Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti og ört vaxandi þingheimur, hann hefur þrefaldast. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um að flytja ráðuneyti Stjórnarráðsins frá Reykjavík.
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt hér á Alþingi er sú að oft megum við Reykvíkingar heyra talað um Reykjavíkurvaldið eins og það sé einhver sérstakur óskalisti okkar að hafa sem mest af valdi landsins innan borgarmarkanna. Þetta er rangt.
    Reykjavík er eðli málsins samkvæmt höfuðborg landsins. Þar er Alþingi, ráðuneytin og margar helstu stofnanir. Þess vegna leita mörg fyrirtæki og stofnanir ríkisins til Reykjavíkur með höfuðstöðvar og við það kemur óneitanlega nokkur slagsíða á landið, enda hafa þm. hér fyrr í dag talað um það og sannleikanum samkvæmt að þessi byggðaþróun sé að öllu leyti óæskileg. Þessi svokallaða landeyðingarstefna sem hv. þm. hafa hana kallað. Ég tek undir það að vissu leyti vegna þess að okkur Reykvíkingum og nágrönnum er enginn greiði gerður með því að öll byggðin færist hingað suður. Það er eðlilegast að byggðin sé dreifð um landið, enda lifi hvert byggðarlag af landsins gæðum. ( HBl: Það má kannski flytja höfuðborgina norður bara?) Það má vel flytja höfuðborgina norður og hv. 2. þm. Norðurl. e. gæti tekið það að sér sem sérverkefni.
    Þegar ég virði fyrir mér stjórnkerfið, þá get ég vel hugsað mér að dóms- og kirkjumálaráðuneyti flytti t.d til Selfoss. Þangað er greiður akvegur frá Reykjavík og mjög fljótlegt að komast á milli. Sjálft ríkisfangelsi Íslendinga er í næsta nágrenni við Selfoss og mætti í framhaldi af því vel færa nýstofnaða fangelsismálastofnun að Selfossi líka eða jafnvel enn þá lengra, austur að Litla-Hrauni sjálfu.
    Kirkjumálaráðuneytið getur vel verið í Skálholti ásamt biskupssetri, enda hefur það lengi verið kappsmál innan kirkjunnar að endurreisa biskupsstól í Skálholti. Það væri fólgin töluverð einföldun og sparnaður í rekstri í því að færa sem mest af störfum kirkjumálaráðuneytisins beint undir biskup. Í rauninni er biskup Íslands hinn raunverulegi ráðuneytisstjóri í kirkjumálaráðuneytinu ef grannt er skoðað.
    Í annan stað get ég vel hugsað mér að flytja landbrn. til Borgarness eða Hvanneyrar. Þangað er líka nokkuð greiður akvegur frá Reykjavík og mjög tíðar ferjusiglingar yfir til Akraness og þaðan góður akvegur til Borgarness og að Hvanneyri. Ráðuneytið mætti vel vera á Hvanneyri. Þar mundi það njóta nálægðar við Bændaskólann og önnur umsvif sem landbúnaðurinn hefur á staðnum. Ég get vel séð fyrir mér að fleiri stofnanir eða félög sem tengjast landbúnaði mundu flytja þangað líka. Mér þætti vænt um að sjá t.d. Búnaðarfélag Íslands á Hvanneyri. Ég sé ekki að það eigi endilega heima í Reykjavík, né heldur Rannsóknastofnun landbúnaðarins og fleiri skyld fyrirtæki.
    Í þriðja lagi er ekki úr vegi að flytja sjútvrn. suður með sjó, til Grindavíkur, Keflavíkur eða Njarðvíkur. Þangað er greiður akvegur og sjósókn er hvergi meiri

en á Suðurnesjum. ,,Fast þeir sóttu sjóinn`` o.s.frv. Því væri sjútvrn. mjög vel í sveit sett suður með sjó. Í framhaldi af því mundu væntanlega einhver fyrirtæki og félög og aðrir sem hafa hagsmuna að gæta í sjávarútvegi og fiskverkun flytja með ráðuneytinu, þannig að þar mundi myndast nokkur kjarni eins og á hinum tveimur stöðunum. Með þessu móti er hægt að dreifa stjórnardeildum ríkisins án þess að rjúfa bein tengsl við Reykjavík vegna þess að akstursleiðirnar eru í rauninni ekkert mikið lengri en akstursleiðir inni á sjálfu Stór-Reykjavíkursvæðinu, t.d. frá Seltjarnarnesi og til Hafnarfjarðar eða upp í Breiðholt eða Mosfellsbæ. Það þarf afskaplega litlu við að bæta til þess að ná sama aksturstíma og t.d. á Selfoss. Þetta eru ekki orðnar neinar vegalengdir í dag. Og flutningur af þessu tagi mundi ýta undir t.d. tvöföldun Reykjanesbrautar, göng undir Hvalfjörð og fleiri samgöngubætur sem vissulega eru mjög athyglisverðar.
    Þá er ekki talinn upp sá möguleiki að flytja stjórnardeildir út fyrir Reykjavík til nágrannabyggðarlaga eins og Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, upp á Kjalarnes, í Kópavog, Garðabæ eða Hafnarfjörð og jafnvel enn lengra.
    Til þess að einfalda síðan starfsemi ráðuneytanna er eðlilegt að ráðherrar sitji ekki á þingi jafnframt því sem þeir gegna ráðherradómi, heldur kveðji til varamenn og þar með gæfist þeim mun betri tími til þess að sinna sínum ráðuneytum. Og jafnframt mætti breyta þingsköpum þannig að ráðherrar þyrftu ekki að vera viðstaddir umræður sem féllu undir þeirra málaflokka, heldur væri nóg að formenn viðkomandi þingnefnda tækju við því hlutverki hér á Alþingi. Með þessu móti mætti jafnvel fækka þingmönnum töluvert.
    Það eru fleiri stofnanir sem mætti færa. Ég sé t.d. fyrir mér Byggðastofnun á Akureyri sem gæti þá orðið fyrsti vísir að nýrri höfuðborg, Hafrannsóknastofnun á Ísafirði eða í Vestmannaeyjum, Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Héraði eða á Hólum í Hjaltadal eða hvar sem er. Með þessu móti væri hægt að koma á jafnvægi í byggð landsins, fjölga störfum þannig að allir mættu sæmilega vel við una.
    Og væri því ekki óeðlilegt að í kjölfarið á þessum breytingum yrði atkvæðisrétti okkar hér á suðvesturhorninu breytt, þannig að við fengjum meiri atkvæðisrétt í staðinn. Á móti jöfnuði í ríkisstofnunum um landið kæmi jafn kosningarréttur. Að Reykjavíkurþingmenn hafi ekki einn sjöunda eða einn sjötta af atkvæðisrétti Vestfirðinga og Austfirðinga. Það út af fyrir sig er ekki ósanngjarnt. Þannig ætti þessi till. að vera jafnréttismál fyrir alla landsmenn.
    Virðulegi forseti, ég mæli með því að till. fari til seinni umræðu og til hæstv. allshn.