Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Mér þykir það mjög miður að þurfa að koma aftur í ræðustól vegna orða hv. 10. þm. Reykv. þar sem ég var ekki sátt við í fyrri ræðu hans þær athugasemdir sem hann gerði um áherslur skólayfirvalda í Reykjavík, taldi þær vera rangar. Ég gerði athugasemdir við þetta og benti honum á að það væri margt gott sem hefði verið gert í Reykjavík og ég væri ekki sammála þessum athugasemdum hans. Þetta varð til þess að hann fann hjá sér þörf og hvöt til þess að fara að blanda flokkapólitík inn í þessi mikilvægu mál sem eru fjölskyldumál, velferð fjölskyldnanna og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík að hans mati og velferð heimilanna og barnanna í skólanum. Ég verð að upplýsa hv. 10. þm. Reykv. um það að við höfum oft í Ed. Alþingis rætt þessi mál og ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíma verið blandað þar inn í pólitík af slíkum toga sem hv. 10. þm. Reykv. gerði í ræðu sinni áðan, sem mér finnst vera mjög ósmekklegt og ég bið hv. þm. um að hugleiða það hvort þetta sé ekki slíkt velferðarmál að það eigi að vera hafið yfir umræðu á slíku plani sem hann hóf hér.
    Hann sagði að heilbrigði og þroski barna í skólum Reykjavíkur félli í skuggann fyrir byggingargleði meiri hluta borgarstjórnar. Slíkur málflutningur finnst mér fyrir neðan allar hellur. Þetta er ekki vettvangur til þess að ræða málin á þennan hátt.
    Hann sagði líka að fjöldi vannærðra barna væri mikill í Reykjavík og það má rétt vera og þau eru það sennilega víða. En það er kannski ekki eingöngu að kenna meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur að börn séu vannærð í Reykjavík. Það er vissulega dapurleg staðreynd ef rétt er og það þarf auðvitað að bregðast við slíku. Ég efast ekki um að þeir sem um slík mál fjalla í Reykjavík, Félagsmálastofnun og aðrir aðilar, reyni eftir fremsta megni að bregðast við slíkum vanda. Auðvitað er það mál sem hér er flutt í dag einmitt einn liður í að koma í veg fyrir að börn í grunnskólum séu vannærð með því að skapa þeim aðstöðu til þess að fá holla næringu í skólum.
    Mér dettur í hug að nefna það hér að í a.m.k. 20 grunnskólum í Reykjavík er boðið upp á lengda viðveru umfram það sem skylda er, sérstaklega fyrir 6--8 ára börn og það er kannski ofurlítill vottur um að það sé hugsað um eitthvað fleira heldur en að byggja eins og hv. 10. þm. Reykv. gat um.
    Hann sagði líka að málið væri brýnt og ég vil taka undir það. En ég get ekki séð að þessi þáltill., jafnvel þó samþykkt væri, tryggði það að leysa þetta brýna vandamál þannig að öll börn í grunnskólum landsins fengju máltíðir á haustinu 1990 eins og gert er ráð fyrir. Ég vildi benda hv. þm. á að það hefði verið skynsamlegra fyrir hann, þar sem um svo brýnt mál er að ræða að hann telur að það þurfi að semja frv., að leggja sjálfur fram frv. um málið en ekki þáltill. og fela ríkisstjórninni að semja frv. Það hefði verið miklu nær að hann hefði gert það sjálfur og lagt það fram. Það mundi flýta fyrir gangi málsins. En ég vil

þó ítreka það að ég er ekki sammála því að það þurfi að semja frv. því að hér er um framkvæmdaratriði að ræða. Hér er um vilja skólamanna á hverjum stað að ræða, að skapa þessi skilyrði með því að veita börnum holla og góða næringu í skólanum sem er vel hægt að gera án þess að frv. sé flutt, án þess að lög séu sett, með því að nýta þá aðstöðu sem er til á hverjum stað.
    Þetta vildi ég láta koma fram. Fyrst og fremst að gera athugasemdir við þennan málflutning sem hv. flm. hafði hér uppi vegna þessa mikilvæga máls, sem ég tel vera hafið yfir þá flokkadrætti sem komu fram hjá honum. Ég vildi í lokin benda honum á að Framsfl. er í ríkisstjórn. Hann leiðir þessa ríkisstjórn. Framsfl. hefur leitt ríkisstjórn í bráðum tvo áratugi eins og hann hefur sjálfur, ef ég man rétt, einmitt minnt á, áratugi Framsfl. Og nú er Alþb. einnig í ríkisstjórn, þeir hafa fjármálin svo að við sjáum það að málin hljóta þá að vera leyst. Við sjáum fram á það og ég gleðst yfir því.