Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Mánudaginn 12. febrúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Sú var tíðin að ég var í Heimdalli ásamt Friðriki vini mínum Sophussyni og þá lagði hann fram hernaðaráætlun sem hét ,,Báknið burt``. Svo kynduglega hljómaði það nú á sínum tíma, en ég efast ekkert um að Friðrik meinti það sjálfur. En á sama tíma og Friðrik var með ,,Báknið burt`` og vildi selja tunnuverksmiðjuna á Siglufirði hreiðraði Sjálfstfl. um sig í Framkvæmdastofnun. Þá hreiðraði Sjálfstfl. um sig í Seðlabanka og hann hreiðraði um sig alls staðar þar sem hann fann matarholu því að Sjálfstfl. hefur aldrei viljað báknið burt. Hann lifir og þrífst á bákninu. Hann þenur báknið út, það er málið, enda er það tímanna tákn að þá sagði Friðrik: Báknið burt, báknið burt, en nú er búið að draga úr þessum fullyrðingum. Það var fundur um daginn með ungum sjálfstæðismönnum og hvað sögðu þeir? Baráttan við báknið. Ekki lengur ,,Báknið burt``, heldur eru þeir nú farnir að tala um baráttuna við báknið eins og það sé ekki eins auðvelt og þeir héldu að flytja báknið burt. Eftir fimm ár kemur kannski fundur með yfirskriftinni ,,Báknið og ég``. Þá verða þeir farnir að sætta sig við báknið eða a.m.k. að þora að kannast við báknið, og þegar Friðrik er kominn á ellilífeyrisaldurinn getur hann mætt á fundi hjá ungu sjálfstæðismönnunum og sagt með stolti: Báknið sem gerði syni mína ríka. Svona getur hann haldið áfram. Og svo koma þeir upp, hver á fætur öðrum, hér í þingsölum, út af því að það á að fara að slá saman umhverfismálunum í eitt ráðuneyti. Og þeir ná ekki upp í nef sér út af því.
    Við skulum aðeins skyggnast í þingsöguna, með leyfi forseta. Hér er ég með till. til þál. á þskj. 744 frá 111. löggjafarþingi. Flm. voru Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Blöndal, Birgir Ísl. Gunnarsson og Ólafur G. Einarsson, en þar stendur:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að stofnun sérstaks varnar- og öryggismálaráðuneytis er lúti sérstökum ráðherra.``
    Þarna vildu þeir hemja báknið --- þarna vildu þeir hemja allt hermangið í einu ráðuneyti fyrir sig. Hvorki meira né minna. Það átti að hefja hermangið í ráðuneytishæðir. Þetta eru sömu mennirnir, sömu piltarnir, og segja í dag: Báknið burt.
    Hvernig á maður að trúa þessum málflutningi? Jafnvel eftir 25 ára vist í Heimdalli, jafnvel eftir að hafa verið skólaður þar til á stuttum buxum í 25 ár, þá get ég ekki trúað þessu. Hins vegar þá styð ég þessa framkomnu tillögu. Hún er í þeim anda sem ég kýs að starfa hér inni.