Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð að gefnu tilefni vegna þess að ég er einn af flm. þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir.
    Ég vil beina því til hv. 3. þm. Vestf. Karvels Pálmasonar þar sem hann var að tala um kostnaðinn af þessari tillögu næði hún fram að ganga, að menn verða að gera sér grein fyrir því að það eru nú tveir dálkar í bókhaldinu og flestir sem hafa komið hér upp og talað um þetta af fullkominni hógværð hafa einmitt getið um það hvað sparast á móti þeim 50--100 millj. sem hæstv. menntmrh. gat hér um áðan.
    Við megum ekki gleyma því að við erum að tala um mikinn sparnað á margvíslegan hátt sem yrði ef þetta næði fram að ganga. Ég treysti mér ekki til að nefna tölur þar um. Ég veit það bara af því að skoða málið og kynna mér það að um mikinn sparnað er að ræða, og ekki bara í tannlækningum eins og hér hefur verið talað um. Það eru margir aðrir þættir sem þar koma til.
    Annað vil ég líka koma inn á vegna þess að hv. þm. Karvel Pálmason hefur mikið talað um að við lifum á niðurskurðartímum á því fjárlagaári sem nú er og þess vegna þurfi og ætli ríkisstjórnin sér að skera niður fjárveitingar upp á ákveðnar upphæðir og ég skal segja það hér að ég fagna því að hún skuli ætla sér að gera slíkt. Ég hef verið talsmaður þess. En hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fram lagafrv. er tryggi að komið verði á máltíðum í hádegi í öllum grunnskólum landsins haustið 1990.``
    Nú veit ég að það eru miklir afreksmenn í þessari ríkisstjórn. En ég verð að segja það og vera svo hreinskilinn að ég hef ekki trú á því að ríkisstjórnin komi með frv. áður en við förum heim í vor sem næði fram að ganga. Ég vil vera það raunsær að ég mundi fagna því ef við gætum komið því
frv. fram og fengið það samþykkt í haust þannig að á árinu 1991 gengi þetta mál til framkvæmdar. Það held ég sé raunsætt mat miðað við það sem stendur í tillögunni. Ég held því að bæði hæstv. menntmrh. sem eitt sinn flutti slíkt mál sem þetta og hv. þm. Karvel Pálmason geti þess vegna sofið rólegir út af því að þetta ætti nú ekki að setja ríkissjóð á hliðina á þessu ári. ( Gripið fram í: Á næsta ári.) Nei.