Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 13. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Áður en ég sný mér að því að fjalla efnislega um það frv. sem hér er til umræðu langar mig að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram áðan hjá hv. 4. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Norðurl. e.
    Vegna fyrirspurnar hv. 4. þm. Vestf. vil ég taka það fram að ég hef átt viðræður við fulltrúa Sambands ísl. rafveitna og Sambands ísl. hitaveittna auk fulltrúa annarra orkufyrirtækja, þ.e. Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Ég hef fengið orðsendingar frá ýmsum orkufyrirtækjum sem varða þetta mál. Allt þetta efni hef ég kynnt mér og starfsmenn iðnrn. hafa unnið úr því og eru að vinna úr því. Þeir hafa kynnt þetta á sérstökum fundum með fulltrúum fjmrn., ríkisskattstjóra og Þjóðhagsstofnunar að mínu fyrirlagi. Ég hef líka tekið þetta mál á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Eins og fram kom hér áðan hafði forsrh. skýrt frá því. Málið er þar ekki útrætt, krefst enda, eins og ég hef margítrekað, ákaflega rækilegrar athugunar. Hún fer nú fram. Ég vildi fullvissa hv. 4. þm. Vestf. um að það er staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa við forsendur kjarasamninganna sem nýlega hafa verið gerðir að því leyti sem þær eru á hennar valdi. Frá því verður ekki hvikað.
    Ég kem þá að því sem kom fram hjá hv. þm. Norðurl. e. hér í inngangi. Ég vildi leyfa mér að leiðrétta hv. þm. hvað það varðar að auðvitað sagði ég ekki í títt tilvitnuðu viðtali við sjónvarpið að frv. ylli almennri og verulegri hækkun á orkuverði. Ég sagði hins vegar að ég mundi aldrei standa að neinni breytingu á skattlagningu orkunnar sem hefði þessar afleiðingar. Við það mun ég að sjálfsögðu standa. Það voru mín orð. Ég vil líka segja að það er fjarstæðukennt að halda því fram að Alþfl. hafi átt hugmyndina að þessu frv. sem hér er til umræðu. Þvert á móti liggur það fyrir og hv. þm. hlýtur að
tala gegn sinni sannfæringu, hann hefur hlýtt á það bréf sem þingflokkur Alþfl. skrifaði 13. des., þar sem hann kynnir fyrirvara sína við þetta frv., lýsir efasemdum um ágæti þess, lýsir annmörkum á því og því jafnframt að hann vilji láta það fá rækilega meðferð í þinginu, athugun, þótt hann vilji ekki stöðva að það komi fram. Þetta veit hv. þm. og það er satt að segja dapurlegt að hlýða á það hvað eftir annað að hann leyfi sér að koma með slíkar fullyrðingar.
    Ég sný mér þá að því að fjalla um efni frv. sem hér er til umræðu. Ég hef skýrt frá því fyrr í þessari hv. þingdeild að ég sjái á því ýmis vandkvæði að leggja venjulegan tekjuskatt á orkufyrirtæki. Ég nefni fyrst að í skattalegu tilliti eru orkufyrirtækin alls ekki jafnskýrt skilgreind og t.d. félög sem rekin eru í hlutafélagsformi eða viðskiptabankar og sparisjóðir sem starfa eftir sérstökum lögum, eftir sérstökum reglum um reikningsskil og annað sem því fylgir. Nokkuð hefur verið til þess vitnað í umræðunum um orkufyrirtækin að bankar og sparisjóðir voru gerðir

tekjuskattsskyldir ekki alls fyrir löngu.
