiningur heldur. Svar við þessari spurningu hvers vegna þetta hefur dregist er einfaldlega þetta:
    Það tók starfsmenn varnarmáladeildar nokkurn tíma að afla, með fullnægjandi hætti, allra þeirra upplýsinga sem við töldum okkur þurfa á að halda, bæði frá flotamálayfirvöldum í Bandaríkjunum og frá Atlantshafsbandalaginu og stjórn Mannvirkjasjóðsins. Út af fyrir sig má segja að nauðsynlegri vinnu við að afla þessara upplýsinga og vinna úr þeim sé lokið.

Þær lutu fyrst og fremst að því að ganga úr skugga um að ákveðin misvísun í þeim upplýsingum varðandi áform yrði leiðrétt, þannig að báðir aðilar væru að tala um sama hlutinn. Hins vegar er það svo að það má heita að allar áætlanir að því er varðar varnar- og öryggismál og framkvæmdir skv. þeim áætlunum séu nú í einni allsherjar endurskoðun. Þannig að það ríkir nokkur óvissa um það hvort fyrri áform, sem áður höfðu verið rækilega kynnt, standi. Ég segi einfaldlega: Ég vil ganga úr skugga um það með óyggjandi hætti hver þessi áform eru. Um það vil ég hafa skjalfestar og áreiðanlegar upplýsingar þannig að ekkert sé á reiki. Það er einmitt nákvæmlega þetta og þetta eitt sem veldur því að ákvörðun er ekki tekin nú þegar. Vegna þess einfaldlega að það er ástæðulaust að taka formlega ákvörðun um að heimila þetta ef síðan kæmi á daginn að það er verið að heimila einhvern allt annan hlut eða jafnvel að upphafleg áform sem reyndar voru kynnt árið 1985 standa ekki lengur. Svo einfalt er það nú.
    En ég vil taka það alveg skýrt fram að ég hef gengið rækilega úr skugga um það, þannig að þar er ég ekki í neinum vafa, að sá dráttur sem hefur orðið á þessari ákvörðun hefur á engan hátt spillt þeim möguleikum sem hér er um að ræða. Með öðrum orðum, ég hef um það áreiðanlega vitneskju að jafnvel þótt þessi ákvörðun drægist enn nokkuð á langinn, meðan ég bíð eftir niðurstöðum ýmissa athugana sem ég veit að eru í gangi, þá mun það ekki loka neinum dyrum. Þ.e. ef þessar niðurstöður eru áfram óbreyttar, ef áformin eru óbreytt um óskir af hálfu Atlantshafsbandalagsins um að byggja þetta mannvirki, þá höfum við ekki, þrátt fyrir þennan drátt, komið í veg fyrir að af því geti orðið. Það er aðalatriði málsins.
    Nú er ekki ástæða til, eins og ég sagði, að fara ofan í saumana á öllum efnisatriðum þessa máls að því er varðar nauðsyn málsins. Ég hef lýst afdráttarlaust mínum skoðunum á því að hér er um að ræða flugöryggismál og nauðsynjamál.
    En það er ástæða til þess að víkja aðeins örfáum orðum, virðulegi forseti, að þeim kjarna málsins sem lýtur að hugsanlegri endurskoðun á áformum og það er þetta. Hvað svo sem líður hugsanlegum breytingum á starfi Atlantshafsbandalagsins sem slíks og hugsanlegum breytingum á stefnumörkun
Bandaríkjastjórnar í öryggismálum, þá eru allar líkur á því, í framhaldi af þeim afvopnunarsamningum sem við getum því sem næst slegið föstu að verði undirritaðir og staðfestir á þessu ári, að það verði mikil nauðsyn á því að framfylgja þeim afvopnunarsamningum með öflugri eftirlitsstöð. Verulegar líkur benda til þess að eftir því verði óskað að sú eftirlitsstöð verði hér á landi.
    Ég dreg því ekki dul á þá skoðun mína, sem ég byggi á margvíslegum gögnum, að þrátt fyrir þær breytingar sem nú eru í athugun, þá verði niðurstaðan óbreytt. Það verði óskað eftir því að varaflugvöllur verði byggður af efnislegri nauðsyn og að hlutverk hans í framtíðinni verði að vera einn af

hyrningarsteinum þessa afvopnunarkerfis sem við vonum að um verði samið. Þannig að þeir sem öndverðast hafa látið gegn þessum áformum, út frá þeirri skoðun að hér sé um að ræða hernaðarmannvirki, mættu gjarnan endurskoða þá afstöðu sína í ljósi þess að þetta væri eitt hið mesta þjóðþrifafyrirtæki til eftirlits með afvopnun og til að stuðla að auknum friði á vorum slóðum.
    En virðulegi forseti. Án þess að orðlengja þetta mál frekar, þá vil ég bara árétta það að það hefur engum dyrum verið lokað. Þetta mál er enn í skoðun af eðlilegum ástæðum og það er tryggt að þótt það dragist enn nokkuð á langinn, þá höfum við ekki þar með útilokað að þessum áformum verði hrundið í framkvæmd.