Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið, bæði í máli hæstv. forsrh. og hv. 6. þm. Reykn., eiga umhverfismálin sér nokkurn aðdraganda í okkar stjórnkerfi. Það hafa verið samin frumvörp og tillögur án þess að nokkur þeirra hafi hlotið afgreiðslu. Eins og fram kom er það allt aftur til ársins 1975 að frumvörp um umhverfismál voru hér fyrst samin.
    Frá stofnun Kvennalistans, sem reyndar er ekki mjög gömul hreyfing, hefur það verið eitt af meginatriðunum að vinna að umhverfisvernd. Við höfum oft og einatt bent á nauðsyn þess að sameina öll verkefni á sviði umhverfismála undir eitt ráðuneyti í því skyni að tryggja virkari og hagkvæmari stjórn umhverfisverndar og eftirlit með umhverfi okkar. Stóraukin þekking og skilningur á náttúrunni er það eina sem getur forðað okkur frá að þurrausa auðlindir jarðar og eyðileggja það umhverfi sem við lifum á og ætlum komandi kynslóðum að lifa á líka.
    Sem betur fer eru augu manna smám saman að opnast fyrir nauðsyn þess að taka tillit til umhverfisins og að ekki er hægt að ganga að auðlindum jarðar sem eilífðarbrunnum og að umhverfið tekur ekki endalaust við þeim margvíslegu úrgangsefnum og flóknu efnasamböndum sem fylgja búsetu okkar mannanna hér á jörðinni.
    Allt frá því að Kvennalistinn eignaðist fulltrúa hér á Alþingi hafa kvennalistakonur átt frumkvæði að flutningi margra mála er tengjast umhverfismálum, enda stendur það nærri konum að vilja tryggja börnum sínum lífvænlega framtíð. Í stefnuskrá Kvennalistans segir, með leyfi forseta:
    ,,Framtíð mannkyns veltur á því hvernig við umgöngumst náttúruna, hvernig við nýtum gögn hennar og gæði og hvort við berum gæfu til að bæta úr þeim spjöllum sem við höfum valdið henni. Móðir jörð setur ákveðin lögmál. Maðurinn gengur þvert á mörg þeirra á leið sinni til hámarks skammtímagróða og tekur hvorki
tillit til hagsmuna heildarinnar, jarðar né framtíðar. Umhverfisvernd er að ganga um hverja auðlind með virðingu og nærgætni og taka aðeins vextina en láta höfuðstólinn óskertan til að afkomendur okkar fái notið sömu náttúrugæða og núlifandi kynslóðir.
    Umhverfismál á Íslandi falla að einhverju leyti undir flestöll ráðuneytin. Afleiðingin er óstjórn og skörun. Sameina ætti öll verkefni á sviði umhverfismála undir eitt ráðuneyti til virkari og hagkvæmari stjórnunar og markvissrar umhverfisverndar.``
    Í samræmi við þessa stefnu hafa þingkonur Kvennalistans haft frumkvæði að flutningi margra þingmála hér á Alþingi. Minni ég í því sambandi á tillögu um umhverfisfræðslu í skólum og meðal almennings sam samþykkt var á síðasta þingi. Þá lögðum við þingkonur Kvennalistans fram till. til þál. í fyrra þar sem lagt var til að stofnað yrði sérstakt ráðuneyti umhverfismála með ákveðnum verkefnum sem voru rannsóknir og stjórnun náttúruauðlinda,

náttúruvernd, umhverfisfræðsla, skipulagsmál, mengunarvarnir og alþjóðleg samskipti um umhverfismál. Gerði tillagan ráð fyrir að undir þetta ráðuneyti yrðu fluttar stofnanir eða deildir sem nú starfa á þessum sviðum undir stjórn ýmissa ráðuneyta.
    Í tillögunni er greint frá því hvernig við hefðum getað hugsað okkur að breyta skipan umhverfismála. Ég sé ekki ástæðu til þess að tíunda þá tillögu hér eða efni hennar í smáatriðum. Breytingarnar voru mjög róttækar en gerðu alls ekki ráð fyrir nýju bákni, eins og þeir sem leggjast gegn stofnun umhverfisráðuneytis kjósa oft að kalla það. Meginmarkmið okkar var að samræma og flytja málaflokka undir eina stjórn.