    Í reynd er erfitt að draga markalínu á milli orkuveitna og annarra þjónustufyrirtækja sveitarfélaga. Og þessi markalína er ekki nægilega skýrt dregin í frv. Það nægir ekki, að mínu áliti, að vitna til laganna um orkuveitur. Þetta er grundvallaratriði vegna þess að hér þarf að skilgreina hvort tveggja skýrt í upphafi. Hvað er orkufyrirtæki? Hver er sá lögaðili sem gera skal skattskyldan og hvernig skal skilgreina skattskyldu hans? Ýmis þjónustufyrirtæki sveitarfélaga eru oft í bland við orkuveitur. Þjónusta orkufyrirtækjanna hefur einnig verulega sérstöðu miðað við flest önnur þjónustufyrirtæki. Ýmsir erfiðleikar koma upp ef á að nota ákvæði laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, til þess að ná til orkufyrirtækjanna. Það má t.d. nefna að veitur sem eru í eigu sveitarfélaganna geta skotið sér undan skattinum með því að stofna hlutafélag um reksturinn. Ég er alls ekki að halda því fram að þetta væri óæskileg þróun en þetta er eitt af því sem menn þurfa að athuga hvort þeir vilja stefna að. Ef þeir eru talsmenn þess þá kynni að vera að skattskyldan væri skynsamleg. Þetta varðar eingöngu skilgreininguna á hinum skattskyldu aðilum en ekki skattskylduna og þar rísa mörg önnur vandamál.
    Það eru ýmsir möguleikar á því að flétta saman rekstur orkuveitna og sveitarsjóða. Á þetta benti ég þegar fjallað var um málið á fyrri stigum. Ég vil gera það alveg skýrt að ég er ekki, og Alþfl. er ekki, að víkjast undan þeirri heildartekjuöflun sem kveðið er á um í fjárlögum. Ég tel hins vegar að það verði að skoða mjög rækilega hvaða leiðir séu færar og skynsamlegar til þess að skattleggja arð af orkufyrirtækjum á réttlátan hátt og sanngjarnan án þess að það gangi nærri fyrirtækjunum eða leiði til þess að orkuverð hækki almennt. Þetta má undir engum kringumstæðum ske nú. En auðvitað er þetta erfið þraut og þess vegna þarf þingið að kanna málið rækilega.
    Það er kannski sérstaklega við núverandi aðstæður, þegar leggja verður kapp á að halda aftur af verðhækkun til að treysta forsendur nýgerðra kjarasamninga, sem menn verða að fara hér fram með gát. Ég vil þó láta þess getið að ýmsir stjórnarandstæðingar, ekki síst hv. 2. þm. Norðurl. e., hafa með tilvitnunum sínum í einstakar tölur, sem slegið hefur verið fram af
fulltrúum orkufyrirtækjanna, stórlega ýkt áhrif skattlagningar skv. frv. á orkuverð. Þetta segi ég eingöngu af því að þeir hafa gripið til þess að veifa sem allra hæst ýmsum tölum sem þeir hafa viljað nota til að sverta málflutning stjórnarinnar. Engu að síður er fyllsta ástæða til að fara hér varlega og rasa ekki um ráð fram, athuga þetta sem vendilegast.
    Áður en ég vík að þeim vandkvæðum sem eru á því að skattleggja orkufyrirtækin á grundvelli þess frv. sem hér er til umræðu langar mig líka, vegna fyrri umræðu um málið, að víkja nokkrum orðum að skattlagningu orkufyrirtækja í öðrum löndum. Menn hafa haldið því fram hér að það væri einsdæmi, liggur

mér við að segja, að skattleggja fyrirtæki í orkugeiranum. Af ræðum hér í þinginu og því sem sagt hefur verið í fjölmiðlum af ýmissa hálfu mætti ætla að með því að reikna með einhverjum sköttum á íslensk orkufyrirtæki væru Íslendingar að fara alveg ótroðnar slóðir. Þetta er rangt og það er raunar fremur þannig að við séum undantekning meðal vestrænna ríkja með því að undanþiggja orkufyrirtækin skatti.
