Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. á þskj. 386 um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu. Flm. tillögunnar eru Stefán Guðmundsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Alexander Stefánsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja nú þegar á fót vinnuhópa til að móta tillögur um hagræðingu og uppskurð í ríkiskerfinu. Í starfi sínu taki vinnuhóparnir m.a. mið af eftirfarandi atriðum:
1. Starfsmarkmið ríkisstofnana verði endurmetin og þau markmið, sem til grundvallar eru lögð við reksturinn, skilgreind að nýju og sjálfvirkni afnumin í útgjöldum. Þetta verði gert í samstarfi og samvinnu við forstöðumenn viðkomandi stofnana. Þannig verði hlutverk stofnana endurskilgreind og mat lagt á hagkvæmni í rekstri þeirra.
    2. Stofnanir verði sameinaðar, starfsemin einfölduð og hagræðingu komið á. Lagðar verði niður stofnanir þar sem færa má starfsemina undir aðrar stofnanir.
    3. Flestar ríkisstofnanir fái sjálfstæðan fjárhag og stjórnendur beri ábyrgð á að halda stofnuninni innan fjárlagarammans.
    4. Gerð verði úttekt á ýmsum þáttum í rekstri ríkisstofnana sem bjóða má út og haldið verði áfram athugun á sölu ríkisfyrirtækja.
    5. Verkaskipting starfsmanna verði ekki eins afmörkuð og nú er, en gert verði ráð fyrir tilfærslum innan stofnana eftir álagi.
    6. Stjórnkerfi ríkisstofnana verði gert virkara og við það miðað að stjórnendur þeirra geti lagað reksturinn að fjárlögum.
    7. Miðað verði við að fækka ríkisstarfsmönnum um 1,5--2% á næstu þremur árum.``
    Í greinargerð með tillögunni segir svo:
    ,,Ríkissjóður hefur á undanförnum árum verið rekinn með miklum halla. Þessi halli ríkissjóðs byggist fyrst og fremst á stórauknum útgjöldum. Hallinn á ríkissjóði gæti orðið um 5 þús. millj. kr. á þessu ári og e.t.v. annað eins á því næsta. 10 þús. millj. kr. halli á ríkissjóði á tveimur árum svarar til að hann tapi um fimmtán 500 tonna frystitogurum eða sem svarar 700 einbýlishúsum. Ljóst er að hvernig sem reiknað er verða tölurnar gríðarlega stórar.
    Stjórnvöld hafa lýst yfir því að heildarskattálagning verði ekki hækkuð enda öllum ljóst að halli ríkissjóðs verður ekki brúaður með skattahækkunum. Ráðið til þess að bregðast við tapi ríkissjóðs er að skera upp ríkiskerfið og beita hagræðingu. Eitt brýnasta verkefnið í íslensku efnahagslífi er uppskurður ríkiskerfisins. Ríkisrekstur er af ýmsum ástæðum annars eðlis en einkarekstur. Almenningur gerir kröfur til ríkisins um ýmsa þjónustu, stjórnmálamenn finna sig knúna til að verða við slíkum óskum, nýir tímar, nýjar áherslur kalla á nýja þjónustu, nýja starfsemi. Hættan við þetta allt er að ríkisumsvifin aukast, ríkisstofnanir þenjast út og mannahald eykst. Í þeirri þróun, sem þannig verður, gleyma menn alloft að taka tillit til gamla kerfisins, leggja niður starfsemi sem

ekki á lengur rétt á sér, einfalda og hagræða. En þeir, sem reka sín fyrirtæki, verða fljótlega varir við það ef ekki er þörf á þjónustu þeirra lengur. Viðskiptavinurinn hættir einfaldlega að koma, hann borgar ekki og starfsemin leggst niður.
    Hjá ríkinu er þetta öðruvísi þar sem ekki er greitt fyrir þjónustuna. Dugmiklir forustumenn stofnana verða jafnvel ekki varir við að tímarnir hafa breyst, þörfin fyrir þjónustuna er ekki sú sama, almenningur greiðir ekki fyrir hana í mörgum tilvikum og menn hafa þess vegna ekki þann mælikvarða á það hvort þjónustan eigi að halda áfram, hvort hún sé beinlínis þörf eða brýn. Dugmiklir ríkisforstjórar geta jafnvel búið til nýjar þarfir, búið til aukna þjónustu og þar með stóraukinn kostnað án þess að það sé í sjálfu sér þörf fyrir allt saman.
