Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu á þskj. 191 um mötuneyti og heimavistir fyrir framhaldsskólanemendur. Flm. ásamt mér eru aðrar hv. þingkonur Kvennalistans.
    Segja má að á síðustu 20 árum hafi verið mikil gróska í starfi framhaldsskóla á Íslandi. Nýir skólar hafa verið stofnaðir í öllum landshlutum. Nýjar hugmyndir um uppbyggingu náms á þessu skólastigi hafa rutt sér til rúms. Æ stærri hópur í hverjum grunnskólaárgangi hefur hafið nám strax að loknu grunnskólaprófi og nýtt námskerfi hefur auðveldað eldra fólki að taka upp þráðinn að nýju. Hinir nýju skólar úti á landsbyggðinni hafa gjörbreytt aðstöðu fólks í byggðarlögunum til að stunda nám á framhaldsskólastigi og öldungadeildir við flesta þessara skóla hafa komið til móts við námslöngun margra sem búsetu sinnar vegna hafa hingað til ekki átt þess kost að stunda nám á framhaldsskólastigi.
    Þrátt fyrir þessa miklu uppbyggingu framhaldsskóla úti um landið er þó enn mikill munur á fjölda og úrvali námsbrauta í hinum ýmsu skólum. Alltaf þarf allstór hópur nemenda að sækja námið um langan veg og því eru margir sem ekki geta búið í foreldrahúsum eins og þeir sem búa á stærstu þéttbýisstöðunum þar sem skólarnir eru staðsettir.
    Eins og sjá má í greinargerðinni með tillögu þessari er fjöldi námsbrauta við framhaldsskólana mjög mismunandi eftir landshlutum. Í svari við fyrirspurn minni og hv. þingkonu Kristínar Einarsdóttur á 110. löggjafarþingi, þskj. 203, kemur fram að í fræðsluumdæmi Reykjavíkur gátu nemendur valið um 105 mismunandi námsbrautir skólaárið 1985--1986. Í umdæmi Norðurlands eystra voru námsbrautir næstflestar eða 70 talsins, en í Vestfjarðaumdæmi gátu nemendur einungis valið um nám á 15 námsbrautum. Það segir sig því sjálft að jafnvel þótt framhaldsskólar séu í öllum landsfjórðungum verður námsframboð þeirra aldrei svo fjölbreytt að þeir uppfylli óskir allra sem á svæðinu búa
    Á höfuðborgarsvæðinu eru allmargir sérskólar þar sem hægt er að stunda nám sem ekki er grundvöllur fyrir á fámennari stöðum. Má sem dæmi nefna listaskóla af ýmsu tagi og iðnnám, t.d. hárgreiðslu eða bifreiðasmíði. Þrátt fyrir fjölgun skóla og námsbrauta úti á landsbyggðinni er því augljóst, eins og ég sagði áður, að stór hópur skólafólks úr dreifbýli, bæjum og þorpum landsins verður á hverju ári að stunda nám utan sinnar heimabyggðar. Þessi ungmenni verða flest að yfirgefa fjölskyldur sínar og heimabyggð stærstan hluta ársins frá sextán ára aldri. Við flesta skólana utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið komið á fót heimavistum fyrir nemendur og hefur verið staðið mjög myndarlega að uppbyggingu þeirra í mörgum bæjarfélögum. En fæstar þeirra anna þó eftirspurn nemenda eftir húsnæði því aðsókn í þessa skóla hefur orðið miklu meiri en menn e.t.v. óraði fyrir. Víða er mötuneytisaðstaða mjög bágborin. Skortur á húsnæði

og annarri aðstöðu fyrir nemendur stendur skólastarfinu víða beinlínis fyrir þrifum.
    Þau fjölmörgu ungmenni sem verða að yfirgefa fjölskyldur sínar og heimahaga vegna námsdvalar eiga fárra kosta völ. Sumir eru svo lánsamir að geta dvalið hjá ættingjum, þ.e. þeir sem ekki fá inni á þeim heimavistum sem fyrir hendi eru. En flestir verða þó að leigja sér húsnæði á almennum leigumarkaði með þeim afarkjörum sem víðast hvar tíðkast. Hlutskipti þeirra er stöðugt öryggisleysi, himinhá húsaleiga og jafnvel húsnæði sem fullorðnir mundu vart sætta sig við.