    Í nokkrum ríkjum, t.d. Danmörk, eru orkufyrirtækin rekin á núlli, eins og sagt er, og hvorki ríki, sveitarfélög né aðrir eigendur mega íþyngja rekstri þeirra með álögum. Þetta verður þó að skoðast í ljósi þess að Danir leggja háan orkuskatt í formi gjalds á hverja selda orkueiningu á alla orkusölu og að sjálfsögðu einnig virðisaukaskatt. Noregur og Svíþjóð hafa einnig komið við sögu í þessum umræðum. Samkvæmt ársreikningi Statskraft, sem er raforkuöflunarfyrirtæki í eigu norska ríkisins, greiddi það fyrirtæki 466 millj. norskra kr. í skatta árið 1986. Auk tekjuskatts, sem vel að merkja er lagður á eftir sérstökum reglum en ekki hinum almennu tekjuskattsreglum og tekur þannig ekki mið af beinni reikningslegri afkomu fyrirtækisins, er lagður á þetta fyrirtæki eignarskattur. Skv. upplýsingum frá Noregi eru lagðir skattar á norsk orkufyrirtæki skv. sérstökum reglum og skiptast þeir milli viðkomandi sveitarfélags, fylkis og ríkis. Í Svíþjóð greiðir þeirra Landsvirkjun, Vattenfall, sem er fyrst og fremst raforkuvinnslufyrirtæki í eigu ríkisins, eignarskatta en ekki tekjuskatt. Sydkraft sem er hlutafélag í eigu sveitarfélaga, tryggingarfélaga, fjárfestingarfélaga, iðnfyrirtækja og reyndar einstaklinga og framleiðir orku fyrir sænska orkudreifingarkerfið, greiðir skatta skv. venjulegum hlutafélagareglum. Í Svíþjóð gildir almennt sú regla að fyrirtæki sveitarfélaga eru þannig rekin að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum, þ.e. þar gildir það sem Svíar kalla sjálfkostnaðarregluna. Við slíkan rekstur leggur hvorki ríki né sveitarfélag skatt á fyrirtækið eða tekur arðgreiðslur. En þegar orkufyrirtækin eru rekin í hlutafélagsformi gilda hins vegar almennar skattareglur. Bæði í Noregi og Svíþjóð er, eins og í Danmörku, lagður sérstakur orkuskattur á hverja selda orkueiningu. Í Svíþjóð og Danmörku, þar sem ekki eru lagðir tekju- og eignarskattar á orkufyrirtækin, mega sveitarfélögin ekki taka arð af fyrirtækjunum né íþyngja þeim með nokkrum öðrum hætti. Þetta er ákaflega mikilvægt til samanburðar því hér á landi hefur það hins vegar tíðkast að sveitarfélögin, ekki síst Reykjavík, taki arð úr orkufyrirtækjunum í sveitarsjóði eða leggi á þau afgjöld svokölluð. Láti þannig fyrirtækin greiða framkvæmdir sem eru þeim óviðkomandi eða gefi eða selji sér orku á lægra verði en almennt gerist.
    Að sjálfsögðu eru mjög mismunandi reglur um það hvernig staðið er að álagningu skatta á orkufyrirtækin í okkar hluta heims, hinum vestrænu ríkjum. Forustumenn orkufyrirtækja hér á landi telja margir að auka þurfi sjálfstæði orkuveitnanna. Sumir tala reyndar fyrir einkavæðingu og þá væntanlega hlutafélagsrekstri og benda í því sambandi á þróunina í nálægum

löndum. Hér tel ég að við eigum fordómalaust að nálgast málið í leit að hagkvæmustu leið til að reka þessi þjónustufyrirtæki almennings. Hins vegar fer heldur illa saman það ákall að fyrirtækin eigi ekki að greiða skatta í samræmi við afkomu og að óska eftir breytingu í átt til einkarekstrar á þessu sviði. Ég tel öllu máli skipta að skattar greiðist í samræmi við raunverulega afkomu fyrirtækja og vil beita mér fyrir því að svo verði. En umfram allt, og því megum við ekki gleyma, er megintilgangur orkufyrirtækjanna að sjálfsögðu að leggja til þá þjónustu fyrir almenning frá þessum fyrirtækjum, sem eru flest í almenningseigu, á sem hagkvæmastan og ódýrastan hátt.
