Stofnlánasjóður smáfyrirtækja
Fimmtudaginn 08. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stofnlánasjóð smáfyrirtækja sem hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að undirbúa frumvarp til laga um lánasjóð fyrir fólk sem vill ráðast í atvinnurekstur. Hverjum þeim sem uppfyllir almenn skilyrði um atvinnurekstur hér á landi standi þannig til boða einu sinni á fimmtán ára fresti að fá stofnlán í nýjan rekstur gegn tryggu veði. Frumvarpið verði lagt fram við þingbyrjun haustið 1990.``
    Ástæðan fyrir þessari till. er fyrst og fremst skortur á stofnfé þegar fólk vill ráðast í sjálfstæðan atvinnurekstur. Þar er ekki í mörg hús að venda hér á landi.
    Annaðhvort eru það bankarnir sem veita stutt lán eða þá að reksturinn byrjar allur í skuld, jafnvel á stuttum víxlum sem fljótlega þarf að endurnýja, borga af, skuldbreyta og þar fram eftir götunum. Engin lán til langs tíma standa fólki til boða á þessu sviði. Það er ekki nema fólk sé annaðhvort að hugsa sér til hreyfings í sjávarútvegi, landbúnaði eða í iðnaði og fáeinum öðrum greinum. Fólk sem vill ráðast í verslunarrekstur, margs konar þjónustu eða annan þann rekstur sem ekki fellur beint undir þessa þætti atvinnulífsins á ekki í mörg hús að venda.
    Það er mikið öryggi fyrir mann sem byrjar lítinn verslunarrekstur að geta fengið lánaðar 2 millj. kr. í stofnfé. Ef þetta er hópur manna sem vill slá saman í hlutafélag eða sameignarfélag þá getur hver þeirra lagt 2 millj. kr. í púkkið. En þannig er þessi sjóður hugsaður. Þeir sem uppfylla skilyrði til þess að fá lánað úr sjóðnum geti fengið lán út á trygg veð einu sinni á 15 ára fresti gegn því að þessir peningar verði lagðir í höfuðstól í atvinnurekstur.
    Á þennan hátt minnkar öll venjuleg greiðslubyrði hjá fólki sem stofnar lítil fyrirtæki og möguleikarnir vaxa stórlega að fyrirtæki geti borið sig. Eigendur geti jafnframt um frjálst höfuð strokið samfara því sem þeir byggja upp fyrirtækið.
    Jafnframt er hér lagt til að sjóðurinn verði ekki sérstök stofnun, heldur verði hann í vörslu banka eða sparisjóða þannig að ekki verði byggð yfir hann óþörf yfirbygging. Að leitað verði að ódýrustu peningum sem kostur er á, bæði hér á landi og erlendis. Verði Íslendingum svo heimilt að taka bein lán erlendis í framtíðinni, þá breytist hlutverk sjóðsins í að hafa meðalgöngu um slík lán.
    Ég vil ekki hafa fleiri orð um þetta í bili, en sjóður af þessu tagi mundi stórlega auka öryggi í viðskiptum, hann mundi auka möguleika fyrirtækja á að lifa af fyrstu skrefin og hann mundi á allan hátt koma viðskiptalífinu til góða hér á landi.
    Að svo mæltu mæli ég með að þessari tillögu verði vísað til 2. umr. og til atvmn.