    Langar mig í því tilefni að vitna, með leyfi forseta, í blaðagrein. Hún er í Þjóðviljanum 13. jan. sl. og þar er fjallað um húsnæðisvandann í Reykjavík. Yfirskrift greinarinnar er: ,,Gert út á húsnæðisvandann.`` Þar segir: ,,Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skrifaði byggingarfulltrúa borgarinnar bréf á miðvikudag, þar sem honum er skýrt frá því að heilbrigðiseftirlitið hafi komist að því að skrifstofuhúsnæði á efstu hæð hússins við Grensásveg 14 hafi verið stúkað niður í 18 íbúðarherbergi og leigt skólafólki. Þvottaaðstaða í húsinu sé ófullnægjandi, hljóðeinangrun herbergja ekki góð og eldvörnum kunni að vera eitthvað ábótavant. En enginn reykskynjari er í húsnæðinu og enginn neyðarútgangur.`` Síðar í sömu grein er þetta haft eftir Oddi R. Hjartarsyni, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins: ,,Oddur sagði ýmsa galla vera á húsnæðinu og það uppfylli ekki skilyrði til að þar mætti reka gistiheimili. Húsnæðisvandinn í Reykjavík væri mikill og heilbrigðiseftirlitið mundi ekki reka út námsfólk sem ætti ekki í önnur hús að venda. En allt bendir þó til þess að þessi starfsemi á efstu hæðinni yrði að leggjast af.`` Mig langar að lesa örlítið meira þar sem segir: ,,Nokkur herbergjanna eru með gluggum fyrir ofan hurð sem eru óbyrgðir þannig að helst þarf að slökkva ljós á gangi þessum þegar einn fer að sofa og sögðust nemendurnir ítrekað hafa farið fram á að fá tjöld fyrir gluggana, en því hefði ekki verið sinnt. Þeir hefðu áhyggjur af brunavörnum húsnæðisins og bentu á að einungis eitt slökkvitæki væri á staðnum og það hefði síðast verið skoðað árið 1986. Um þau kjör sem gilda í þessu húsnæði segir: ,,Nemendurnir greiða tvenns konar leigu fyrir herbergin eftir
stærð þeirra. Einn nemandi er í átta fermetra herbergi og greiðir fyrir það rúmar 16.000 kr. en fyrir stærri herbergi þarf að greiða 20.000 kr.``
    Hér er fjallað um húsnæði sem heilbrigðiseftirlitið hafði afskipti af vegna þess að þetta er hús sem fleira fólk kemur inn í. En auðvitað búa nemendur í kjöllurum og risíbúðum víða um bæinn. Ofan á það álag sem fylgir því að búa við slíkar aðstæður bætist svo það að mörgum unglingnum getur reynst erfitt að leigja einn úti í bæ og mikil hætta er á félagslegri einangrun. Algengt er einnig að fæði þessara nemenda sé alls ófullnægjandi.
    Það fer því fjarri að hægt sé að tala um jafnrétti til náms ef litið er til þeirra kosta sem nemendur hafa varðandi húsnæði. Ég gat þess áðan að út á

landsbyggðinni hefðu víðast hvar verið byggðar heimavistir í samvinnu sveitarfélaga og ríkis. En hér á Reykjavíkursvæðinu er ástandið algjörlega óviðunandi. Skólaárið 1985--1986 voru framhaldsskólanemendur með lögheimili utan Reykjavíkur en við nám hér á höfuðborgarsvæðinu alls 3110. Þar af voru reyndar nemendur úr Reykjanesumdæmi 1702 og má ætla að stór hópur þeirra hafi getað sótt skóla í Reykjavík frá heimili sínu. Eftir sem áður má ætla að um 1500 utanbæjarnemar hafi þurft á húsnæði að halda á höfuðborgarsvæðinu. Sú sem hér stendur hefur af því tveggja ára reynslu að hafa umsjón með heimavist nemenda í einum af framhaldsskólum landsins. Ég veit það af reynslu minni þaðan að nemendum getur reynst erfitt að fara að heiman í fyrsta skipti og koma í nýtt umhverfi. Vandamálin sem upp koma eru af ýmsu tagi, bæði persónuleg, varðandi nám og fjárhaginn. Þar að auki bætast við ýmis félagsleg vandamál sem nemendur standa frammi fyrir á degi hverjum í okkar flókna samfélagi.
    Eins og ég gat um þá hefur höfuðborgarsvæðið algjöra sérstöðu hvað varðar skort á húsnæði og annarri aðstöðu fyrir utanbæjarnemendur. Ég gat þess áðan að hér hefðu veturinn 1985--1986 verið um 1500 nemendur sem trúlega hafa þurft á húsnæði að halda, þ.e. nemendur á aldrinum 16--20 ára. Það eru þeir sem ég tala um hér sem framhaldsskólanemendur. Á höfuðborgarsvæðinu eru einungis 20 heimavistarrými fyrir nemendur Sjómannaskólans. Þess vegna vil ég leggja sérstaka áherslu, og við flm. þessarar till., á að þegar verði hafist handa við að bæta aðbúnað utanbæjarnemenda á höfuðborgarsvæðinu. En ég bendi um leið á þann skort á heimavistarrými sem er í öðrum landshlutum.