    Ég ætla hér að víkja að talnanotkun í þessu máli sem m.a. hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur beitt sér fyrir. Það hefur verið haft hér eftir forstjóra Landsvirkjunar að ef frv., sem hér er til umræðu, verði að lögum muni það leiða til 46% hækkunar á gjaldskrá Landsvirkjunar. Í áætlun Landsvirkjunar sem hér býr að baki er gert ráð fyrir rúmlega 3,8 milljarða kr. tekjum af orkusölu til almenningsveitna. 46% hækkun á gjaldskrá mundi auka tekjur Landsvirkjunar af orkusölu til almenningsveitna um hvorki meira né minna en 1,8 milljarða kr. Með öðrum orðum væri þá gert ráð fyrir að greiða þyrfti af hálfu Landsvirkjunar 1,8 millj. kr. í tekjuskatt. Þessi niðurstaða er víðs fjarri öllum veruleika. Hún er niðurstaða af talnadæmi. Ég fullyrði að þar sé ekki tekið mið af þeim heimildum sem skattalögin veita, þótt þau eigi ekki vel við rekstur orkufyrirtækja. Hér virðist einungis tekið mið af því að afskrift
verður minni í reikningum Landsvirkjunar og hærri verðbreytingafærslur en reikningur fyrirtækisins sýnir. Þannig er þessi tala fundin og hún hefur ekkert með veruleikann að gera. Með þessu móti er ég alls ekki að tala fyrir því að skattskylda orkufyrirtækja verði með þeim hætti sem í frv. greinir, en það má nú fyrr rota en dauðrota. Og það er fjarstæða að halda því fram, sem gert hefur verið, að það muni af sjálfu leiða að orkuverð hækki um 46% og þar með almenningsveituheildsöluverðið um 30% vegna frv. verði það að lögum. Hér munar einkum því, og það hefur komið fram að áliti löggilts endurskoðanda Landsvirkjunar að sú sérstaka afskrift sem fyrirtækið gæti fært sér í nyt á móti verðbreytingarfærslunni --- sem mestu veldur um þessa háu tölu sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur endurtekið á hverjum degi frá því að fréttin kom í Morgunblaðinu --- að það vantar svona 2,2 milljarða inn í málið sem kæmu að fullu til frádráttar verðbreytingarfærslunni.
    Í bréfi endurskoðanda fyrirtækisins til Landsvirkjunar hefur hann reynt að áætla töluleg áhrif skattlagningar á Landsvirkjun. Hann bendir á ýmsa erfiðleika því samfara og það er mikilvægt því að þeir leiða í ljós ýmis þau vandkvæði sem þetta frv. felur í sér. Hann bendir á mismun á verðbreytingarfærslutekjum, skv. skattalögum og reikningsskilum Landsvirkjunar, hann metur hann á 2 1 / 2 milljarð kr., afskriftir telur hann muni lækka um 400--500 millj. kr., eins og áður sagði, og hann telur

þó að fyrirtækið geti fært 2,2 milljarða kr. í sérstakar afskriftir til að vega á móti verðbreytingarfærslunni. Samkvæmt þessu yrði tekjuskatturinn af fyrirtækinu þó, miðað við þessa áætlun, talinn í hundruðum milljarða kr. en alls ekki 1,8 milljarðar eins og hv. þm. hefur hér talið vera staðreyndir í málinu og sagt hér ítrekað: Ætla menn að vefengja þessa menn, þessa vammlausu embættismenn og reiknimeistara? Sannleikurinn er sá að hv. þm. hefur gert sér far um að vanrækja að geta þeirra staðreynda sem talnameistararnir hafa sjálfir tíundað í sínum greinargerðum. Það sem er rétt í málinu er að því miður henta reglur skattalaganna svo illa orkufyrirtækjunum að það þarf að vanda þar miklu betur hinar sérstöku tengingar og bráðabirgðaákvæði sem í frv. eru. Það má reyndar vel vera að menn þurfi að hverfa að öðrum ráðum til þess að ná fram sanngjarnri skattlagningu á orkufyrirtækin án þess að hún valdi mismunun á milli þeirra eða almennri verðhækkun.