    Parkinson sagði einhvern tíma að ef stofnun væri nógu stór þá þyrfti hún engin utanaðkomandi verkefni, allir gætu haft nóg að gera við að sinna innri málum stofnunarinnar. Því miður er það svo að ríkisrekstur hefur í eðli sínu innbyggða þætti sem verka í þessa átt. Í þeirri stöðu, sem íslenska þjóðarbúið er nú, samdrætti í þjóðartekjum og erfiðri stöðu heimila og atvinnulífs, hlýtur þetta mál að koma allt í nýtt ljós.
    Nú þarf að setja harða vinnuhópa í að skera ríkiskerfið upp. Nú þarf að vinna markvisst að langtímaáætlun og einfalda ríkiskerfið. Eigi að síður tala menn stöðugt um aukin útgjöld ríkissjóðs, tala um að hengja nýja pinkla á ríkissjóð. Umræðan um gagngeran uppskurð á ríkiskerfinu hefur ekki verið inni í myndinni.
    Fjármálaráðherrar hafa í auknum mæli nánast starfað sem rukkarar og sjaldan séð önnur úrræði en að auka skattana, afla nýrra tekna, herða innheimtuna. Þetta gengur ekki lengur. Það verður að skera ríkiskerfið upp, það verður að draga úr ríkisbákninu. Ríkisstjórnin krefst þess með aðgerðum sínum að atvinnulífið hagræði hjá sér, fækki fólki, dragi úr reksturskostnaði. Það verður að gera víðast hvar, en ríkissjóður gerir lítið í þá áttina sjálfur. Nú
verða menn að stýra fleyinu eftir nýjum áttavita, hætta að taka stefnuna á meiri tekjuöflun, þess í stað að stefna á samdrátt í ríkisútgjöldum, uppskurð í ríkiskerfinu.
    Við verðum að leggja niður eða selja þær stofnanir sem fást við verkefni sem þegnarnir, borgararnir geta sjálfir annast. Um samdrátt í rekstri ríkisins er vart að ræða nema fækka ríkisstarfsmönnum. Það er auðvitað mjög erfitt og ekki síst á tímum þegar atvinnuleysi hefur haldið innreið sína. Eigi að síður er það einmitt það, fækkun starfsmanna, sem ríkisstjórnin krefst af atvinnulífinu. Heimilin og atvinnulífið geta ekki greitt meira til þess að standa undir aukinni þjónustu ríkisins.``
    Virðulegi forseti. Flm. þessarar till. leggja á það þunga áherslu að eitt meginmarkmið í ríkisfjármálum sé að koma í veg fyrir ofþenslu í ríkisumsvifum sem þá um leið mun draga úr þörf fyrir hækkun skatta. Við ítarlega athugun flm. á umsvifum ríkisins er þeim það ljóst að aukin samvinna og samruni ýmissa

stofnana sparaði mikið fé og mundi auka hagræði. Við blasir einnig sú staðreynd að margvísleg starfsemi þess opinbera væri betur komin í höndum annarra en þess opinbera.
    Þær breytingar sem íslenska þjóðfélagið hefur verið að ganga í gegnum á sl. tveimur áratugum hafa tekið aðrar þjóðir aldir. Sú breyting öll hefur kostað mikið fé. Fáir vilja skerða það sem velferðarþjóðfélagið Ísland hefur að bjóða þegnum sínum. Allt okkar mikla aflafé hefur ekki dugað til að standa undir sívaxandi kröfum og því miður hefur verið gengið ógætilega á stofninn sjálfan. Eyðslan umfram efni, framkvæmdagleði ríkis og ekki síður sveitarfélaga hafa farið úr böndunum.
