Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Inn í þessa umræðu hefur nokkuð blandast almennt ástand í alþjóðamálum og þá hvernig líklegt er að sú þróun hafi áhrif á stefnu okkar í varnarmálum. Ég ætla ekki að gera það sérstaklega að umtalsefni hér, en ég vil þó benda á að þó miklar breytingar eigi sér stað nú á stjórnmálaástandi í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum, þá er mikið óvissuástand fram undan. Við sjáum ekki enn fyrir hvernig sú þróun muni verða þó við vonum auðvitað öll hið besta.
    Ég minni á að einhverjar alvarlegustu og verstu styrjaldir sem brotist hafa út í heiminum hafa einmitt brotist út í ástandi ójafnvægis og óvissu og þarf ekki að fara öllu lengra en til Sarajevo til að minna á það. Við vonumst auðvitað til að það verði engar Sarajevo á þessari braut sem nú er hafin til breytts og bætts ástands í Austur-Evrópu. En að setjast nú með hendur í skauti og ætla ekki að halda vöku sinni er að sjálfsögðu alveg fráleitt og andstætt hagsmunum þessarar þjóðar.
    Við sáum það í sjónvarpinu í gær að Gorbatsjov á í mikilli og harðvítugri baráttu innan lands. Það sitja um hann, getum við sagt, harðlínumenn sem vilja ná völdum að nýju og búa yfir meiri vopnum en nokkur önnur þjóð. Þannig að ég held að við ættum ekki að vera of fljót að draga ályktanir af því sem er að gerast og ekki of fljót að hörfa frá þeirri varnarstefnu sem hefur reynst okkur vel frá því að við gengum í Atlantshafsbandalagið.
    Það sem ég vildi hins vegar fyrst og fremst sagt hafa er að vekja athygli á því að hæstv. utanrrh. er nú enn hér að halda sams konar ræðu og hann er búinn að halda hér af og til í næstum 1 1 / 2 ár. Hinn 8. des. 1988 segir hæstv. utanrrh.: ,,Málið er til vandlegrar athugunar í utanrrn. og ég mun taka mína ákvörðun þegar þeirri athugun er lokið.`` Hann segir það aftur nú í haust. Hann
sagði það líka 20. febr. 1989 að málið væri í athugun og hann mundi taka sína ákvörðun þegar þeirri athugun væri lokið. Hæstv. utanrrh. fer undan í flæmingi í þessu máli. Það er alveg ljóst. Og þessar stöðugu yfirlýsingar hans um athugun, að hann geti ekki tekið ákvörðun um hvort heimila skuli forkönnun, það er nú ekki verið að biðja um meira en að heimila forkönnun. Í því felst engin ákvörðun um framkvæmdir. Það er einungis að forkönnun liggi fyrir til að menn geti betur áttað sig á þessu máli.
    Hæstv. ráðherra fer undan í flæmingi og öll ummæli hans eru auðvitað til að kasta ryki í augu þess stóra hóps Íslendinga sem hafa verulegan áhuga á þessu máli og vilja fá í því niðurstöðu, a.m.k. könnun á hvernig slíkt mannvirki mundi koma út og hvar hentugast mundi að staðsetja það hér á landi. Mín spá er því sú, og ég bið nú þingheim um að taka eftir og muna, að hæstv. utanrrh. muni ekki taka þessa ákvörðun meðan hann situr í valdastóli. Það byggi ég á því að hann virðist engu nær kominn í ákvörðun sinni nú í febrúar 1990 en hann var í desember 1988.

Þau orð sem hann viðhefur hér á þessum fundi eru öll í sömu átt og hann viðhafði í desember 1988. Þess vegna er það auðvitað nauðsynlegt að Alþingi sjálft taki af skarið í þessu máli. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að menn eru ekki allir á sama máli hér um þennan alþjóðlega varaflugvöll, hvorki hvort hann eigi að byggjast yfir höfuð í samvinnu við Atlantshafsbandalagið eða hvar hann eigi að vera staðsettur. En lágmarkið er að ákvörðun um forkönnun verði tekin og úr því að það er alveg ljóst að hæstv. utanrrh. mun ekki taka þessa ákvörðun, þá er ekki um annað að ræða en að hv. Alþingi taki hana. Því er þessi tillaga flutt og ég hvet utanrmn. eindregið til að taka þessa tillögu af alvöru og afgreiða hana fljótt og vel þannig að málið geti komið að nýju til síðari umræðu hér sem allra fyrst.