    Ég held að þetta nægi til þess að sýna fram á að þær forsendur sem gengið er út frá í þessum reikningum eru ekki lýsing á veruleikanum. Ég bendi einnig á það að í þessum reikningum forstjóra Landsvirkjunar er einnig gert ráð fyrir 4% arðgjöf af eigin fé fyrirtækisins sem sjálfsögðum hlut. Þeirri arðgjöf hefur fyrirtækið alls ekki náð undanfarin ár og má nefna að arðgjöfin var 2% 1987 og 1,2% árið 1988. Allar forsendur þessara reikninga eru því mjög lausar í reipunum. Vandinn er sá að við þurfum að huga að grundvellinum sjálfum áður en við förum að slá fram tölum í málinu og ég ætla hér, með leyfi forseta, að vekja athygli á og rekja nokkur vandkvæði sem á því eru að skattleggja orkufyrirtækin á grundvelli þeirra tillagna sem í frv. eru. Þetta er nokkur upptalning og fyrsta atriðið sem ég ætla að nefna er það sem ég vék að í upphafi máls míns. Það er að það þurfi að skilgreina betur hvað við sé átt með orðinu orkufyrirtæki í 1. gr. frv. Einkum tel ég vart hægt að byggja á því að vitna eingöngu til orkulaganna um héraðsrafveitur og hitaveitur. Í því sambandi má nefna t.d. að í eigu sumra rafveitna eru virkjanir sem einnig væri nauðsynlegt að nefna í lögunum ef menn ætluðu sér þetta í alvöru.
    Í öðru lagi er í frv. gert ráð fyrir að almennar reglur um fyrningarhlutföll fyrir orkufyrirtækin verði skv. ákvæðum laganna um tekju- og eignarskatt. Ákvæði skattalaganna um afskriftahlutföll eru hins vegar verulega frábrugðin þeim hlutföllum sem notuð hafa verið í ársreikningum fyrirtækjanna og raunar í öllum útreikningum á arðsemi orkuframkvæmda hér á landi. Þau hlutföll sem fyrirtækin hafa notað hafa tekið mið af áætluðum raunverulegum endingartíma mannvirkjanna, líftíma þeirra. Raunar hafa þau til þessa fremur verið talin of há en of lág, þ.e. að endingartími orkumannvirkja sé í raun enn lengri en fyrirtækin þó miða afskriftir sínar við, þ.e. veruleikinn lægi enn fjær viðmiðunarreglum skattalaga. Afskriftahlutföllin sem fyrirtækin nota eru svipuð og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Sem dæmi má nefna

að hér á landi er gert ráð fyrir því að afskrifa vatnsaflsstöðvar á 40 árum eða um 2,5% á ári. Skv. ársreikningum erlendra raforkufyrirtækja er miðað við að afskrifa vatnsaflsstöðvar í Noregi á 40 árum, í Svíþjóð á 40--60 árum, í Englandi á 50 árum og í Skotlandi á 25 árum, í Frakklandi á 50 árum og í Ontario í Kanada á 65 og allt upp í 100 árum. Þessi samanburður sýnir að afskriftir Landsvirkjunar eru fremur örar og þar með hærri en þær eru í flestum samanburðarlöndum. Þær eru hins vegar mjög lágar miðað við að farið væri að ákvæðum laganna um tekju- og eignarskatt því að skv. þeim bæri að nota 12% afskriftir fyrir allan vélbúnað og 4% fyrir stöðvarhús. Skv. lögunum, þ.e. tekjuskattslögunum, væri reyndar þegar búið að afskrifa mestan hluta orkumannvirkja á landinu.
    Í ákvæði til bráðabirgða í frv. er gert ráð fyrir að nota megi gildandi
fasteignamat í árslok 1990 í stað endurmatsverðs mannvirkja. Þetta ákvæði nýtist orkufyrirtækjunum hins vegar lítt eða ekki þar sem aðeins mjög lítill hluti mannvirkjanna sem tengjast virkjunum er metinn til verðs í fasteignamati. Þannig er ekkert fasteignamat til á vélbúnaði, stíflum, vatnsvegum, spennistöðvum, háspennulínum, borholum, aðveituæðum og fleiri mannvirkjum sem tengjast orkubúskapnum.
