Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um skólamáltíðir á þskj. 183.
    Flm. þessarar till. auk mín eru hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, Alexander Stefánsson og Stefán Guðmundsson.
    Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp er tryggi að komið verði á máltíðum í hádegi í öllum grunnskólum landsins haustið 1990.``
    Svo sem allir vita hafa breyttar aðstæður í þjóðfélaginu valdið því að skipan máltíða hefur í vaxandi mæli riðlast á heimilum á síðustu árum. Síaukinn fjöldi mæðra vinnur utan heimilis. Fjöldi barna á grunnskólaaldri gengur sjálfala mikinn hluta dagsins.
    Mörg börn fá í hendur fjármuni í stað fæðu og fæðuval og neysluvenjur mótast um of af framboði söluskála í grennd við skóla. Oft er þar aðallega á boðstólum sælgæti, sætabrauð og gosdrykkir. Fæðan verður því vítamínsnauð og sykurneysla úr hófi, margfalt hærri en þekkist meðal grannþjóða okkar. Miklar tannskemmdir íslenskra barna eiga m.a. rætur að rekja til rangs mataræðis.
    Of algengt er að börn borði ekki áður en þau fara í skóla á morgnana, og fá síðan ekki viðunandi máltíð í hádeginu. Fyrir börn og unglinga á vaxtarskeiði er ein máltíð á dag engan veginn nægjanleg. Talið er að börn þurfi auk
morgunverðar tvær aðalmáltíðir á dag. Rétt fæðuval er sérstaklega mikilvægt fyrstu 15 árin en næringin hefur áhrif bæði á andlegan og líkamlegan þroska.
    Skólinn er vinnustaður barnanna. Foreldrar fá í auknum mæli hádegisverð á vinnustað en börnin eru ekki alltaf tilleiðanleg til að taka með sér nesti í skólann. Helst eru það yngstu börnin, sem varla eru nema hálfan daginn í skóla, ýmist fyrir eða eftir hádegi, er hafa með sér smánesti, en skólarnir hafa þá gjarnan á boðstólum til sölu ýmiss konar drykkjarvörur og jógúrt. Spurning er hvort þessir nemendur fái góðan hádegisverð þegar heim kemur.
    Tvísetning eykur enn meir á óreglu á matmálstíma á heimilum barnanna, en Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað þetta snertir.
    Tilraunir hafa verið gerðar með sölu á matarpökkum frá Mjólkursamsölunni, en þá vantaði m.a. starfsmenn í skólana til þess að annast þessa þjónustu. Sumum þótti þetta einnig dýr og leiðigjörn fæða.
    Í Kópavogi hefur miðað vel að koma á skólamáltíðum.
    Kannanir í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós að færni og námsgeta barna sé að hluta háð því fæði sem þau neyta. Nauðsynlegt er því að skólinn stuðli að hollum lífsvenjum með áherslu á heilbrigðu líferni og góðri næringu.
    Skólinn á að ganga á undan og virða þau manneldismarkmið sem Íslendingar hafa sett sér.

Koma þarf upp skólaeldhúsum í flestum ef ekki öllum grunnskólum. Máltíðir þurfa að miðast við góða, holla og næringarríka fæðu. Víðast geta börnin matast í skólastofunum.
    Til greina kemur að miða við að hið opinbera greiði rekstrarkostnað vegna matmálstímanna sem og starfsmannahald og 25% hráefniskostnaðar.
    Þáltill. þessi gerir ráð fyrir að skólamáltíðum í hádegi verði komið á í grunnskólum haustið 1990. Framhaldsskólar þurfa síðan að fylgja í kjölfarið.
    Sem fylgiskjal með þessari þáltill. er m.a. úrdráttur úr erindi Heiðrúnar Sverrisdóttur, formanns skólanefndar Kópavogs, sem hún flutti 3. nóv. sl. hjá Manneldisfélagi Íslands.
    Ef ég gríp, virðulegi forseti, niður í þann útdrátt, þá segir þar m.a. að bæjarfélagið, þ.e. Kópavogur, greiði starfsmönnum laun og 25% af hráefniskostnaði og í tveimur skólum vinna nemendur við að afgreiða matinn.
    Þar segir jafnframt að í Kópavogi séu á boðstólum í dag súpur, jógúrt, kakó, samlokur og ávaxtadrykkir, og eru seldir kaldir drykkir.