    Ekki verður fram hjá því horft að það kostar nokkurt fé að gera það átak sem þörf er á sviði umhverfismála svo lengi sem þau hafa verið hornreka í hugum manna og þar af leiðandi allt of litlu fé verið veitt til þessa málaflokks. Er það trú okkar kvennalistakvenna að með þeirri skipan mála sem við bentum á í tillögu okkar hefði mátt gefa umhverfismálunum aukið vægi og svigrúm hefði gefist til að byrja að sinna þeim málum af þeirri alúð sem nauðsynleg er. Við gerðum okkur hins vegar að sjálfsögðu grein fyrir því að erfitt gæti verið að gera slíkar breytingar á stjórnkerfinu í einu vetfangi. Þess vegna töldum við að sá verkefnatilflutningur sem gert er ráð fyrir í 128. máli, þ.e. fylgifrv. þess frv. sem hér er til umræðu, væri þó alla vega fyrsta skrefið. Það þýddi þó ekki að við værum sáttar við endanlega niðurstöðu nefndarinnar sem vann það frv. Bryndís Brandsdóttir jarðeðlisfræðingur var fulltrúi Kvennalistans í nefndinni sem samdi frv. en eins og ljóst er klofnaði nefndin í afstöðu sinni til frv. í heild við endanlega afgreiðslu þess til þingsins. Það álit sem Bryndís stóð að fól í sér að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins flyttust frá landbrn. til umhverfisráðuneytis en þó þannig að landbrn. hefði áfram umsjón með ræktun skjólbelta og nytjaskóga á bújörðum.
    Þó við kvennalistakonur séu sannfærðar um að það fyrirkomulag sé betra en það sem ráð er fyrir gert í fyrirliggjandi frv. höfum við þó talið það skref í rétta átt. Við höfum lýst okkur samþykkar því að taka það skref þó það sé að
okkar mati of skammt gengið. Við erum því fylgjandi að stofna umhverfisráðuneyti með ákveðnum verkefnum. Þess vegna voru það þingkonum Kvennalistans í Nd. mikil vonbrigði að geta ekki tekið þátt í afgreiðslu þessa frv. sem við nú ræðum þegar það var afgreitt úr deildinni í síðustu viku án þess að nokkuð væri vitað um hvenær fylgifrv., sem kveður á um hlutverk og verkefni umhverfisráðuneytisins, yrði afgreitt. Við sjáum engan tilgang í því að stofna ráðuneyti um svo mikilvægan málaflokk sem við berum svo mjög fyrir brjósti án þess að fyrir liggi hvernig verður að málum staðið og hver verða verkefni umhverfisráðuneytisins.
    Á þeirri stundu sem frv. var afgreitt frá Nd. var engan veginn ljóst hver yrði staða og starfssvið

umhverfisráðuneytisins. Það hafði í raun og veru ekki annað til umráða en ráðherrastól, bíl og skrifborð því að allir þeir málaflokkar sem með réttu ættu heima í slíku ráðuneyti heyra eftir sem áður undir sín gömlu ráðuneyti þar til samkomulag hefur náðst um annað.
    Virðulegur forseti. Í máli mínu hef ég nánast eingöngu talað um frv. um verkefnaflutninginn sem nú er til umfjöllunar í allshn. Nd., enda er þetta tvennt, þ.e. stofnun ráðuneytisins og væntanleg verkefni þess, ein órjúfanleg heild sem hvorki er hægt að ræða né afgreiða án þess að bæði málin fylgist að. Ég vil taka undir með hv. 6. þm. Reykn. um það sem hún sagði hér áðan varðandi orð hæstv. hagstofuráðherra í þættinum Þingsjá fyrir rúmri viku þar sem hann sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu að þessi mál fylgdust að. Það væri aðeins verið að koma frv. um stofnun umhverfisráðuneytisins til Ed. en síðan gætu þau fylgst að héðan í lokaafgreiðslunni. En mér heyrðist hins vegar á máli hæstv. forsrh. áðan að honum lægi töluvert á og vil ég því spyrja hann ef hann heyrir til mín núna, ( Forsrh.: Ég heyri vel.) hvort það sé Framsfl. sem hingað til hefur ýtt svo mjög á að þetta frv. fari með þessum ógnarhraða hér í gegnum þingið. Eins og hæstv. hagstofuráðherra hefur lýst yfir liggur ekkert á og frumvörpin eiga að fara saman út úr Ed. Mér skildist það hins vegar á orðum hæstv. forsrh. áðan að hann vildi að þetta mál yrði afreitt sem fyrst héðan út úr Ed. Það er auðvitað alveg út í hött að afgreiða annað frv. án þess að hitt fari með og er gott til þess að vita að hæstv. hagstofuráðherra hefur komið auga á það. Ég hélt reyndar að hann talaði fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar í þessum sjónvarpsþætti. Með því að frumvörpin fari saman frá Ed. er ekki einungis tryggður þessi verkefnaflutningur heldur er einnig komið í veg fyrir þá réttaróvissu sem skapast hefði og getið er um í grg. með frv. ef stofnað yrði ráðuneyti án verkefna.