    Þá nefni ég í þriðja lagi að skv. ákvæðum skattalaga ber að reikna verðbreytingarfærslu á grundvelli peningalegra eigna og skulda í byrjun hvers rekstrarárs. Þessi aðgerð getur gefið mjög misvísandi mynd af afkomu fyrirtækja ef peningalegar eignir og skuldir þeirra eru ekki í jafnvægi, en það er einmitt einkenni efnahagsreikninga fjölmargra orkufyrirtækja. Skv. ákvæðum skattalaga er verðbreytingarfærsla einnig reiknuð miðað við meðaltalsbreytingar á byggingarvísitölu milli ára. Þegar mikið misræmi er milli innlendra verðbreytinga og breytinga á gengi gefur afkomumæling skv. lögunum um tekju- og eignarskatt mjög misvísandi mynd af raunverulegri afkomu fyrirtækjanna. Fjármagnskostnaður orkufyrirtækja, að mestu erlendur, vegur mun þyngra í þeirra rekstri en algengast er í okkar atvinnuvegum og því er afar þýðingarmikið að útreikningar á þessum kostnaði í skattalegu tilliti séu vandaðir. Það liggur fyrir að lögin um tekju- og eignarskatt eru gölluð í þessu tilliti og þau þurfa almennrar lagfæringar við í þessum punkti. Hann verður sérlega mikilvægur þegar kemur að fyrirtækjum sem hafa þá fjárhagsskipulagsgerð sem raun ber vitni í orkubúskapnum. Það virðist þess vegna hæpið að yfirfæra þau á orkufyrirtækin, eða þá ekki fyrr en slík lagfæring hefur farið fram.
    Ég nefni í fjórða lagi að í ákvæði til bráðabirgða í frv. er kveðið á um að á árinu 1990 skuli framkvæmt endurmat á fyrnanlegum eignum. Ég tel að slíkt mat geti orðið mjög erfitt, bæði af tæknilegum og eins bókhaldsástæðum, þ.e. að bókhald fyrirtækjanna undangengin ár og áratugi sé ekki nægilega sundurliðað til þess að unnt sé að nálgast matsverð á skynsamlegan hátt. Ég bendi á að

orkufyrirtækin hafa þá sérstöðu að rekstrarkostnaður er mjög lítill miðað við stofnkostnað þannig að skattmat hjá þeim snýst að mestu leyti um fjármagnskostnað og um mat á stofnkostnaði.
    Þá nefni ég í fimmta lagi, forseti, að skilin milli fyrnanlegra eigna og viðhalds á eignum, sem bera arð í rekstri og heimilt er að draga frá tekjum skv. skattalögum sem rekstrarkostnað, eru næsta óljós í orkubúskapnum. Ég nefni nokkur dæmi þessu til skýringar.
    Ég nefni fyrst borun nýrrar holu fyrir hitaveitu í rekstri. Þar getur ástæðan annars vegar verið sú að vegna langvarandi dælingar hafi afköst eldri holu minnkað og nauðsyn sé á að fá aðra í hennar stað eða hins vegar að orkuþörfin í sveitarfélaginu hafi aukist. Á þessu er eðlismunur frá sjónarmiði orkufyrirtækisins. Annað er í eðli sínu endurnýjun, hitt er ný fjárfesting. Ég sé að þetta vekur kátínu hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. en þetta er úrslitamál fyrir fyrirtæki eins og Hitaveitu Akureyrar.
    Sem annað dæmi nefni ég aðveitulögn sem lögð væri frá nýju vinnslusvæði sem tekið er í rekstur og kemur í stað svæðis þar sem afköst hefðu minnkað svo vegna vatnsborðslækkunar að orkuþörf væri ekki fullnægt eða hætta talin á að salt eða önnur efni mengi vinnslusvæðið. Erfitt yrði að meta hvort þetta væri ný fjárfesting eða viðhald.
    Ég nefni sem þriðja dæmi: Aðveituæð fyrir hitaveitu væri endurnýjuð en með meiri flutningsgetu en sú gamla, sem væri jafnframt rekin áfram til að auka öryggi. Hvar er fjárfestingin og hvar er viðhaldið?
    Ég nefni sem fjórða dæmi endurbyggingu á stíflu fyrir 40 ára gamla vatnsaflsvirkjun sem um leið væri hækkuð nokkuð. Ástæða endurbyggingarinnar gæti t.d. verið skemmdir sem hefðu orðið á stíflunni við jarðhræringar.