    Í einu dagblaðinu í gær sá ég að auglýstar voru til sölu hvorki meira né minna en á milli 1500 og 2000 íbúðir hér á þessu svæði. Væri ekki skynsamlegt að skoða þessi mál aðeins nánar með tilliti til mikillar fjármagnsþarfar byggingarsjóðanna og athuga hver hin raunverulega þörf er? Mjög nauðsynlegt er að ná því markmiði að reka ríkissjóð hallalaust. Því markmiði verður ekki náð nema með róttækum uppskurði á útgjöldum ríkissjóðs og skipulagi í ríkisrekstrinum. Leita verður leiða til að hagræða og auka hagkvæmni hjá því opinbera. Í frekari skattheimtu er ekki skynsamlegt að ganga lengra eins og ég hef margtekið hér fram. Hagræðing í ríkiskerfinu verður að eiga sér stað. Það agaleysi sem ríkt hefur hjá því opinbera verður að taka föstum tökum og mjög róttækar breytingar eru þar óumflýjanlegar. Alvarleg mistök og ótrúleg sjálfvirkni í meðferð fjármagns ásamt slælegri innheimtu lögboðinna gjalda eiga að vera okkur víti til varnaðar.
    Ég tel sjálfsagt að nefna hér dæmi máli mínu til stuðnings. Árið 1988 fóru fyrirtæki og stofnanir sem heyra undir B-hluta ríkissjóðs rúmlega 740 millj. kr. umfram fjárlagaheimildir. Við eftirgrennslan á A-hluta stofnunum ríkisins kom fram að 86 embætti og stofnanir höfðu farið meira en 20% fram úr heimildum fjárlaga 1988. Dæmi eru um að ákveðið verk hafi farið hundruð milljóna kr. umfram heimildir á fjárlögum. Árið 1988 afskrifaði ríkið um 1,4 milljarða vegna gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga. Ef ég man rétt námu aukafjárveitingar á síðasta ári á milli 800 og 1000 millj. kr. Hvernig má það vera að söluskattsskuldir fyrirtækja og einstaklinga sem nema mörgum milljörðum kr. skuli ekki hafa verið innheimtar árum saman? Ég nefni árið 1988 nánast af tilviljun, en svona hefur þetta viðgengist allt of lengi. Og ég spyr: Hver er ábyrgur fyrir slíkum vinnubrögðum sem þessum? Hver er ábyrgur fyrir slíkum vinnubrögðum? Er nema von að fólkið í landinu spyrji.
    Fámenni ráðuneyta verður varla kennt um. Mér sýnist að kostnaður við þau fari sífellt hækkandi. Dæmi er um að kostnaður við einstakt ráðuneyti hafi hækkað á tveimur fjárlagaárum, að mig minnir, um rúmlega 80%. ( Gripið fram í: Hvaða ráðuneyti var það?) Ætli það hafi ekki verið sjálft fjármála- og hagsýslan.

    Árið 1960 störfuðu um 39% landsmanna í þjónustugreinum. Nú starfa í þessari grein hvorki meira né minna en yfir 60%, yfir 60%. Enginn efi er að drjúgan hluta þessarar miklu aukningar má rekja til ríkisgeirans. Hlutur þeirra sem að framleiðslunni starfa fer sífellt minnkandi. Þessari þróun verður vitaskuld að snúa við.
    Virðulegi forseti. Ég verð að hrella þm. með því að svona lestri gæti ég því miður haldið áfram mjög lengi enn, svo illa er komið. Ein skíma er þó sjáanleg í þessum vegvillum. Ófærðin er nefnilega orðin slík að við komumst bara alls ekki lengra. Þess vegna er sú tillaga, sem hér er til umræðu, flutt.
    Með margvíslegum aðgerðum hefur núv. ríkisstjórn tekist að leggja grunn að miklum og jákvæðum umskiptum í þjóðfélaginu. Ef þau eiga að verða að veruleika verður að fylgja þeim eftir á markvissan hátt. Flm. þessarar till. telja að róttækur uppskurður og margvísleg hagræðing í ríkiskerfinu sé eitt af því sem nást verði fram ef sá árangur sem vænst er á að verða að veruleika. Von flm. er að Alþingi taki þessari till. vel og hún fái hér skjóta og jákvæða afgreiðslu.
    Virðulegur forseti. Ég legg til að till. verði vísað að lokinni þessari umr.
til allshn. ( EgJ: Til ríkisstjórnarinnar.)