    Ég hef af því fregnir að allshn. Nd. haldi stöðuga fundi og vel gangi að vinna frv. um verkefnaflutninginn og ég sé ekki fram á annað en að auðvelt ætti að vera fyrir okkur hér í Ed. að vinna að málinu þannig að við getum stofnað umhverfisráðuneyti með verkefnum, sem við getum vonandi allir hv. þm. verið sæmilega sáttir við, í síðasta lagi fyrir þinglok í vor. Eins og fram hefur komið er ekki nóg að stofna umhverfisráðuneyti án verkefna. Það er heldur ekki nóg að stofna umhverfisráðuneyti með verkefnum ef ekki verður unnið að því um leið að efla vitund almennings um þau verðmæti sem er að finna í óspilltu umhverfi, ekki síst þeirra sem beinlínis nýta sér auðlindirnar. Þeirra hagsmunir eru ekki litlir þegar rætt er um verndun auðlindanna.
    Að lokum langar mig til að beina þremur fsp. til hæstv. forsrh. Það er fyrst varðandi grg. sem með frv. fylgir en þar er talað um væntanlegt starfsfólk við hið nýja ráðuneyti þegar það verður stofnað. Mig langar til þess að fá um það upplýsingar hvort búið sé að ákveða á hvaða sviði þeir tveir sérfræðingar sem ráðnir verða eiga að vera. Það er reyndar ætlunin að

bæta við tveimur 1. apríl í vor og ég vildi gjarnan fá um það upplýsingar, ef þær liggja fyrir, á hvaða sviði þeir sérfræðingar eigi að vera. Jafnframt langar mig til að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh. og hún varðar það mál sem varð að ágreiningsefni í nefndinni sem samdi frv. Það er varðandi Landgræðslu og Skógrækt ríkisins. Það er samdóma álit þeirra sem best þekkja til að stærsta umhverfisvandamál okkar Íslendinga nú sé gróðureyðing og uppblástur lands. Í lögum um Landgræðslu segir í 1. gr., með leyfi forseta: ,,Tilgangur þessara laga er að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs, að græða upp eydd og vangróin lönd.`` Og í lögum um markmið og stjórn Skógræktar ríkisins segir í 1. gr., með leyfi forseta: ,,Skógrækt ríkisins skal rekin með því markmiði að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar sem eru í landinu, að græða upp nýja skóga þar sem henta þykir, að leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs og annars þess sem að skógrækt og skóggræðslu lýtur.``
    Mér sýnist að hér séu mjög mikilvæg umhverfismál og þá ekki síst Landgræðslan. Mig langar því þess að spyrja hæstv. forsrh. með hvaða rökum menn telja sér stætt á að setja þessar tvær stofnanir ekki í hið nýja umhverfisráðuneyti. Að lokum vil ég undirstrika að ég fagna þeim sinnaskiptum sem hæstv. hagstofuráðherra hefur tekið og vona að hann fái aðra í hæstv. ríkisstjórn með sér til að gefa okkur svigrúm til að vinna að þessum málum báðum saman þannig að þau verði afgreidd hér þegar hv. þm. hafa athugað þau eins gaumgæfilega og við teljum okkur þurfa að gera. Enda, eins og fram hefur
komið, eru ýmsar skoðanir uppi og við þurfum auðvitað að reyna að sætta sjónarmið og stofna umhverfisráðuneyti sem sem allra flestir geta verið sáttir við.