    Ég nefni sem fimmta dæmi endurnýjun á 30 ára gamalli raflínu með nýrri línu. En nýja línan væri með hærri spennu en sú gamla.
    Ég nefni sem sjötta dæmi að skipt væri um spenna á gamalli línu til þess að hækka spennuna á henni.
    Þessi sex dæmi sem ég hef tekið um mörkin milli fyrnanlegra eigna og viðhalds á eignum sem úrslitum mundu ráða um skattskyldu orkufyrirtækja eru ekki gamanmál. Þau eru mjög vandasamt úrlausnarefni ef beita á ákvæðum skattalaganna. Þau eru líka valin af því að þau lýsa veruleikanum í íslenskum orkubúskap. Við stöndum víða frammi fyrir þessum verkum og þess vegna þarf að vanda mjög hvernig á þeim er tekið ef menn ætla á annað borð að fara þessa leið.
    Þá kem ég í sjötta lagi að því, virðulegi forseti, sem um er fjallað í 32. gr. laga um tekju- og eignarskatt, í 3. tölul. reyndar, undir yfirskriftinni ,,Eyðanleg náttúruauðæfi``. Jarðhitasvæðin hljóta að falla undir þetta ákvæði því mörg þeirra endurnýjast a.m.k. ákaflega hægt miðað við vinnslu. Um þetta geta menn að vísu ekki fullyrt því reynsla okkar af nýtingu jarðhita, sérstaklega háhitans, er skömm. Við höfum hins vegar langa reynslu af nýtingu

lághitasvæða en jafnvel þar er ekki hægt að líta svo á að jarðhiti falli undir
endurnýjanlega orkulind.
    Þá kem ég að því að það segir í 5. tölul. 38. gr. laganna um tekju- og eignarskatt: ,,Eyðanleg náttúruauðæfi og keyptan rétt til nýtingar þeirra skal fyrna miðað við áætlaða heildarnýtingu og raunverulega nýtingu ár hvert. Áætluð heildarnýting er háð samþykki skattstjóra.``
    Ég ætla ekki að fjölyrða um það að skattstjórar væru lítt í færum að leggja slíkt mat á það hversu mikið væri gengið á hina eyðanlegu náttúruauðlind hverju sinni. Ég tek sem dæmi að skattstjórinn á Reykjanesi þyrfti þá að leggja mat á það hvernig fyrna ætti nýtingu jarðhitans undir Svartsengi. Skattstjórinn á Reykjanesi er hæfur maður. Ég held samt að hann ætti ekki að þurfa að leggja mat á þetta. Ég býst við því að hann mundi kalla til sérfræðinga í vinnslu jarðhita sér til halds og trausts og þeir eru ekki allir á einu máli um það hversu mikið sé gengið á forðann á hverju ári sem menn tappa af þessu svæði. Slíkt mat er því eðli málsins samkvæmt mjög mikilli óvissu háð og breytist gjarnan eftir því sem gengur á forða svæðisins. Í því sambandi má einnig nefna að oft eru þau vandamál sem upp koma þegar gengur á forðann engan veginn fyrirsjáanleg.
    Ég nefni í sjöunda lagi að í 5. tölul. 32. gr. skattalaganna er kostnaður við tilraunavinnslu og rannsóknir settur undir stofnkostnað. Þetta á oft ekki við í sambandi við orkuvinnslu og orkar reyndar oft tvímælis hvort tilraunavinnslu og rannsóknir eigi að færa undir stofnkostnað þegar menn gera tilraunir upp á von og óvon með að finna nýtanlega orkulind.
