Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Tillagan sem hér er flutt er góð, lýsir skynsamlegum áherslum í skólamálum og uppeldismálum. Þó hún kosti í framkvæmd kannski á bilinu 50--100 millj. kr. í öllum skólum landsins, þá er þetta engu að síður góð og þörf tillaga. Ég vona að menn geti sameinast um að gera það sem gera þarf í þessu efni, þ.e. að tryggja til þess fjármuni.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir því eða í greinargerð hennar ef ég man rétt að hluti af efniskostnaði og allur launakostnaður verði greiddur af hinu opinbera eins og það er orðað. Skv. nýjum lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru þetta verkefni sveitarfélaganna og við þurfum auðvitað að átta okkur á því hvort við ætlum sveitarfélögunum þetta verk, hvort við segjum við sveitarfélögin: Þið eigið að bera þetta. Úr því að þið vilduð taka skólana, þá skuluð þið taka þetta líka. Eða hvort við eigum að segja: Ríkið kemur þarna til skjalanna á ný ásamt sveitarfélögunum til þess að leysa úr þessu brýna vandamáli, a.m.k. fyrst um sinn og meðan verið er að koma þessu af stað. Ég hygg út af fyrir sig að svo geti verið að menn reyni að efna þarna til samyrkjubúskapar ríkis og sveitarfélaga um þessar skólamáltíðir.
    Ég tel út af fyrir sig að það væri þegar hægt að gera átak í þessu efni í nokkrum fræðsluumdæmum strax í haust. Í sjálfu sér þurfi menn ekki að bíða mikið lengur vegna þess að það er ekki fyrst og fremst aðstöðuleysið sem hamlar, heldur eru það fjármunir og almenn skipulagning. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fulltrúar flokkanna hér á Alþingi eru tilbúnir til þess að taka á þessu máli og m.a. að stuðla að því að fjármunir fáist í þetta verkefni því að það er rétt að þetta er forgangsverkefni.
    Þetta er forgangsverkefni og hluti af því stóra verki sem blasir við Alþingi að gera sér grein fyrir því að hér þarf að koma á samfelldum skóladegi og lengdum skóladegi fyrir yngstu börnin. Það er mjög brýnt úrlausnarefni. Um það mál hefur verið rætt hér í öðru samhengi, bæði þegar fjallað hefur verið um málrækt og þegar fjallað hefur verið um að verja börn fyrir ofbeldiskvikmyndum. Þetta er í rauninni þáttur af sama máli og ég vil leyfa mér að fagna því sérstaklega að það er á því vaxandi skilningur á Alþingi að hér er um að ræða svo brýnt mál að það þolir í rauninni enga bið. Og þó að hér sé um nokkra fjármuni að tefla þá eru þeir sáralitlir í samanburði við það tjón sem einstaklingarnir og þjóðfélagið verða fyrir vegna þess að þessi mál hafa verið vanrækt. Og það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að hér eiga menn ekki að vera að hnotabítast um það hver byrjaði og hvar heldur snúa sér að því að hrinda hlutunum í framkvæmd.
    Það er mjög athyglisvert sem hv. 10. þm. Reykv. benti hér á áðan hvernig þessum málum er komið fyrir í Kópavogi þar sem skólamáltíðir hafa verið um langt skeið, eða allt frá 1982. Þar hefur sveitarfélagið í raun og veru gengið feti framar en mörg önnur

sveitarfélög. Og Kópavogur hefur ekki einasta stigið feti framar en önnur sveitarfélög á þessi sviði, að því er varðar skólamáltíðir, heldur hefur þar líka verið boðið upp á gæslu fyrir yngstu börnin umfram þann kennslukvóta sem ríkið kostar. Ég hygg að fá byggðarlög hafi í rauninni lagt jafnmikið fram varðandi uppeldismálin og grunnskólann sérstaklega og Kópavogur, umfram það sem ríkið gerir með beinum framlögum í
því formi að kosta kennslukvóta í grunnskólana eftir tilteknum reglum. Þar er sem sagt um að ræða fordæmi sem auðvelt er að byggja á við skipulagningu þessara mála og ég endurtek þakkir mínar til þeirra hv. þm. sem hér hafa talað í málinu og skil þá svo að málinu muni verða fylgt eftir rösklega.