Skólamáltíðir
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki búið mig undir þessar umræður. Ég heyri að 1. flm. þessa máls telur nauðsynlegt að koma upp skólaeldhúsum í flestum ef ekki öllum grunnskólum. Þegar hann talar með þessum hætti um hversu illa borgarstjórn Reykjavíkur hefur staðið sig er kannski best að byrja á því að rifja upp að hér í borginni eru 204 bekkjardeildir sem ekki koma í skólann fyrr en eftir hádegi. Þess vegna sjáum við undir eins að verulega fjármuni þarf ef allar þær skólabyggingar eiga nú að rísa fyrir haustið sem dugi til að þessar bekkjardeildir geti verið árdegis í skóla.
    Ég vil í þessu sambandi minna á að þegar ríkisstjórnin var að gera þeim sveitarfélögum skil sem ríkið skuldaði í sambandi við skólabyggingar, var svo stillt til að Reykjavíkurborg situr þar við verra og slakara borð en önnur sveitarfélög. Væri kannski fróðlegt að fá að vita hvert innlegg hv. 10. þm. Reykv. hefur verið til þess máls, en mér virðist hann hafa vaknað of seint, eftir hans málflutningi hefði hann átt að beita sér fyrir þessu fyrr þannig að hægt hefði verið a.m.k. að láta Reykvíkinga njóta sama réttar og aðra hvað þetta varðar.
    Hér erum við að tala um slíkar fjárhæðir að allir byggingarfróðir menn eins og verkfræðingar sjá það og vita sem er að ekki er hægt að standa við það fyrirheit sem gefið er með flutningi þessar till. og fjórir þm. stjórnarmeirihlutans standa að.
    Við getum líka velt fyrir okkur hvað það skyldi kosta að setja upp skólaeldhús í flestum grunnskólum landsins. Nýjustu tölur sem ég hef séð um það efni segja að það muni ekki kosta minna en 400 millj. kr. Mér er ekki kunnugt um hversu gamlar þær tölur eru en það er augljóst að þarna erum við líka að tala um mjög verulegar fjárhæðir.
    Ef við horfum til þess hvernig búið er að börnum og unglingum í grunnskólum landsins kemur í ljós að 6--8 ára börn eru innan við þrjá tíma í skóla á hverjum degi, eða sennilega skemur en í nokkru nágrannalandi okkar. Og þá er auðvitað spurning hvaða erindi miðdegisverður ætti fyrir slík börn eða hvort kannski væri skynsamlegra að reyna að veita þeim betri fræðslu í skólanum en gert er, sinna þeim betur, lengja pínulítið tímann.
    Ef við færum okkur upp þá er það svo um börn sem eru 9--10 ára að þau geta lokið öllum sínum skólatíma árdegis. Eftir því sem börnin eldast breytist þetta og 11 ára börn eru yfirleitt tvo tíma eftir hádegi í skólum. Reynt hefur verið að bregðast við þessu vandamáli með margvíslegum hætti. Gerð hefur verið könnun meðal foreldra á því hvort þeir telji rétt að hið opinbera reki matsölu og selji börnunum. Fyrir því reyndist ekki ríkur áhugi. Það var gerð tilraun til að bjóða út gott nesti fyrir börnin í hádeginu. Eins og fram kemur í grg. varð Mjólkursamsalan hlutskörpust og henni var falið að sjá um þetta. Næsta haust kom í ljós að Mjólkursamsalan hafði hækkað verðið á matarpökkunum mjög verulega og langt umfram verðbólgu og allt sannvirði. Af þeim sökum var horfið

frá þessum viðskiptum við Mjólkursamsöluna. Á hinn bóginn hefur þetta verið að þróast smátt og smátt. Sums staðar er það þannig að nemendafélög selja holla fæðu handa skólabörnum í hádegi. Í mörgum skólum er aðstaða fyrir skólabörnin til að borða nestið sitt og þess eru jafnvel dæmi að foreldrafélög hafa gengist fyrir slíkri þjónustu.
    Auðvitað er nauðsynlegt fyrir okkur að reyna með öllum hætti að leita eftir því hvernig hægt sé að koma við sómasamlegri aðstöðu fyrir börn til þess að nærast í hádeginu. Ég tek alveg undir þá nauðsyn. En um leið og við verðum að játa að þetta er mikið alvörumál gengur ekki að vera með tillögu af þessu tagi sem hér er flutt, að ríkisstjórnin eigi að undirbúa og leggja fram lagafrv. til að tryggja að komið verði á máltíðum í hádegi í öllum grunnskólum landsins haustið 1990.
    Á sama tíma og þessi þm. Reykv. mælir fyrir till. og mælist til þess að þetta verði gert kveinka ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér undan því að skera niður til að mæta þeim niðurskurði á lífskjörum sem síðustu kjaraskerðingar virðast fela í sér ef maður horfir ekki til hins að svo hóflegir kjarasamningar valda auðvitað því að það á að vera hægt að standa í stórum dráttum við það kaupmáttarstig sem við búum nú við. Og ef við lítum t.d. til einnar stéttar í landinu, bænda, þá var samið við þá um að þeir gæfu eftir um 250 millj. af sínum launalið, það er um 60 þús. kr. að meðaltali á hvern bónda í landinu, auk annars sem þeir hafa gefið eftir. Sú stétt hefur með þessu sýnt að hún er reiðubúin til að leggja mikið á sig til að ná saman endum og til að við getum sigrast á verðbólgunni sem er okkur auðvitað mikið mál. Ólafur Thors sagði að öll stjórnmálabarátta væri til einskis ef okkur tækist ekki að leggja hana að velli.
    En þetta hugarfar, að leggja fram till. af þessu tagi nú, sem kallar á útgjöld sem eru langt, langt umfram það sem nokkur þm. treystir sér að leggja til, ekki flm. þessarar till., enginn annar þm. hér á hinu háa Alþingi treystir sér til að leggja til þessar fjárhæðir ef þeir horfa framan í
tölurnar, ef þeir sjá tölurnar á blaði. Ef tillöguflutningur af þessu tagi verður mikið uppi hér í Alþingi þá missa menn auðvitað trúna á að þetta geti tekist. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig vel. Hún hyggst leggja á orkuskattinn, hún hyggst tvöfalda bifreiðagjaldið og hún hyggst gera þetta, þetta og þetta. Allt af sama toga og hér er lagt til. Af tveim hlutum er kannski skömminni skárra að leyfa þm. að leggja tveggja krónu skatt á hóffjaðrirnar ef hægt yrði að koma vitinu fyrir hann að öðru leyti.