Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegur forseti. Það er nú fámennt hér í sal, en þeim mun góðmennara. Mig langaði aðeins að árétta mál hv. þm. Danfríðar Skarphéðinsdóttur með nokkrum orðum.
    Greinargerðin með þáltill. sem hér er til umræðu skýrir í meginatriðum hvers vegna hún er fram komin. Ég vil aðeins árétta nokkur atriði.
    Héraðsskólarnir sem voru undanfari fjölbrautaskólanna um framhaldsmenntunina á landsbyggðinni, og starfa raunar flestir enn í einhverju formi, voru byggðir upp sem heimavistarskólar og með mötuneyti fyrir nemendur og starfslið. Á undanförnum árum hefur framhaldsskólum fjölgað mjög. Fjölbrautaskólar hafa verið byggðir í flestum landshlutum og allir eru fullsetnir eða jafnvel ofsetnir. Þessir framhaldsskólar hafa einkum verið byggðir í þéttbýli og e.t.v. aðallega verið miðaðir við íbúa staðarins og næsta nágrennis. Af þeim sökum hefur heimavistar- og mötuneytisaðstaða yfirleitt setið á hakanum. Raunin er sú að fólk flykkist í þessa skóla oft um langan veg, verður að leigja sér húsnæði, kaupa fæði eða reyna að matbúa sjálft oft við lélega aðstöðu.
    Þetta ástand hefur ótal ókosti í för með sér. Aukin eftirspurn eftir tímabundnu húsnæði verður til þess að húsaleiga á staðnum hækkar sem veldur nemendum óhjákvæmilega miklum kostnaðarauka. Sums staðar, einkum utan höfuðborgarsvæðisins, er lítið um að húsnæði sé í boði sem verður til þess að nemendur sætta sig við nánast hvað sem er, jafnvel það sem mætti kalla heilsuspillandi. Það á að vísu líka við hér á höfuðborgarsvæðinu, en það er þó fremur vegna þess að hér er húsaleiga yfirleitt mjög há og ef fólk hefur lítil auraráð verður það að taka ódýrasta húsnæði sem kostur er, sem oftast er þá af lélegra taginu.
    Skortur á mötuneytisaðstöðu er líka alvarlegt mál, ekki síst þar sem unglingar eiga í hlut. Unglingar sem hafa fulla þörf fyrir fjölbreytt og hollt fæði. Við slíkar aðstæður reyna þeir sem aðstöðu hafa að matbúa sjálfir en eru oft fákunnandi um matartilbúning og fæðuval. Mataræðið verður því einhæft og ekki svo hollt sem skyldi. Veitingahúsafæði er dýrt jafnvel þó samið sé um fast fæði með afslætti, sem oft er gert. Þessi skortur á aðstöðu við hina ýmsu framhaldsskóla leiðir til verulegrar mismununar á kostnaði fyrir nemendur almennt.
    Önnur hlið á málinu sem e.t.v. er ekki eins augljós eru þær áhyggjur og hugraunir sem það veldur foreldrum og aðstandendum að vita af unglingum í lélegu húsnæði eða þrengslum sem kunna að orsaka félagsleg vandamál og valda því að fólk lendir þá fremur á einhvers konar glapstigum. Ásamt því verða foreldrarnir að hafa áhyggjur af heilsu þeirra og líkamlegri velferð. Það er augljóst að það er brýn þörf að hið opinbera komi til móts við þarfir skólafólks í þessum efnum.
    Hér í höfuðborginni er aðeins einn framhaldsskóli

með heimavistarrými og það er aðeins fyrir 20 manns. Sem er bara eins og dropi í hafið. Á Akureyri er menntaskólinn með heimavist og mötuneyti en fullnægir engan veginn þörfinni. Það er langt frá því. Hinir nýju fjölbrautarskólar vítt um landið hafa sem óðast verið að byggjast upp og þar hefur þessari þörf lítið eða ekkert verið sinnt eins og drepið hefur verið á.
    Á höfuðborgarsvæðinu má segja að þörfin fyrir átak í þessum efnum sé brýnust. Eins og getið er í grg. með frv. þá er þar þetta eina heimavistarrými fyrir 20 manns sem fullnægir ekki einu sinni viðkomandi skóla. Þúsundir unglinga, víðs vegar að af landinu, sækja hingað framhaldsmenntun við þau skilyrði sem hér hefur verið lýst. Því er full nauðsyn að á þessum málum verði tekið og því fyrr því betra.