Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Ekki skal ég lengja mjög þessa umræðu þó að vissulega væri til þess ástæða að fjalla nokkuð um þá einkennilegu málsmeðferð sem mér sýnist hér vera viðhöfð.
    Ég vil í fyrsta lagi viðurkenna það að ég hef eiginlega aldrei verið sannfærður um ágæti þess að stofna eitt ráðuneyti í viðbót sem héti umhverfisráðuneyti. Þeim málum má koma við með öðrum hætti. Öllum er auðvitað ljóst að umhverfið þarf að vernda og bæta. En ég vil líka viðurkenna að ég beitti mér ekki gegn því í þingflokki Alþfl. og hafði ekki við það athugasemdir þegar þessi tvö mál komu saman inn í þingflokkinn og voru afgreidd þar.
    Nú er allt annað uppi á teningnum í þessum efnum. Ég heyrði það fyrir rúmri viku síðan í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að hæstv. ríkisstjórn legði höfuðáherslu á það nú að fá afgreitt það mál eitt og sér sem hér er á dagskrá. Hitt liggur líklega eitthvað, nema rétt sé sem haft er eftir hæstv. hagstofuráðherra og væntanlegum umhverfisráðherra, skilji maður þetta rétt, að málin eigi að fylgjast að út úr Ed.
    Mér finnst að hér sé verið að misbjóða þingmönnum almennt í vinnubrögðum og hér eigi flokkspólitísk sjónarmið að ráða. Vinnubrögð af þessu tagi, að haga málum með þessum hætti, eru auðvitað að misbjóða þinginu sem slíku. Og í mínum huga ber þetta allt of mikinn keim af mikilli kaupmennsku og hégómagirni tiltekinna einstaklinga sem hér eiga hlut að máli. Það er auðvitað ekkert réttlæti í því, hvað sem lögspekingar segja hér í hv. deild, það er auðvitað ekkert réttlæti í því að stofna til ráðuneytis og ráðherraembættis án nokkurra verkefna sem því er ætlað. Margir hafa að vísu haft áhyggjur af því að ef til þessa yrði stofnað mundi þetta verða að miklu bákni og hlaða upp á sig. Kannski verður það til hins betra ef engin verkefni verða, þá verður ekkert
báknið. En vinnubrögð af þessu tagi eru að mínu viti algerlega óþolandi og þingmenn eiga ekki að láta bjóða sér svona, alls ekki. Telji menn nauðsynlegt að stofna slíkt umhverfisráðuneyti, þá á að gera það með verkefnum. En um það er trúlega ekkert samkomulag hvaða verkefni eigi þar að vera. Og litla trú hef ég á því að slíkt samkomulag verði í reynd á tiltölulega stuttum tíma. Það munu vera átta ráðuneyti sem um þetta fjalla núna, skilji ég og muni ég rétt, og það tekur ábyggilega einhvern tíma að sannfæra þau ráðuneyti um það hver eigi að láta af sínu inn í þetta. ( Gripið fram í: Eru þau ekki níu?) Eða níu, ég vil ekki fullyrða, kannski níu. Það kann vel að vera. Þá þess heldur.
    Ég segi fyrir mig, og það þarf ekkert að taka það fram, hv. þm. er það auðvitað ljóst hér að þessum orðum sögðum, að það er til of mikils ætlast af mér að ég ljái þessu máli stuðning eins og það liggur fyrir hér í deildinni.