Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég verð nú að byrja á því að biðjast afsökunar á hv. 3. þm. Vestf., honum hefur farið aftur. Hann var bæði í skóla í gamla daga og einnig við kennslu og vissi þá hvernig þessu var háttað þegar vinnutími barna var miklu skemmri og börn voru komin heim áður en hádegisverður var borðaður. Hann er einnig í verkalýðshreyfingunni og þar var sett fram sú krafa fyrir nokkrum árum að Vinnueftirlit ríkisins yrði stofnað. Það var ekki aðeins krafa um að það yrði aðstaða til að matast á vinnustöðum heldur þurfti að setja fram kröfu um ákveðið rými meðan menn væru að matast og samkvæmt því rými þá mátti ekki sitja við öll borð hjá Hótel Holti, það var of þröngt samkvæmt kröfunum sem þeir gerðu þessir herrar. Ég held þeim væri nær að vera ögn meiri jafnaðarmenn og ætla börnum og fullorðnum jafnari hlut í þessu samfélagi. Það má vel vera að hann lifi það sem fleiri --- tvisvar verður gamall maður barn, stendur einhvers staðar, þannig að þetta á e.t.v. eftir að horfa til bóta þó seinna verði, en það getur orðið nokkur bið.
    Ég gat aftur á móti ekki á mér setið að standa upp til að leiðrétta mjög slæman misskilning sem kom fram hjá hv. 13. þm. Reykv. Það er alls ekki verkefni forseta að prédika yfir þingmönnum hvernig þeir eigi að standa að málatilbúnaði. Þar verða þingmenn að eiga að sjálfsögðu við sjálfa sig hvað þeir rifja upp. Ólíkt var það meiri hógværð hjá hæstv. menntmrh. hvernig hann flutti hér sitt mál þó að enginn efi að hann hafi haft áhuga á þessu máli og það mikinn þegar hann lagði fram sína beiðni um að þetta yrði kannað. En spurningin er, er könnun sama og framkvæmd? Það er nú af og frá. Menn geta kannað öll virkjunarsvæði Íslands, fallvatn og annað, án þess að virkja nokkurn skapaðan hlut. Hvað dvaldi hv. 13. þm. Reykv. eftir að upplýsingarnar lágu fyrir að sækja þá fram að nýju og ætlast til þess að þetta yrði framkvæmt? Hvað dvaldi?
    Auðvitað er þetta ekki það sama. Annars vegar er köld ákvörðun um það að leggja það til að þetta verði gert og þeir fjármunir teknir af íslensku samfélagi sem þarf til að hrinda því í framkvæmd, hv. 3. þm. Vestf., og menn setji börn ekki í annan eða þriðja flokk sem þegna í þessu landi heldur láti þau hafa full mannréttindi þar sem gert er ráð fyrir að þau þurfi mat eins og aðrir, eða þá hitt að menn vilja bara veifa könnunum og láta svo allt kyrrt liggja þegar þær kannanir liggja fyrir.