    Við umfjöllun um frv. til laga um framhaldsskóla á 110. löggjafarþinginu lögðu þingkonur Kvennalistans fram fjölmargar breytingartillögur. Þar á meðal um stofnun mötuneytis við alla framhaldsskóla. Hollir lifnaðarhættir eru ein af undirstöðum daglegrar vellíðunar, góðrar heilsu og þar með árangurs í starfi. Því miður er það staðreynd að margir unglingar lifa á mjög óhollu fæði. Í síðustu viku voru birtar tölur í dagblöðunum um neyslu sælgætis og gosdrykkja á Íslandi. Voru upplýsingar þessar birtar í tilefni af tannverndardegi. Á þessum tölum má sjá að áætluð neysla hvers Íslendings af sælgæti er árlega 17 kg og 500 gosdrykkjadósir. Við vitum það öll að sennilega eiga unglingar drjúgan þátt í þessari neyslu. Það kom reyndar líka fram að sælgætisverslanir hér eru fleiri miðað við íbúa en þekkist í nágrannalöndum okkar. Því miður er það svo vegna skorts á mötuneytum inni í framhaldsskólunum að þar hefur einnig verið komið upp sjoppum með sælgæti og sætu bakaríisbrauði og alls kyns skyndibitum sem hafa lítið næringargildi í.
    Ég vil benda á að þessi óhóflega neysla á sælgæti er ekki einungis spurning um tannvernd, en fréttin í síðustu viku var reyndar tengd tannverndardegi, heldur spurning um almennt, heilbrigt líferni. Má þá enn og aftur minna á manneldis- og neyslustefnu sem

samþykkt var í sameinuðu þingi sl. vor. Eins og flestir vita getur vinnudagur framhaldsskólanema orðið æðilangur og margir sækja skóla um langan veg. Við teljum það ekki síður mikilvægt fyrir nemendur en annað vinnandi fólk að geta neytt matar á vinnustað og þá auðvitað ekki sjoppufæðis.
    Samkvæmt því sem ég hef bent á í máli mínu er ástandið í mötuneytis- og húsnæðismálum framhaldsskólanema utan heimabyggðar með öllu óviðunandi og þjóðfélaginu til lítils sóma. Við sem flytjum þessa till., þingkonur Kvennalistans, teljum það réttlætismál að úr því verði bætt eins og till. felur í sér og viljum við minna á að skv. nýsettum lögum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er verkefni sem þetta nú á ábyrgð ríkisins.
    Ég vil aðeins geta þess hér í lokin að eins og allir vita þá er kostnaður nemenda við bókakaup afar hár á Íslandi. Fyrir hverja námsönn má búast við að nemendur í framhaldsskóla þurfi að eyða nokkrum tugum þúsunda í námsbækur með virðisaukaskatti samkvæmt nýsettum lögum. Sl. vor voru samþykkt hér á Alþingi lög um jöfnun á námskostnaði. Það var í raun endurskoðun á eldri lögum. Þó að þar sé ýmislegt sem ætti að geta verið til bóta. M.a. er sagt í 3. gr., c-lið: ,,Húsnæðisstyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem ekki eiga kost á heimavist og miðast þeir við helming áætlaðs húsnæðiskostnaðar.`` Við vitum að leiguverð er mjög mismunandi eftir því hvar er á landinu og einmitt eftir því hvernig húsnæði nemendur fá. Og miðað við þær fjárupphæðir sem ætlaðar eru í fjárlögum
til þessa verkefnis og miðað við þann fjölda nemenda sem þarf að sækja sér þessa aðstoð þá nær þetta aldrei helmingi af húsnæðiskostnaði nemenda sem leigja sér húsnæði á almennum markaði. Þess vegna tel ég mjög brýnt að fyrir þessu verði séð með því að nemendur geti átt aðgang að heimavistum, bæði af fjárhagslegum og félagslegum ástæðum.
    Ég vil að lokum minnast aðeins á að í júní í sumar kom út á vegum menntmrn. skýrsla eða tillögur ásamt greinargerðum um innra starf framhaldsskóla. Á bls. 42 í þeirri skýrslu er tiltekið hver skuli vera stofnbúnaður framhaldsskóla, þar er reyndar minnst á mötuneyti. Staðreyndin er sú að það er afar langt í land að hægt sé að tala um að mötuneyti séu í framhaldsskólum. Hér í Reykjavík er það aðeins í Iðnskólanum einum skóla sem hægt er að tala um raunverulegt mötuneyti.
    Ég vil, virðulegur forseti, ljúka máli mínu með því að benda á að hér er gerð tillaga að stofn- og búnaðarskrá og þar er ekki minnst á heimavist, sem ég tel að ætti að vera hluti af stofnbúnaði þeirra skóla sem taka við nemendum frá öðrum landshlutum.
    Ég vil síðan, með leyfi forseta, fá að lesa hér tillgr. eins og hún er fram sett. Ég gleymdi víst að lesa hana hér í upphafi. Þar segir, ef ég má aðeins syndga upp á náðina í eina mínútu:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera sérstakt átak til að leysa mötuneytis- og húsnæðisvanda framhaldsskólanema sem stunda nám

fjarri sinni heimabyggð. Á grunni fyrirliggjandi upplýsinga verði gerð áætlun um uppbyggingu mötuneyta og heimavista og mörkuð fjárveiting til að hefja framkvæmdir þegar á árinu 1990.``
    Þetta var tillgr. eins og hún hljóðaði.
    Að lokinni þessari umræðu vil ég fara fram á að málinu verði vísað til hv. félmn. og síðari umræðu.