    Skólanefndin álítur að skólar bæjarins eigi að hafa frumkvæði að bættum venjum barna með því að hafa aðeins til sölu ósykraða og lítið sykraða mjólkurdrykki og hreina ávaxtasafa. Enn fremur álítur nefndin að sætabrauð skuli ekki selt á vegum skólanna en áhersla lögð í staðinn á sölu brauða með áleggi og sölu ávaxta.
    Skólanefndin í Kópavogi ákvað 1986 að komið yrði upp í öllum skólum kennslueldhúsum og gert er ráð fyrir að 1990 verði þar allir skólar með þokkalega aðstöðu til kennslunnar.
    Þetta segir okkur dálítið um stöðuna í Kópavogi. Jafnframt er hér sem fylgiskjal útdráttur úr erindi Magnúsar Gestssonar, tannlæknis í heilbrrn., sem flutt er sama dag hjá Manneldisfélagi Íslands. Þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í Íslendingum skemmast fleiri tennur en í flestum öðrum þjóðum. Tannskemmdarstuðull 12 ára barna var árið 1986 mun hærri en á Norðurlöndunum og er svo enn. Það sést fljótt á tönnum ef fæðuval, matarvenjur og tannhirða eru ekki í lagi.`` Þar segir jafnframt að ,,hérlendis hefur vönduðum heimilismáltíðum fækkað, sérstaklega á morgnana og í hádeginu. Aðrar þjóðir
bregðast við sama vanda með skólamáltíðum en við með því að fjölga sjoppum,,, segir tannlæknirinn í þessu erindi sínu og hann segir jafnframt að Íslendingar fái 20% af orkuþörf sinni með neyslu sykurs þegar æskilegt er talið að aðeins 10% komi úr sykri.
    Fróðlegar tölur eru í erindi tannlæknisins um sjoppufjölda á íbúa þar sem segir t.d. að í Reykjavík er ein sjoppa á hverja 170--180 íbúa en ein sjoppa á hverja 1200 íbúa í Helsingfors.
    Tannlæknirinn segir síðan í sínu erindi: ,,Við verðum að koma á skólamáltíðum og sjá um að börn og unglingar eigi kost á heppilegri næringu í félagsheimilum og íþróttastöðvum í stað núverandi sjoppufæðis.``

    Í till. sem Alþingi hefur samþykkt frá heilbrrh., Guðmundi Bjarnasyni, um manneldis- og neyslustefnu segir m.a. að meðal þeirra aðgerða sem grípa þurfi til sé að nemendum í grunn- og framhaldsskólum gefist kostur á að borða í skólunum.
    Að mati flutningsmanna er hér hreyft afar mikilvægu máli sem skiptir miklu fyrir framtíð þeirra kynslóða sem eiga að erfa þetta land.
    Ég hygg að það sé ljóst, jafnframt mikilvægi málsins um fæðuval og fæðuöflun, að sparnaður við tannviðgerðir geti orðið verulegur með skólamáltíðum. Ég vil jafnframt að það komi fram, vegna þess að hér hefur sérstaklega verið vitnað til þess hversu langt Kópavogur er þó kominn í þessum málum, að Reykjavíkurborg hefur farið sér ótrúlega hægt í þessum málefnum. Ég held að Reykvíkingum hljóti að verða sérstaklega starsýnt á það þegar þess er gætt að höfuðborgin hefur í rauninni mjög mikla fjármuni að spila úr. Eigi að síður hafa borgaryfirvöld fremur kosið að verja þeim til annarra hluta. Til mannvirkjagerðar stundum, sem orkar tvímælis, í stað þess að hlú að yngstu kynslóðinni í borginni og framtíð hennar með því að koma á skólamáltíðum. Í mínum huga er enginn vafi á því að borgaryfirvöld í Reykjavík hafa haft skakkar áherslur í meðferð sinna fjármuna þegar horft er einmitt til skólamáltíðanna.
    Við flm. leggjum því, virðulegi forseti, fram þessa þáltill. og vonumst til þess að geta fengið um hana víðtæka samstöðu hér á háu Alþingi Íslendinga, svo mikilsvert mál sem hér er um að ræða.
    Ég legg til að að lokinni umræðu verði þessari þáltill. vísað til allshn.