Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá orð í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa orðið og fyrst út af hv. 2. þm. Vestf. Ólafi Þórðarsyni. Ekki ætla ég að gera samanburð á menntalegu útliti okkar tveggja. Ég hygg að allt hans fas beri með sér og útlit miklu meiri menntabrag en ég hef til að bera í þeim efnum þannig að það mál er þó afgreitt.
    Varðandi hitt málið og það sem kom fram hjá Guðmundi G. Þórarinssyni, frsm. og 1. flm. að þessari tillögu, um að ég hafi misskilið málið. Hann orðaði það svo að ég hefði misskilið málið en vildi ekkert tala um það á hvern veg það hefði verið. Hvað var það sem ég misskildi? Með leyfi forseta, tillagan er svona:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fram lagafrv. er tryggi að komið verði á máltíðum í hádegi í öllum grunnskólum landsins haustið 1990.``
    Þetta skal gera. Mín spurning var þessi: Hver á að borga? Það geta ekki verið að mínu viti nema tveir aðilar. Ég hélt því fram og hélt ég vissi rétt að þarna væri verið að leggja kvaðir á sveitarfélögin. Þarna væri verið að skikka þau til þess að borga 100 millj. eins og hæstv. menntmrh. upplýsti hér áður í umræðunni, umfram það sem verkaskiptingin gerði ráð fyrir sem búið er að afgreiða. Hvaða misskilningur er í þessu hjá mér? Ef sveitarfélögin eiga ekki að borga það, þá á ríkið að borga það hlýtur að vera, hv. þm. Annað hvort hlýtur að vera. Þannig að hundrað milljónirnar hljóta að koma frá öðrum hvorum þessum aðila. Þetta gerist á sama tíma og menn nánast leggja höfuð að veði í því að skera niður vegna kjarasamninganna og þar eru menn að tala um 1200 millj. Svo koma þm. Framsfl. og leggja til að bæta við a.m.k 100 millj. í útgjaldaauka vegna þessa. Hvort sem það lendir á sveitarfélögum eða ríkissjóði. Eru þetta heilindi í þeirri baráttu sem menn eru að tala um að
þurfi að heyja í þjóðfélaginu? Vegna hvers? Vegna vanstjórnar stjórnvalda og ekki hvað síst Framsfl. í gegnum árin og áratugina. Hér er ekki verið um neinn misskilning að tala. Þetta eru þær staðreyndir sem hljóta að blasa við. Hér eru menn ekki að deila um þörf eða nauðsyn þessa máls. Það er fjöldinn allur af málaflokkum sem nauðsynlega þyrfti að hrinda í framkvæmd. Þessi er kannski einn af þeim. En menn geta ekki verið svona tvískinnungsháttugir í þessum efnum. Stjórnmálaflokkur, einn af stærri stjórnmálaflokkum landsins, sem búinn er að halda um stjórnvölinn í áratugi, þingmenn hans geta ekki verið svona ábyrgðarlausir í málflutningi hér á Alþingi. Það er slepjukennt af þeim hv. þm. sem koma með slíkar tillögur á þessum tíma í því ástandi þegar velflestir eru sammála um að þurfi frekar að draga úr en bæta við. Og ég bið um svar hv. þm., 1. flm. og frummælandi, hvað misskildi ég í þessu máli? Hver er misskilningurinn? Eða á enginn að borga þetta? Ef svo er, þá hef ég misskilið málið.