Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það er vissulega athyglisvert að hlýða á þær umræður sem hér fara fram um, auðvitað, mikilsvert mál og nauðsynlegt nú á niðurskurðartímum að loknum kjarasamningum, þegar þeir sem ráða ferðinni í íslenskum stjórnmálum telja þörf á að skera niður um 1200 millj. frá því sem afgreitt var við fjárlög í desember.
    Hæstv. menntmrh. upplýsti það hér að þessi till. mundi kosta á bilinu 50--100 millj., a.m.k. það, en ekki nóg með það. Um hvað er þessi till.? Hún er ekki um það að ríkið taki þetta á sig. Þessi till. er um það að bæta þessum fjármunum á sveitarfélögin sem töldu sig verða fyrir mikilli skerðingu við verkaskiptinguna sem búið er að framkvæma. Og þarna eru þessir hv. þm., án þess að ég sé á nokkurn hátt að lasta þetta mál, síður en svo, en þessir hv. þm. eru hér að flytja till. um það að bæta þessum a.m.k. 100 millj. á sveitarfélögin, auk þess sem þau þurfa að bera varðandi verkaskiptinguna. ( Gripið fram í: Heldurðu að börnin þurfi ekki að borða?) Það kann vel að vera, hv. þm., þau hafa þurft það til þessa og framsóknarmenn ættu nú ekki að tala svona sem hafa stýrt landinu lengst af með íhaldinu í gegnum tíðina. Þau hafa kannski ekki þurft að borða fyrr en núna. Þá er líka kominn tími til. En þetta hefur ekki verið á vegum sveitarfélaganna fyrr en núna. Menn eru nefnilega að skjóta sér alltaf á bak við þá hluti sem þeir hafa sjálfir borið ábyrgð á lengst af. Maður skyldi ætla að hafi börnin þurft að borða áður þá hefðu þm. Framsfl. átt að íhuga það fyrr. Ég tala nú ekki um að stóri bróðir hefði þá átt að borga það, ekki sveitarfélögin. En nú er skipt um.
    Þegar menn telja að búið sé að velta þessum kostnaðarhluta af ríkisvaldinu yfir á sveitarfélögin þá koma menn með svona tillögu, sem er vissulega góðra gjalda verð að efninu til, en þetta er helber sýndarmennska eins og þetta er flutt. Helber sýndarmennska af þeim sem hér standa að þessu máli vegna þess að velflestir þessara hv. þm. gátu löngu verið búnir að hrinda þessu máli í framkvæmd hefðu þeir viljað, hefðu þeir vitað áður að börnin þyrftu að borða.