Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Maður skyldi ætla að flm. þessarar till. væri kunnugur málefnum Reykjavíkurborgar. Maður sem einu sinni lét þau mál mjög til sín taka og veittist m.a. harkalega að meiri hluta sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg fyrir þá ósvinnu að telja nauðsynlegt að Sundahöfn risi og taldi að gömlu hafnarmannvirkin hér niður við miðbæ mundu duga Reykvíkingum um aldur og ævi.
    Það er eðlilegt að gera þá kröfu til slíks manns að hann sé kunnugur málefnum Reykjavíkurborgar og getur maður þá kannski látið sér detta í hug að honum sé kunnugt um það að þau ár sem Sjálfstfl. hefur haft forystu í málefnum Reykjavíkurborgar hefur fræðsluráð Reykjavíkur haft mikla forystu í sambandi við menntunarmál barna.
    Það er skemmst að minnast þess þegar reglulegur skóladagur var tekinn upp fyrir sex ára börn. Það er skemmst að minnast þeirrar forystu sem fræðsluráð Reykjavíkur hefur haft um sálfræðilega þjónustu, um sérkennslu og önnur málefni sem lúta að börnum sem standa höllum fæti og má á mörgum öðrum sviðum rekja þá miklu forystu sem Reykvíkingar hafa haft í menntunarmálum ungs fólks og er ekki vafi á því að svo mun halda áfram enn um sinn, á meðan Reykvíkingar fá að vera í friði með sitt fræðsluráð. Þó ég geti ekki neitað því að sá klofningur sem kominn er upp í stjórn skólamála í Reykjavík eigi rætur sínar að rekja til þess að framsóknarmaður fór um stutt skeið með menntmrn. og kom þá á vissri óreglu í yfirstjórn skólamála í Reykjavík. Það er að vísu annað mál.
    Ég get vel tekið undir ummæli þm. um það að samfelldur skóladagur sé æskilegur. Þetta er mál sem skólafólk hefur barist fyrir mjög lengi, um áratugi, en það hefur strandað á því að fjármunir hafa ekki verið fyrir hendi til þess að sinna þessu verkefni.
    Sá maður sem er flm. að till. sem liggur fyrir á betri aðgang en við í stjórnarandstöðunni að því hvernig staðið er að fjárlögum hverju sinni. Það varð ekki vart við það við afgreiðslu fjárlaga að 1. flm. þessarar till. hefði uppi neinar sérstakar áherslur sem sýndu fram á að hann hefði brýnan áhuga á málinu. Það getur út af fyrir sig verið gagnlegt að flytja till. til þál. til þess að leggja áherslu á óskir sínar en á hinn bóginn er brýnt ef þm. í stjórnarandstöðu vill láta taka mark á sér að fyrir liggi einhver áætlun um hvernig hann ætli að afla fjár til verkefnisins. Að fyrir liggi einhver viljayfirlýsing frá viðkomandi þm. um það að hann vilji skera niður eitthvað annað af ríkisútgjöldum ef svo ber undir, eða hvaða hugmyndir hann hefur um nýja skattlagningu.
    Nú hefur þessi þm. að vísu sýnt óvenjulegt hugmyndaflug með því að leggja fyrir þingið frv. um það að skattleggja hóffjaðrir. Mér telst til að það eigi að borga 48 kr. í ríkissjóð af hverjum hesti sem járnaður er. ,,Lítið dregur vesælan`` stendur einhvers staðar og ,,Litlu verður Vöggur feginn`` og má vera að þetta dragi eitthvað. En ég er hræddur um samt að

tekjurnar verði næsta litlar til þess að hrinda í framkvæmd öllum þeim miklu framkvæmdum sem þessi hv. þm. ber fyrir brjósti.
    Mér hefði þótt, hæstv. forseti, meiri myndarbragur yfir málflutningi þessa þm. ef hann hefði sleppt þessum skömmum um fræðsluráð Reykjavíkur og stjórn Reykvíkinga á skólamálum vegna þess að hann á að vita betur og vegna þess að hann á að vera mjög kunnugur þeim málum. En hér fer sem oftar að það virðist vera nokkuð sama hvaða málefni ber upp á þingi, þegar stjórnarsinnar komast í ham þá reyna þeir með einhverjum ráðum að varpa skugga á stjórn sjálfstæðismanna á Reykjavíkurborg og gengur illa, en eru meira hikandi við hitt að snúa sér að sínum eigin mönnum sem bera ábyrgð á stjórn landsins, sem bera ábyrgð á stjórn fræðslumála og skólamála.
    Það var um daginn til umræðu skýrsla hæstv. menntmrh. um málvernd. Þar voru líka settar fram ýmsar óskir, fallegar óskir, en á hinu bar minna hvar ætti að afla fjármuna til verkefnisins. Nú skilst okkur að hæstv. menntmrh. hafi sagt að hann muni segja af sér ef ekki takist að halda áætlun um Þjóðleikhús, hefði kannski verið nær að hann hefði lýst því yfir að hann segði af sér ef ekki væri hægt að halda áætlun um Þjóðarbókhlöðu en sérstakur skattur hefur verið lagður á í því skyni.
    Ég sé svo ekki ástæðu, hæstv. forseti, til að ræða þetta meira. Það er auðvitað laukrétt að við þurfum að stefna að samfelldum skóladegi en hitt er líka rétt að ástandið í menntmrn. er nú ekki beint gott upp á síðkastið. Mér skilst að þar sé búið að stofna sérstakt embætti sem heitir ,,breytingastjóri`` og sá maður hafi það verkefni helst að endurskipuleggja menntmrn. frá degi til dags og mér skilst að andrúmsloft þar innan dyra sé ekki gott þessa dagana. En auðvitað er nauðsynlegt að skera upp ráðuneytið, auðvitað er nauðsynlegt að endurmeta þau verkefni sem því hafa verið falin og auðvitað er nauðsynlegt að koma á miklu betri og einbeittari stjórn fræðslumála en verið hefur.