    Af þessum sjö atriðum sem ég hef talið og undirliðum þeirra er væntanlega ljóst að vandaðan undirbúning þarf til þess að gera orkufyrirtækin skattskyld eftir ákvæðum tekjuskattslaga. Í því sambandi þarf, auk framantalinna efnisatriða, að hafa í huga uppgjörsvenjur og reikningsskil fyrirtækjanna og eins og ég nefndi í upphafi um réttarstöðu þeirra sem persóna að lögum og tengsl þeirra við hinar skattfrjálsu einingar í landinu, sveitarsjóðina og ríkið. Reyndar má einnig á það benda að ýmsar af okkar veitum, ýmis okkar orkufyrirtæki eru stofnuð með sérstökum samningum og lögum þar sem gagnkvæmar skyldur hvíla á eigendum að íþyngja ekki meðeigendunum með nýjum álögum. Allt þetta er að sjálfsögðu í hendi löggjafans sem hefur sett þessi lög eða heimilað slíka samninga, en það leggur líka sérstakar skyldur á herðar þessari þingdeild og hennar hv. fjh.- og viðskn. að vanda meðferð málsins og forðast í því sleggjudóma, skæting og upphrópanir sem eru til þess ætlaðar að slá pólitískar keilur en ekki að finna lausn á því mikilvæga úrlausnarefni sem hér liggur fyrir deildinni.
    Sú spurning hlýtur að vakna við athugun á þessu frv. hvernig menn eigi að áætla tekjur ríkissjóðs af skattlagningunni og líka til hvaða leiða vænta megi að eigendur fyrirtækjanna kynnu að grípa til þess að bregðast við skattskyldunni. Í þessu tel ég ekki felast

neinar ávirðingar fyrir þá sem standa fyrir þessum fyrirtækjum. Að sjálfsögðu er það þeirra skylda að gæta hagsmuna þeirra. Í því sambandi má t.d. ætla að nokkur hætta kynni að vera á því að orkuverð hjá veitum í eigum sveitarsjóða, þar sem veitan skuldar lítið, verði einfaldlega lækkað langt niður fyrir jaðarkostnað við að afla nýrrar orku og í stað þess að fjármagna framkvæmdir með tekjum eða af eigin fé verði stofnað til skulda sveitarsjóðsins. Þetta væri auðvitað hrapalleg þróun og skattskyldan má ekki verða til þess að hún kvikni. Þá má benda á að veitur sem eru í eigu eins sveitarfélags kynnu að hafa af því skattalegt hagræði að stofna hlutafélag um reksturinn eða að blanda rekstri orkuveitnanna saman við annan rekstur á sínum vegum þannig að erfitt væri að greina á milli og færa tekjur sérstaklega á reikning orkuvinnslu og dreifingar.
    Hjá öðrum fyrirtækjum gæti hins vegar orðið um óhjákvæmilega hækkun orkuverðs að ræða þar sem greiðslustaða fyrirtækja, misvægi milli peningalegra eigna og skulda og reglna í skattalögum eru af því taginu. Hættan gæti verið sú að skatturinn leiddi til aukins verðmunar milli orkufyrirtækja gagnstætt yfirlýstri stefnu Alþingis og ríkisstjórnar um að stuðla að jöfnun verðs á orku í landinu.
    Af þessum ástæðum hefur Alþfl. lýst efasemdum um ágæti þessa frv. En hann vill hins vegar ekki skorast undan því að taka þátt í hvoru tveggja, heiðarlegri athugun á því hvernig best sé að koma fyrir afskiptum hins opinbera af orkuverðinu og skattlagningu orkufyrirtækjanna því auðvitað hafa þau ekki eilífðarfrí frá því að taka þátt í kostnaði af velferðarríkinu. Það má vel vera að þessi umræða verði til þess að færa rekstur þeirra inn á atvinnulegar brautir. En ég vil kanna aðrar leiðir, jafnhliða þessari athugun, m.a. á grundvelli athugunar á orkuverði og skattlagningar á orku sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinnur nú að fyrir iðnrn.
    Þessum ábendingum mínum í þessari tiltölulega stuttu ræðu beini ég til hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Nefndin þarf að fara mjög vandlega yfir frv. og kveðja til sérfróða menn til að meta það hvað réttast sé í hverri grein og hvernig úr því megi ráða. Ég tel óhjákvæmilegt að við þá athugun verði til kvaddir sérfróðir menn og fulltrúar orkufyrirtækja en menn mega ekki
gleyma því að orkufyrirtækin hafa ekki sjálfstæðan tilgang. Þau eru þjónustufyrirtæki almennings og það er verkefni þingsins að reyna að finna leiðir til þess að gera þá starfsemi sem hagkvæmasta og almenningi sem hollasta.